Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka það fram að Framsfl. stendur einhuga að efnahagslegum markmiðum þessa fjárlagafrv. en þau eru: Varanleg lækkun verðbólgu, sem er aðalmarkmið, lækkun vaxta, að koma í veg fyrir aukinn viðskiptahalla, minni erlendar lántökur, aukið réttlæti í skattamálum og þeim megineinkennum frv. að það er lagt fram með tæplega 1,2 milljörðum í tekjuafgang. Dregið er verulega úr opinberri fjárfestingu, aðhald er veitt að útgjöldum ríkissjóðs og reynt að halda uppi óbreyttri þjónustu á sviði velferðarmála. Ríkissjóður greiðir niður skuldir í stað þess að bæta sífellt við þær og stórlega verður dregið úr erlendum lántökum opinberra aðila.
    Áður en ég kem nánar inn á ýmsa þætti fjárlagafrv. við þessa 1. umr. tel ég nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um aðdraganda þess að þetta fjárlagafrv. er lagt fram og hvernig það er byggt upp við næsta óvenjulegar aðstæður í þjóðfélaginu. Nægir þar að sjálfsögðu að vitna til stefnuræðu hæstv. forsrh. þar sem rakið er í skýru máli ástand þjóðmála frá kosningum vorið 1987.
    Starfssaga fyrrv. ríkisstjórnar er því miður saga mistaka, forustuleysis og ákvarðana sem teknar voru of seint þannig að aðgerðir náðu ekki þeim markmiðum sem að var stefnt þrátt fyrir skýra stefnu ríkisstjórnarinnar og nægan meiri hluta á Alþingi. Tillögur innan ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að lækka vexti og fjármagnskostnað og koma böndum á ofþenslu í fjármögnunarfyrirtækjum náðu aldrei fram að ganga. Fjármagnskostnaðurinn rauk upp úr öllu valdi þannig að fjársvelt útflutningsfyrirtæki neyddust til að nýta sér hið dýra fjármagn gráa markaðarins. Þetta varð til þess að undirstöðuatvinnugreinar í okkar þjóðfélagi eru nú í meiri lægð en oftast áður. Erlendar skuldir urðu 4 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir og helmingur þess fór bakdyramegin inn í efnahagslífið í gegnum kaupleigufyrirtækin, sem blómstruðu eins og önnur peningafyrirtæki í hinum stjórnlausa geira fjármagnsmarkaðarins. Fjármagnsfyrirtækin soguðu þannig til sín fjármagn frá atvinnurekstrinum.
    Eiginfjárstaða flestra fyrirtækja í undirstöðugreinum er nú neikvæð. Þetta var sú dökka mynd sem blasti við þegar ný ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við 28. sept. sl. og kemur glöggt fram í fjárlagafrv. og í viðræðum stjórnarflokkanna og áformum þeirra til að snúa þessari óheillaþróun við. Sem dæmi um þetta er rétt að vitna í stefnuræðu forsrh., með leyfi forseta: ,,Atvinnulífið í landinu er á hraðri leið fram af hengifluginu, hneppt í hnappheldu fjármagnsfjötra og tapreksturs.``
    Í stjórnarmyndunarviðræðunum gerðu menn sér ljósa grein fyrir því að ef takast á að snúa þessu ástandi við þarf róttækar breytingar í efnahagskerfinu og mikla vinnu við stefnumörkun til lengri tíma, eins og kemur fram í stefnumörkun núv. ríkisstjórnar. Fjárlagafrv. og þau lagafrv., sem því munu fylgja, bera þessa ljósan vott.

    Sjálfsagt flokkast þessi fjárlög undir þau erfiðustu sem lögð hafa verið fram síðari ár. Rekstrarhalli ríkissjóðs er hrikalegur, rúmir 3,5 eða jafnvel 4 milljarðar kr. og þar af er vaxtakostnaður ríkissjóðs við Seðlabankann 1,3 milljarðar umfram áætlun þessa árs. Innheimta skatttekna ríkisins hefur brugðist í ákveðnum atriðum, ekki síst hvað varðar vörugjald og söluskatt.
