Iðnráðgjafar
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 12 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. iðnrh.: ,,Hvað líður undirbúningi að frv. til laga um iðnráðgjafa?``
    Ég rifja það hér upp vegna þessarar fsp. að lög voru í gildi frá árinu 1981 til 1986 um starfsemi iðnráðgjafa í landshlutunum. Þessi lög féllu niður þar eð þau voru ekki framlengd, en í upphaflegum lögum var svokallað sólarlagsákvæði til þess að fá endurskoðun fram í ljósi fenginnar reynslu.
    Á árinu 1987 var mikil óvissa ríkjandi um framhald þessa máls þar sem inn í fjárlagafrv. 1988 hafði ekki verið tekin fjárveiting til iðnráðgjafa og vísað í það að engin lög giltu um þessa starfsemi. Ég bar fram fsp. við hæstv. fyrrv. iðnrh. Friðrik Sophusson, sem kom til umræðu hér í Sþ. 5. maí sl., þar sem spurt var um það hvað yrði gert af hálfu framkvæmdarvaldins til að tryggja áframhaldandi stuðning úr ríkissjóði við iðnráðgjöf í landshlutunum. Hæstv. þáv. ráðherra svaraði því til að þó að hann teldi ekki endilega þörf á því að lög giltu um þessa starfsemi væri hann þeirrar skoðunar, eins og hann sagði í svari sínu þá: ,,Í ljósi þessarar reynslu [þ.e. varðandi fjárveitingar] mun ég beita mér fyrir því að lög um iðnráðgjafa verði endurnýjuð á svipuðum grunni og þau lög sem í gildi voru og að stuðningur ríkisins við starfsemi iðnráðgjafa verði ekki minni en verið hefur.`` Þetta kom fram í svari fyrrv. iðnrh.
    Ég er þeirrar skoðunar að starfsemi þessa þurfi að treysta með meiri stuðningi af hálfu hins opinbera en verið hefur, sérstaklega tryggja að það verði fleiri en einn ráðgjafi starfandi á hverju svæði þannig að þeir geti stutt hver annan. Ég held að það sé það sem hefur takmarkað þessa starfsemi, sem annars er mjög góð reynsla af, að aðeins hefur verið um einn starfsmann að ræða í hverjum landshluta nema á Vestfjörðum þar sem starfsemin hefur ekki komist til framkvæmda og því þurfi að tryggja þessa starfsemi með löggjöf og auknum stuðningi.