Greiðslur fyrir sauðfjárafurðir
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Egill Jónsson):
    Virðulegi forseti. Þær fréttir hafa flogið um að tilhögun á greiðslum til sauðfjárbænda hafi á þessu hausti verið með öðrum hætti heldur en að undanförnu. Það hefur líka heyrst að fyrir því væru hvorki lög né reglur hvernig haga á þeim greiðslum með ákveðnum og skýrum hætti. Úr þessu vildi ég fá skorið með þeirri fsp. sem ég mæli hér fyrir.
    Í 29. gr. búvörulaganna er kveðið skýrt á um að Framleiðsluráði landbúnaðarins beri að setja reglur um þessa greiðslutilhögun og þar sem það liggur fyrir, m.a. sem skýring frá þeim sem kaupa frá bændum þessar afurðir, að þessar reglur eru ekki fyrir hendi vildi ég fá staðfestingu á því hér á Alþingi frá landbrh. hverjar þessar reglur væru. Auðvelt er síðan að rekja málið í framhaldi af því, þ.e. þegar fyrir liggur hverjar reglurnar eru. Þá er spurningin: Er þeim framfylgt? Er farið eftir lögum í þessum efnum eða eru lög brotin á bændum landsins sem stunda þessa búgrein?
    Vonandi verður það ekki niðurstaðan í svari hæstv. landbrh. og fjarri því er að ég ætli það hans vilja, en ef svarið verður á þann veg er alveg nauðsynlegt að fá það upplýst hvaða viðbrögð ríkisstjórnin ætlar að hafa uppi til að tryggja að ekki séu brotin lög eða réttur á sauðfjárbændum í þessum efnum.