    Það er mjög erfitt að þurfa að viðurkenna að skattkerfisbreytingin frá árinu 1987, er varðar söluskatt, skyldi ekki skila sér. Það sem menn færðu sem aðalrök fyrir söluskattssvikum og vanda þess að herða eftirlit voru undanþágur á söluskatti. Þegar þessu var breytt varð árangurinn því miður sáralítill. Ég tel að jafnhliða þessari breytingu hefði átt að herða innheimtuaðgerðir. Framkvæmd eftirlits hefur greinilega verið í molum og því þurfti harðari aðgerðir. Strax hefði átt að setja það sem skyldu að taka upp sölukassakerfi með innsigluðum upplýsingum sem lögskipaðir eftirlitsmenn skoðuðu eftir ákveðnu kerfi og bæru saman við söluskattsskýrslur. Brot gegn skilum eiga að varða tafarlausan missi réttinda til heildsölu- og smásöluverslunar. Það er ekki hægt að þola að sölugjaldi sem almenningur greiðir við móttöku vörunnar við kassa, eða á annan hátt, sé ekki skilað tafarlaust til ríkissjóðs. Annað eru svik sem verður að uppræta. Á þetta atriði hefur oft verið bent af talsmönnum framsóknarmanna og sumir hafa gert það að umtalsefni hér á hv. Alþingi ár eftir ár. Allt of mörg fyrirtæki í verslun og þjónustu hafa komist upp með að skila ekki innheimtum sköttum og opinberum gjöldum. Þetta safnast saman svo mánuðum skiptir og endar með aðgerðum, fyrirtækin verða gjaldþrota og um leið tapast tekjur ríkissjóðs. Það er fróðlegt að hafa heyrt nýjar upplýsingar um þetta mál, sem komu fram á fundi sem hæstv. fjmrh. var á í gær, þar sem upplýst er að vanskil á söluskatti til ríkisins eru ekki undir 4 milljörðum króna.
    Ég tel að staðgreiðslukerfið hafi sannað gildi sitt, þótt nokkurn tíma þurfi til að ná réttum tökum á því svo að réttlæti aukist, en það lofar vissulega góðu bæði fyrir ríki, sveitarfélög og launþega almennt.
    Ég tel eitt erfiðasta viðfangsefni ríkisfjármála vera þá sjálfvirkni sem er í öllu kerfinu. Þar ber hæst launakerfið. Nýjar stofnanir hafa ótrúlega
mikið sjálfræði til að þenja sig út og vitnað er í lagasetningu frá Alþingi sem ekki er fylgt eftir með ströngu aðhaldi. Sjálfvirknin í launakerfinu er gífurlegt vandamál, aukning stöðugilda umfram heimildir í opinberum stofnunum og ráðuneytum kemur fram í ýmsum myndum. Fólk er ráðið í yfirvinnu og hlutastörf og kostar þessi verkefnaráðning í mörgum tilfellum jafnmikla fjárhæð og fastráðning starfsmanna skv. stöðugildum. Þessu fylgir svo krafa um önnur rekstrargjöld. Þarna er aftur farið á bak við fjárlög vegna skorts á eftirliti og staðfestu yfirmanna og kemur ekki í ljós fyrr en ríkisféhirðir hefur greitt viðkomandi reikninga.
    Að öllu óbreyttu hefur launadeild fjmrn. ekki möguleika á að ráða við þetta sjálfvirka kerfi. Fjvn.

hefur rætt þetta mál og ég tel að hún verði að taka það föstum tökum og láta stöðva þessa þróun eða draga úr neikvæðum áhrifum hennar og gera ákveðnar tillögur til ríkisstjórnar þar um.
    Með breytingum á lögum um Ríkisendurskoðun, þar sem hún er tengd Alþingi, var stigið stórt framfaraspor í meðferð ríkisfjármála. Ríkisendurskoðun vinnur með fjvn. við yfirferð fjárlagafrv. og er það ómetanlegt, eins og fram kom við gerð síðustu fjárlaga. Hlutverk Ríkisendurskoðunar er skilgreint í lögum en ljóst er að hægt er að ætlast til, og raunar skilgreint í lögum, að Ríkisendurskoðun leggi þingnefndum til sérhæfða starfskrafta sem geti starfað að margvíslegum umsögnum og upplýsingaöflun varðandi fjárhagsmálefni ríkisins. Fjvn. hefur ákveðið að nota sér þetta og hefur gert samkomulag við Ríkisendurskoðun þar um og mun það auka mjög þessi afskipti.
