Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Hrafnkell A. Jónsson:
    Virðulegi forseti. Mér hefur nú um nokkurra daga skeið hlotnast sá heiður að taka sæti á hinu háa Alþingi. Og ég hef af fremsta megni leitast við að varpa ekki skugga á hina virðulegu stofnun, né á þá hv. þm. sem kjörnir eru sem aðalmenn. Síðustu dagana hefur mikið verið rætt um virðingu Alþingis og sú umræða hefur ekki síst beinst að okkur sem komum inn sem varamenn og talið nokkuð á skorta að við héldum uppi virðingu þingsins. Í dag hef ég hins vegar velt því fyrir mér hvort það hafi ekkert með virðingu hins háa Alþingis að gera að hér við 1. umr. fjárlaga sjást yfirleitt ekki hæstv. ráðherrar ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar utan hvað Ólafur Ragnar Grímsson, hæstv. fjmrh., tyllir sér hér af og til eins og fugl á grein. Hefur þetta ekkert með virðingu þingsins að gera? Mér er spurn. Og ég vænti að mér fyrirgefist þótt ég spyrji á þennan veg, nýliðanum sem þekki ekki til hefða þingsins og þess hvernig virðingu þess er best gætt.
    Ég ætla að leyfa mér að taka til umræðu launa- og skattastefnu hæstv. ríkisstjórnar eins og hún kemur fram í því fjárlagafrv. sem mælt var fyrir í dag. Það fer ekkert hjá því, þegar launastefna hæstv. ríkisstjórnar er rædd, að óhjákvæmilegt er að ræða þann grunn sem hún byggir á. Lögin sem hæstv. núv. ríkisstjórn setti um bann við eðlilegri starfsemi verkalýðshreyfingarinnar voru að vísu að hluta tekin í arf frá fyrri ríkisstjórn. Það er hins vegar eftirtektarvert, ekki síst með tilliti til þess að hæstv. fjmrh., sem að sjálfsögðu er ekki í salnum, hefur haft mörg orð um arfinn sem núv. hæstv. ríkisstjórn fékk, það er eftirtektarvert að hæstv. fjmrh. og flokkur hans Alþb. hafa ekki fúlsað við þeim hluta arfsins sem snýr að launabindingunni.
    Það er nú svo í sæmilega siðuðum þjóðfélögum að þar gilda ákveðnar meginreglur sem marka dagleg samskipti þegnanna hvers við annan og á milli borgaranna og ríkisvaldsins. Ein af grundvallarreglunum í samskiptum þegnanna og ríkisvaldsins í þeim löndum sem Íslendingar sækja sér fyrirmyndir til er frjáls og óþvinguð starfsemi stéttarfélaga. Og að sjálfsögðu hafa Íslendingar, ekki síst flokkur núv. fjmrh. og reyndar sem betur fer íslenskir stjórnmálaflokkar yfirleitt, haft uppi þung orð og miklar yfirlýsingar um þær ríkisstjórnir annars staðar í heiminum sem virða ekki þessa meginreglu. Ég vænti þess að menn geti flett upp samþykktum gegn stjórn Jaruzelskis í Póllandi, Pieter Botha í Suður-Afríku og Pinochet í Chile. Auðvitað eru starfsaðferðir þessara stjórna á annan veg heldur en íslensku ríkisstjórnarinnar en í grundvallaratriðum er verið að gera sömu hluti. Það er verið að leggja hömlur á eðlilega starfsemi borgaranna og því er aðeins stigs- en ekki eðlismunur á þessum aðgerðum.
    Því miður eru líklega flestar ríkisstjórnir sem hér hafa setið síðustu áratugi með þátttöku allra íslenskra stjórnmálaflokka sekar um þetta. Það breytir ekki þeirri staðreynd --- og ég bið reyndar fulltrúa Borgfl. afsökunar, þ.e. þá sem ekki hafa átt sæti í

ríkisstjórnum áður undir merki annarra flokka, en þeir hafa reyndar, að ég hygg, fetað sömu brautina og meginregla er hér í stjórnmálunum. Það kemur ekki til nokkurra mála að þessi ríkisstjórn eða nokkur önnur geti vænst samstöðu og samvinnu við stéttarsamtök á sama tíma og ríkisvaldið bindur hendur þeirra með lögum. Í mínum huga er það a.m.k. útilokað og ég vonast til þess að þau viðhorf ríki hjá þeim sem starfa innan verkalýðshreyfingarinnar því þau viðhorf eru almenn hjá hinum venjulega launþega. Það er ekki fyrr en þessi þvingunarlög hafa verið afnumin og þá fyrst sem eitthvert samstarf getur komið til greina við þá ríkisstjórn sem nú situr. Í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar segir, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin æskir vinsamlegra samskipta við aðila vinnumarkaðarins og mun hafa við þá samráð um stefnuna í kjaramálum.`` Þá fyrst að búið er að afnema þessi þvingunarlög er hægt að vænta þess að til slíkrar samvinnu komi. Á hvern hátt réttlæta þeir sem að hæstv. ríkisstjórn standa þau mannréttindabrot sem felast í aðgerðum ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar? Það hljóta að vera ríkar ástæður til þess að til þeirra er gripið.
    Það skorti að sjálfsögðu ekki á dramatískar lýsingar á þeim vanda sem að steðjar í íslenskum efnahagsmálum. Og það er reyndar eftirtektarvert að þegar hæstv. núv. forsrh., sem talið er að hafi átt sæti í síðustu ríkisstjórn, lýsti þessum vanda á vordögum, og var þá m.a. að lýsa því ástandi sem ríkti eftir nær samfellda setu Framsfl. í ríkisstjórn frá 1971, þá talaði hæstv. forsrh. um blóðvöll þegar hann lýsti ástandi atvinnu- og efnahagsmála og hafði orð á því að nú brynni Róm. Á sama hátt hafa yfirlýsingar hæstv. fjmrh. og flokks hans Alþb. verið hofmóðugar. Þeir lýsa sér sem björgunarsveit sem kallað hafi verið í til að leysa vandann, líklega einhvers konar slökkvilið til þess að slökkva framsóknareldana sem brunnið hafa síðustu mánuðina.
    Það fer ekki hjá því þegar á slíkar yfirlýsingar er hlýtt að mönnum detti í hug það sem ýmsir sem kannað hafa atferli brennuvarga telja staðreynd: Mennirnir með eldspýturnar eru yfirleitt í hópi þeirra sem mest láta á sér bera þegar eldarnir eru slökktir. Forsenda þessarar stjórnarmyndunar var að með henni ætti að snúa við hruni í útflutningsatvinnuvegunum. Það var að vonum
að bent væri á mjög alvarlegt ástand sem hefur skapast, ekki síst víða úti um land þar sem sjávarútvegur hefur barist í bökkum og víða leitt til gjaldþrota. Það var á þeim forsendum sem hv. þm. Stefán Valgeirsson gerðist stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar og fékk að launum lykilaðstöðu í nýjum skuldaskilasjóði sem er reyndar orðið þvílíkt feimnismál að það virðist enginn sem nálægt þessum sjóði kemur vilja kannast við hv. þm.
    En hafa þá aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar leitt til þess að vandanum, sem ríkisstjórnin var stofnuð til að leysa, hafi verið bjargað? Er líklegt að ríkisstjórninni takist að treysta svo undirstöður útflutningsatvinnuveganna að komist verði hjá

stórslysum? Því miður get ég ekki séð að það hafi verið gert. Það er fátt sem bendir til þess. Við heyrum enn þá dag eftir dag fréttir um gjaldþrot hér og þar á landinu. Því miður er fátt sem bendir til að þeirri þróun hafi verið snúið við.