    Ríkisendurskoðun hefur þegar gert úttekt á framkvæmd fjárlaga 1987 og fjárlaga fram yfir mitt ár 1988, úttekt á ýmsum opinberum stofnunum sem gefur glögga mynd af ýmsum veigamiklum atriðum sem þarf að taka tillit til og gera á endurbætur. Varðandi framkvæmd fjárlaga fyrri hluta árs 1988 komu fram margar ítarlegar upplýsingar, m.a. um launakerfi ríkisins sem ég hef gert hér að umtalsefni. Ríkisendurskoðun telur brýnt að eftirtalin atriði séu tekin til athugunar vegna framkvæmda fjárlaga 1988:
    1. Eflt verði til muna eftirlitskerfi hjá launaskrifstofu fjmrn. er varðar heimildir ráðuneyta og stofnana um fjölda stöðugilda og magn þeirrar yfirvinnu og annarra greiðslna sem fjárlög heimila á hverjum tíma.
    2. Hert sé innheimta sölugjalds. Sérstök athugun hefur verið gerð á innheimtuárangri til júlíloka þessa árs. Í ljós kemur að innheimtuhlutfall, miðað við álagningu ársins og óinnheimtar eftirstöðvar, hefur lækkað frá því sem var á árinu 1987 og miðað við áætlun fjmrn. fyrir þetta ár.
    3. Settar verði skýrar reglur um fjárhagsábyrgð aðila sem annast þjónustu fyrir ríkissjóð er hann greiðir að öllu eða að meginhluta til. Í þessu sambandi er bent m.a. á afkomu sjúkrastofnana á árinu 1987, sem var hrikaleg eða taprekstur upp á 700 millj.
    Ég undirstrika mikilvægi Ríkisendurskoðunar fyrir meðferð og eftirlit mála í meðferð Alþingis og tel að því eigi að gefa miklu meiri gaum heldur en gert hefur verið.
    Hæstv. fjmrh. hefur margtekið fram að þetta fjárlagafrumvarp og það sem því fylgir væri enginn gleðiboðskapur. Auðvitað er það hárrétt. Ný stefna í ríkisfjármálum er brýn nauðsyn ef ekki á illa að fara. Fjárlög með tekjuafgangi er rétt stefna. Lækkun útgjalda, lækkun vaxta og samræmd stjórn á fjármagnsmarkaði til lækkunar á rekstrarkostnaði atvinnurekstrar og heimila er einnig rétt stefna. Ef þetta tekst í meðferð Alþingis á þessu frv. er jákvæðum árangri náð til framhaldsaðgerða í stefnumörkun í okkar landi.

    Í mínum huga er aðalatriðið að ná niður verðbólgunni, tryggja þar með atvinnureksturinn í landinu og forða atvinnuleysi. Þetta er ekki hægt nema ríkissjóður skili jákvæðum árangri, þ.e. tekjuafgangi í stað hallareksturs. Til þess þarf aukna skattheimtu og aðhald í eyðslu.
    Í athugasemdum fjárlagafrv. er gert ráð fyrir lækkun útgjalda á eftirfarandi hátt, með leyfi hæstv. forseta:
    Dregið er úr framlögum til framkvæmda, ekki síst þar sem mest þensla hefur ríkt. Ekki verði hafnar nýjar framkvæmdir og ýmsum framkvæmdum, sem í gangi eru, er dreift á lengri tíma en áður var áætlað.
    Ákveðið var að ýmis framlög, svo sem til framkvæmdasjóða, endurgreiðslu söluskatts og jöfnunargjalds og óskipt framlög til framkvæmda, yrðu óbreytt að krónutölu milli ára.
    Gert er ráð fyrir að dregið verði úr starfsmannahaldi á vegum ríkisins, eins og nánar er vikið að. Í fjárlögunum kemur sú lækkun fram með þeim hætti að fjárveiting til að bæta stofnunum launabreytingar innan ársins hefur verið lækkuð og mun þess verða gætt við ráðstöfun fjár til stofnana að náð verði þeim markmiðum sem viðkomandi ráðuneyti og fjmrn. setja í þessu efni.
    Þjónustustofnunum er ætlað að verðleggja og selja þjónustu sína í auknum mæli í samræmi við tilkostnað. Þá er gert ráð fyrir að starfsemi nokkurra stofnana og einstök viðfangsefni þeirra verði tekin til sérstakrar athugunar, starfsemi lögð niður, flutt til annarra eða hagrætt.