    Hæstv. fjmrh. sagði í fjárlagaræðu sinni að atvinnuleysi hefði verið forðað, og vísar þá væntanlega til þess að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hafi gripið til hafi leitt til þess. Því miður er yfirlýsing af þessu tagi lítið marktæk þegar staðreyndirnar sýna allt annað. Nýi skuldaskilasjóðurinn, Atvinnutryggingarsjóðurinn, er að mínum dómi ekki líklegur til þess að bjarga einu eða neinu. Það eru í það minnsta alveg ný fræði ef skuldugum aðila með langan vanskilahala er bjargað með því að lána honum meira, gera hann enn skuldugri. Því er það að þessi sjóður er alls ekki líklegur til þess að leysa vanda útflutningsatvinnuveganna. Því til viðbótar, og það er alvarlegur hlutur, er að þessum Atvinnutryggingarsjóði er að sjálfsögðu fyrst og fremst ætlað að koma til liðs við fyrirtæki í útflutningsgreinum, en við heyrum dag hvern um fleiri eða færri þjónustu- og verslunarfyrirtæki sem eru að verða gjaldþrota. Nú er það að vísu ljóst að þensla í þjónustu og verslun var langt frá því að vera eðlileg og ég held að það neiti því enginn að samdráttur í þessum greinum er og var óhjákvæmilegur. En það breytir ekki þeirri staðreynd að vandi launþeganna sem starfa í þessum atvinnugreinum, launþeganna sem eru þessa dagana að missa vinnuna vegna stórfelldra gjaldþrota í verslunar- og þjónustufyrirtækjum, er nákvæmlega jafnmikill og vandi verkamannsins sem missir vinnu í fyrirtæki sem vinnur í útflutningi. Og ábyrgð ríkisvaldsins gagnvart þessu fólki er nákvæmlega jafnmikil og ábyrgðin gagnvart verkamanninum. Það veldur mér verulegum áhyggjum að í allri umræðunni um atvinnumál á undanförnum dögum og vikum er eins og þetta fólk hafi gleymst. Aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar benda til þess að þar á bæ standi mönnum kannski nokkuð á sama. Í það minnsta taldi hæstv. ríkisstjórn að heppilegasta leiðin til þess að fjármagna Atvinnutryggingarsjóðinn væri að gera aðför að Atvinnuleysistryggingasjóði og taka hluta af lögbundnu framlagi hans og leggja til Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsatvinnuveganna.
    Sú aðgerð að taka framlag Atvinnuleysistryggingasjóðs er verulega alvarleg. Þetta er gróft brot á áratugagömlu samkomulagi aðila vinnumarkaðarins. Þetta er aðgerð sem er líkleg til að veikja stórlega Atvinnuleysistryggingasjóð á tímum þegar sjóðsins er verulega þörf. Samtök vinnumarkaðarins hafa brugðist mjög hart við þessum áformum og Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Miðstjórn Alþýðusambands Íslands og framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambands Íslands hafa fjallað um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að

skerða umsamin og lögbundin framlög ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs um 600 millj. kr. og setningu bráðabirgðalaga í þeim tilgangi. Það er sameiginleg afstaða samtakanna að með þessu sé ríkisvaldið einhliða að rjúfa áratuga samkomulag aðila vinnumarkaðarins, ríkisvaldsins og sveitarfélaganna um uppbyggingu og fjármögnun Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Atvinnuleysistryggingasjóður var stofnaður árið 1955 á grundvelli samkomulags um lausn vinnudeilu það ár og var ein meginforsenda að lausn þeirrar deilu. Í samkomulaginu var m.a. ákveðið hver framlög aðila til sjóðsins skyldu vera og hafa lög um sjóðinn síðan byggt á þessu samkomulagi. Tilgangur sjóðsins hefur frá upphafi verið að tryggja lágmarksframfærslu þeirra sem missa vinnu sína.
    Á síðustu árum hefur að sönnu reynt lítið á bótagreiðslur vegna atvinnuleysis. Sjóðurinn hefur á hinn bóginn þungar skyldur m.a. vegna greiðslu eftirlauna til aldraðra. Þetta hefur rýrt fjárhagslega getu sjóðsins þrátt fyrir lítið atvinnuleysi. Það sætir því furðu að stjórnvöld áformi einmitt nú stórfellda skerðingu á framlögum til sjóðsins, einkum í ljósi þess að samdráttar í atvinnustarfsemi verður nú vart og því fyllsta ástæða til að treysta fjárhagslega stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Samtökin telja með öllu óviðunandi að einn aðili þríhliða samnings sem bundinn er í lög skuli með þessum hætti leysa sig undan fjárhagslegum skuldbindingum sínum. Samtökin gera þá kröfu að ríkisvaldið standi við sinn hluta samningsins og greiði að fullu umsamið og lögbundið framlag sitt til
sjóðsins. Ella er stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs teflt í tvísýnu.``
    Svo mörg voru þau orð. En e.t.v. lítur hæstv. ríkisstjórn þannig á að þetta sé einn liðurinn í vinsamlegum samskiptum við aðila vinnumarkaðarins. Hér er um mjög alvarlega aðgerð að ræða. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að breyta þessum áformum gagnvart Atvinnuleysistryggingasjóði. Þau eru í senn óskynsamleg og fullkomlega ábyrgðarlaus. Ef ekki verður horfið frá þessu getum við staðið frammi fyrir því á næstu mánuðum að Atvinnuleysistryggingasjóður geti ekki staðið við þær skuldbindingar sem honum er ætlað að standa við, ef fer sem horfir að hér stefni í fjöldaatvinnuleysi þegar kemur fram á næsta vetur. Það er algjörlega ljóst að atvinnustefna hæstv. ríkisstjórnar getur á engan hátt réttlætt þær aðgerðir sem hæstv. ríkisstjórn sá ástæðu til að beita við launþegasamtökin í landinu.
    Skattastefna ríkisstjórnarinnar hlýtur þá að vera eitthvað sem réttlætir þessar aðgerðir og það vantar ekki hástemmdar yfirlýsingar þar. Í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. segir, með leyfi forseta:
    ,,Aukin tekjuöflun ríkissjóðs miðast við að þeir sem hafa mestar tekjur og eignir og hafa ráðstafað mestu í lúxuseyðslu og fjárfestingu á undanförnum árum beri stærstan hluta aukinnar skattbyrði.``
    Og það gefur á að líta þegar skoðað er í skattafrumskógi hæstv. ríkisstjórnar. Þar ber auðvitað

hæst matarskattinn sem Alþb. og hæstv. fjmrh. sáu sérstaka ástæðu til að framlengja þegar þeir komust loksins í ríkisstjórn. Ég geri ráð fyrir því að það séu ekki eingöngu þeir sem ráðstafa mestu í lúxuseyðslu sem greiða þann skatt.
    Það er ákveðið að leggja 12% söluskatt á happdrætti. Þetta er tekjustofn sem á að skila tæplega hálfum milljarði í ríkissjóð. Þetta er skattur sem þeir greiða sem lagt hafa á sig ómælt starf við að styrkja ýmis líknarsamtök, íþróttafélög, aldraða og ýmsa þá sem starfa að menningarmálum. Ég geri ekki ráð fyrir því að þeir sem leggja fé í þetta séu upp til hópa einhver sérstakur hátekjuhópur. Ég hygg að það sé staðreynd að það er allur almenningur í landinu sem spilar í happdrættum. Því er ljóst að þessi sérstaki öryrkjaskattur ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar er almennur neysluskattur á landsmenn. Ekki er hægt að segja að þessi skattheimta sé stórmannleg, enda kom það að sjálfsögðu í ljós að þegar framsóknarmönnum varð ljóst hvernig við þessari skattheimtu var brugðist af almenningi, þá hlupu þeir eins og fætur toguðu frá öllu og segja í dag að hér hafi verið um lausleg áform að ræða og það sé fyrst og fremst fjmrh. sem eigi þessar hugmyndir. Þessi viðbrögð framsóknarmanna koma væntanlega engum á óvart sem með þeim hafa starfað undanfarin ár en það getur vel verið að hæstv. fjmrh. hafi hrokkið við.