    Gert er ráð fyrir því að fjármálakafli laga um framhaldsskóla komi ekki
til framkvæmda á næsta ári. Ekki hafa verið gerðar þær ráðstafanir í fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem réttlæta þá kostnaðartilfærslu sem af þeim lögum leiðir og rétt er að það mál verði skoðað í tengslum við aðra verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Stefnt er að verulegum sparnaði í heilbrigðiskerfinu. Áætlað er að lækka megi til muna lyfjakostnað, með breyttum reglum þar að lútandi, lækniskostnað vegna sérfræðiþjónustu, m.a. með því að taka upp að nýju tilvísunarkerfi, kostnað við rannsóknastofur o.fl. o.fl.
    Í frv. eru tilgreindar breytingar á tekjuöflun ríkisins. Hæstv. fjmrh. hefur sérstaklega gert grein fyrir þeim í sinni ræðu og þessar hugmyndir um breytingar eru nú til meðferðar hjá ríkisstjórninni. Ég vil sérstaklega undirstrika að eftir er að ganga frá ákvörðun stjórnarflokkanna um hvaða leiðir verða endanlega farnar í tekjuöflun frv. En það var samþykkt í öllum þingflokkum og valdastofnunum stjórnarflokkanna að standa við áform fjárlagafrv. um tekjur og gjöld með tekjuafgangi allt að 1,2 milljörðum kr. Frá þessu er ekki hægt að hlaupa. Og ég vil ekki trúa því að ábyrgir stjórnmálamenn leyfi sér að koma í veg fyrir möguleikann á því að rétta við stöðu þjóðarbúsins, stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs, lækka verðbólgu, ná niður vaxtakostnaði og stöðva

gráa markaðinn, setja hömlur á fjármögnunarfyrirtæki, styrkja stöðu atvinnuveganna í landinu og vinna markvisst að jafnvægi í byggðamálum og þjóðarbúskapnum í heild. Það væru í raun einkennilega samsettir menn sem ekki kæmu auga á aðsteðjandi vanda, kreppuna í atvinnulífinu í dag, en gerðu allt sem þeir orkuðu til að sporna gegn opinberum aðgerðum til að komast út úr þessu efnahagsástandi. Slíkir menn vinna gegn þjóðarhagsmunum á erfiðleikatímum. Við þurfum að verja afkomu sjávarútvegsins, landbúnaðarins og iðnaðarins og allt sem þessum undirstöðugreinum tengist því það gerir okkur í raun kleift að lifa í þessu landi með atvinnu fyrir alla. Ég trúi því að þessari ríkisstjórn undir forustu Steingríms Hermannssonar takist þetta hlutverk. Ég er viss um það.
    Virðulegi forseti. Ég hefði viljað sjá í þessu frv. meira dregið úr sjálfvirkum hækkunum útgjalda eða frestun framkvæmda í vissum greinum miðað við ástand þjóðmálanna í dag. Það væri engin frágangssök að fresta um sinn ýmsu sem við viljum framkvæma gegn því að við næðum tökum á því erfiða efnahagsdæmi sem er í atvinnurekstri þjóðarinnar í dag.
    Ég tel tímabært að taka til endurskoðunar nokkrar framkvæmdir og mun beita mér fyrir því. Ég vil t.d. sjá úttekt á því hvers vegna framkvæmdir við þjóðarbókhlöðu fara hundruðum milljóna kr. fram úr frumáætlunum sem voru lagðar til grundvallar þegar samþykkt var að byggja húsið. Þetta liggur ekki skýrt fyrir í dag en ljóst er að þessi frumáætlun hefur aldrei verið tekin til raunhæfrar athugunar fyrr en núna að farið er að framkvæma hana og þá kemur þetta hrikalega dæmi í ljós. Ég hefði viljað sjá kostnaðaráætlanir vegna kaupa og framkvæmda við hús sem keypt var af Vörumarkaðinum við Ármúla. Þar voru gerð mistök í upphafi vegna rangra upplýsinga um ástand og möguleika þess húss til að taka við því hlutverki sem því var ætlað. Þetta eru fá dæmi af allt of mörgum sem ákveðið er að framkvæma án þess að fyrir liggi vönduð úttekt eða framkvæmda- og kostnaðaráætlun um lokastig framkvæmda. Þessu verður að breyta.