    Önnur skattheimta sem boðuð er í fjárlagafrv. er síðan hækkun vörugjalds, sem hækkar væntanlega innfluttar vörur, almennar neysluvörur, hækkun bensínverðs og enn er bifreiðin almenningseign. Síðan er talað um nýtt tekjuskattsþrep sem eftir því sem næst verður komist er sérstök kveðja til íslenskra sjómanna því að þrepið verður væntanlega miðað við að ná til þeirra. Þeir eru að hluta til a.m.k. með hærri tekjur en gerist og gengur og það er ljóst að sú stétt sérstaklega mun koma illa út í nýju tekjuskattsþrepi.
    Það er því sama hvar litið er á skattaáform hæstv. ríkisstjórnar. Þau benda öll til þess að hér sé um almenna skattlagningu að ræða og sá blekkingarvefur, sem verið er að vefa um skattastefnu hæstv. ríkisstjórnar, um að hér sé verið að ná til auðkýfinganna, hann gengur einfaldlega ekki upp.
    Þegar svo litið er á verðlags- og launaforsendur frv. og reynt að gera sér grein fyrir því hvaða kjarastefnu hæstv. ríkisstjórn ætlar að móta til næstu mánaða þá er ljóst að hér er stefnt í gífurlegt kaupmáttarhrap. Það er að vísu þannig að ýmsir, sem m.a. standa hæstv. fjmrh. býsna nálægt í stjórnmálaskoðunum, eins og forseti Alþýðusambands Íslands, Ásmundur Stefánsson, hafa ýmislegt við forsendurnar sjálfar að athuga. En Ásmundur sagði í blaðaviðtali fyrir nokkru þegar rætt var um forsendur fjárlagafrv., með leyfi forseta: ,,Þær eru rugl, það er alveg augljóst. Það dettur engum heilvita manni í hug að mál gangi fram með þeim hætti og ég hef ekki trú á því.``
    E.t.v. er forseti Alþýðusambands Íslands ekki marktækur en það er ljóst að skoðun hans á forsendum fjárlagafrv. er ótvíræð. Það kemur í ljós

þegar verðlagsforsendurnar eru skoðaðar að þar er gert ráð fyrir því að verðlag hækki um 12% á móti 8% hækkun launa. Hins vegar er augljóst þegar skattastefna frv. er skoðuð að verðlagsforsendur hljóta að vera rangar og því til viðbótar, sé á annað borð meining hæstv. ríkisstjórnar að útflutningsatvinnuvegirnir gangi til lengri tíma, þá er breyting á gengi íslensku krónunnar óhjákvæmileg eða að hæstv. ríkisstjórn stefnir í þá niðurfærsluleið sem fyrrv. ríkisstjórn var sprengd út af, leið sem ráðherrar núv. ríkisstjórnar virðast ekki hafa viljað fara þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar um ágæti niðurfærsluleiðarinnar.
    Ég hlýt að beina þeirri spurningu til leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna, --- það fer eins og áður heldur lítið fyrir þeim hér í salnum en hér er þó hæstv.
fjmrh. staddur --- ég hlýt samt sem áður að beina þeirri spurningu til þeirra, ef einhver getur komið skilaboðum til hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh.: Hvað ætlar hv. ríkisstjórn að gera þegar launastöðvun og verðlagsstöðvun lýkur um miðjan febrúar? Er það virkilega meining hæstv. ríkisstjórnar að launþegar í landinu eigi að taka á sig bótalaust 10--15% kaupmáttarskerðingu? Er það meiningin? Er það sú stefnumótun sem felst í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar? --- Nú er m.a.s. hv. þm. Stefán Valgeirsson búinn að yfirgefa salinn, en ég vil gjarnan fá að vita hvernig sá hv. þm., sem hefur auglýst sig upp sem sérstakan málsvara fátæka fólksins í landinu, ætlar að snúast við þessum hlutum. Ætlar hann að láta ganga yfir verst setta fólkið í landinu almenna 10--15% kaupmáttarskerðingu? Var það til þess sem hann stóð að myndun núv. ríkisstjórnar? Ætlar hv. þm. að standa að því að Atvinnuleysistryggingasjóður verði gerður fjárvana á þeim tíma sem stefnir í stórfellt atvinnuleysi? Eða hefur hv. þm. Stefán Valgeirsson e.t.v. engar áhyggjur af ástandi og efnahag fátæka fólksins í landinu? Ég fagna því að hv. þm. Stefán Valgeirsson er hér í heyrnarmáli og hefur þá væntanlega heyrt þær spurningar sem ég lagði fyrir hann.
    Virðulegi forseti. Ástand atvinnumála er uggvænlegt og aðdragandi þess er búinn að vera nokkuð langur og má vafalaust gagnrýna fyrrv. ríkisstjórn fyrir að hafa ekki brugðist við í tíma. En þeir sem setja þá gagnrýni fram, og settu fram á sínum tíma eins og hæstv. fjmrh., eiga að vera svo heiðarlegir að lýsa þá ástandinu og orsökum vandans rétt. Þeir eiga að viðurkenna það að meginorsökin er röng gengisskráning krónunnar til lengri tíma og þeir eiga að viðurkenna það að með þessari gengisskráningu var deilt út til alls almennings í landinu verulegum upphæðum í lægra verði á innfluttum vörum, í lágu verði á ferðalögum til útlanda og ýmsu því sem hinn almenni neytandi nýtur. Það er alveg ljóst að sú mikla þensla sem var afleiðing þessarar gengisskráningar kom auðvitað fram í þenslu í þjónustu- og verslunargreinum, en jafnframt í góðri afkomu þeirra sem við þær greinar störfuðu.
    Það var ítrekað bent á það, ekki síst af fulltrúum

verkalýðshreyfingarinnar utan af landi á síðustu mánuðum, að gengisskráningin gerði hvort tveggja í senn: leiddi til minnkandi kaupmáttar starfsfólks í greinum í sjávarútvegi og hraðversnandi afkomu fyrirtækjanna í þessum greinum. En ég minnist þess ekki að t.d. hæstv. fjmrh. hafi haft uppi miklar ræður um það að draga þyrfti úr launaskriði á höfuðborgarsvæðinu, enda þjónaði það ekki hans tilgangi né flokks hans. Það var hins vegar afskaplega þægilegt fyrir hann og aðra fulltrúa Alþb. að koma síðan út á land og tala dálítið illa um m.a. borgarstjórann í Reykjavík. En í dag súpum við seyðið af þessu. Við sjáum hvernig samdrátturinn er að leiða til fjöldagjaldþrota hér í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu. Við sjáum hvernig afkoma útflutningsatvinnuveganna er. Við þessu verður að sjálfsögðu að bregðast. Ég held að það verði ekki gert með því að auka skuldir þessara fyrirtækja. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að gera það með því m.a. að leiðrétta gengi krónunnar og ég er ekki frá því að hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn verði að taka sér tak í því að lækka m.a. neysluskatta, eins og matarskattinn, í því að draga úr áformum í útþenslu ríkiskerfisins og í því að falla frá áformum um stóraukna almenna skatta í landinu.
    Ef hæstv. ríkisstjórn gengur ekki á undan með góðu fordæmi í þessu efni er aldeilis útilokað að hún geti vænst þess að launþegar í landinu séu tilbúnir að vinna með þessari ríkisstjórn á vetri komanda þegar kemur að því, og ef kemur að því, að hæstv. ríkisstjórn þóknast að afhenda íslenskum launþegum sjálfsögð og eðlileg mannréttindi á nýjan leik.