    Ég vil benda á að í frv. eru nokkrir liðir sem gera má ráð fyrir að þurfi að endurskoða sérstaklega við afgreiðslu frv. Ég nefni ýmsa þætti í landbúnaðarmálum, mál Búnaðarfélagsins, jarðræktarstyrki og búfjárræktarlög, sauðfjárveikivarnir og landgræðslu, svo eitthvað sé nefnt. Það er ljóst að þarna er að skapast vandi sem Alþingi er skyldugt að leysa.
    Í sambandi við Vegagerð ríkisins vil ég undirstrika að við samþykkt vegáætlunar sl. vor fyrir árið 1988 voru markaðar umframtekjur Vegasjóðs vegna 1987 og 1988 samtals 285 millj. kr. og var þeim ráðstafað til framkvæmda í nýbyggingu vega 1989. Fjvn. skipti þessari fjárhæð á kjördæmin og þetta var samþykkt hér einróma á síðasta þingi.
    Þessi skipting var þannig, með leyfi hæstv. forseta, að til stofnbrauta, þ.e. nýframkvæmda, var óráðstafað

224 millj. kr. á árinu 1989 og skiptast þær þannig á kjördæmin: Suðurland fær 23 millj., Reykjanes 13 millj., Vesturland 24 millj., Vestfirðir 32 millj., Norðurl. v. 18 millj., Norðurl. e. 32 millj., Austurland 32 millj., Ólafsfjarðarmúli 25 millj. og höfuðborgarsvæðið 25 millj. Til þjóðbrauta var á árinu 1989 skipt 39 millj. kr., þannig að Suðurland fær 9 millj., Reykjanes 2 millj., Vesturland 8 millj., Vestfirðir 5 millj., Norðurl. v. 5 millj., Norðurl. e. 5 millj., Austurland 5 millj. og til brúagerða fara 22 millj. Þessari ákvörðun verður að sjálfsögðu ekki haggað í þessu fjárlagafrv. Það kemur ekki til greina.
    Þá tel ég rétt að taka fram við 1. umr. fjárlaga að til Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi var á þessu ári veitt framkvæmdafjárhæð að upphæð 5 millj. kr. til lokahönnunar og undirbúnings framkvæmda við byggingu þjónustu- og mötuneytisbygginga við skólann sem byggðar verði á næstu þremur árum og þar með var heimilað að hefja þessa framkvæmd. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1989 hefur þessi upphæð fallið út, fyrir mistök skv. upplýsingum hæstv. menntmrh.,
og mun fjvn. leiðrétta þetta við 2. umr. fjárlaga í samráði við hæstv. ráðherra.
    Þá vil ég vekja athygli á ákvörðun um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem ekki er í frv. Þetta mál er stórmál sem tengist tekjustofnabreytingu vegna sveitarfélaga. Ég tel sjálfsagt að vanda nú vel til í þessu máli og Alþingi taki á því á vetrarþingi. Ákvörðun liggi fyrir sem lög næsta vor og taki þau gildi haustið 1989 og við áramót 1989-1990. Breytingin nái þá yfir alla þætti þessa mikilvæga máls í fullu samráði við sveitarfélög landsins.
    Hæstv. forseti. Ástæða væri til að ræða mörg fleiri atriði við 1. umr. fjárlaga. Ég skal ekki ofbjóða þolinmæði þingheims og hef ekki fleiri orð um fjárlagafrv. að sinni, enda á ég sæti í fjvn. og við höfum að sjálfsögðu tækifæri þar til þess að skoða ýmsa þætti nánar. Fjárlagafrv. kemur nú til fjvn. og nefndin mun að sjálfsögðu leggja sig fram um að ná samstöðu um stefnu og markmið þess. Nefndin mun fást við stóraukinn samdrátt og niðurskurð og reyna að láta hann koma sem jafnast niður á útgjaldaliði í ýmsum þáttum rekstrar og fjárfestinga og hún mun laga tekjukerfið sem hæstv. ríkisstjórn ákveður að raunverulegum möguleikum í framkvæmd.
    Ég vænti þess að gott samstarf verði við alla aðila um að ná fram því sem skiptir mestu máli í markmiðum fjárlaga. Og ég tek undir þær óskir sem hæstv. fjmrh. bar hér fram um þetta atriði. Við viljum auðvitað allir, hv. þm. hér á Alþingi, fá fjárlög sem þjóðin getur tekið mark á og eru jákvæð fyrir efnahagskerfi þjóðarinnar.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.