Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að staðfesta að það er rétt með farið af hálfu hæstv. utanrrh. hvernig þessi mál bar að. Á fundi utanrmn. í gær skýrði hann frá því, eins og fram hefur komið, að hann væri að taka ákvarðanir um afstöðu til ýmiss konar mála á allsherjarþinginu. Sannleikurinn er sá að mjög svipað átti sér stað í fyrra í utanrmn., eins og raunar varð opinbert. Það var á síðustu stundu sem þáv. hæstv. utanrrh., núv. forsrh., skýrði nefndinni frá því að atkvæðagreiðslur væru u.þ.b. að fara fram og að því er eina tillöguna varðaði hafði hann orð á því, eins og upplýst var svo ég er ekki að uppljóstra leyndarmálum, að hugsanlegt væri að breyta þar fyrirætlunum um atkvæðagreiðslu. Það reyndist hins vegar vera orðið of seint að gera það. Það var tímahrak þarna líka.
    Nú er ég alveg sammála því, sem hefur komið fram hjá hæstv. utanrrh. og auðvitað mörgum öðrum, að það þarf ekki að vera jafnmikið tímahrak og þetta, jafnvel þótt við séum fámennir erlendis. En svo vill til að fyrir tveimur árum var ég á þessu þingi, allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, og var einmitt að reyna að aðstoða eitthvað Tómas Karlsson, sem þá var fastur fulltrúi í fyrstu nefnd, við að greiða fram úr þeirri málaflækju sem þarna er einmitt um afvopnunarmálin og þau málefni sem hér hefur borið á góma. Þar voru þá eitthvað 70--80 tillögur til meðferðar, gamlar og nýjar, auk allra mögulegra og ómögulegra breytingartillagna og þetta var satt að segja hið mesta torf. Það leyndi sér ekki að ýmislegt af þessum tillögum var til umræðu og flutt til heimabrúks ábyggilega vegna þess að tillögurnar voru meira og minna sama efnis, bara mismunandi flutningsmenn til að geta haft þetta með heim í farteskinu til að sýna að þeir hefðu eitthvað afrekað á þinginu.
    En við skulum horfast í augu við staðreyndir. Það hefur komið hér fram í umræðum að það eru nú einu sinni stórveldin og leiðtogar stórþjóðanna sem ráða ferðinni. Og það var svo glöggt að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna þann veturinn vakti nákvæmlega enga athygli. Ég hef gífurlega gaman af að horfa á fréttir í góðum sjónvarpsstöðvum og þær eru góðar fréttirnar í bandarísku stöðvunum, byrja jafnvel kl. 5 eða 6 á morgnana svo að ég lagði stund á að fylgjast með því. Húsið í Höfða sást nærri því á hverjum einasta degi, en hús Sameinuðu þjóðanna aldrei. Í stórblöðum í New York á þeim tíma var varla hægt að finna frásagnir af neinu því sem var að gerast hjá Sameinuðu þjóðunum en það var hægt að lesa um Reykjavík alls staðar.
    Ég veit ekki hvort við getum dregið einhvern lærdóm af þessu. Því miður hafa Sameinuðu þjóðirnar verið allt of máttfarnar og tillögur þar oft kafnað í of miklu málskrúði og jafnvel tilhneigingu til þess að hugsa meira um heimamarkað en heimsbyggð. Við skulum ekki falla í þann farveg, Íslendingar. Þegar við ræðum jafnalvarleg málefni og afvopnunarmálin þá skulum við ekki vera að hugsa eingöngu um

heimamarkað þegar við ræðum þau erlendis. Ég kem nánar að þessu örlítið síðar.
    En á þessu stigi vil ég vekja á því athygli að hér hefur ekki sést einn einasti ráðherra Framsfl. í dag. Það er út af fyrir sig ekkert nýtt að þeir sjáist ekki og sérstaklega ekki nýtt þegar rætt er um utanríkismál og öryggismál. Þá eru þeir oft fjarverandi. ( PP: Forsrh. hefur fjarvistarleyfi í dag.) Jú, jú, hann hefur fjarvistarleyfi, en hinir ekki. En þetta var nú ekki aðalatriðið heldur hitt að ráðherrar Alþb. hafa forðast eins og heitan eldinn að koma hér nálægt nema einn þeirra stansaði við hér í gættinni í eina mínútu eða tvær. Og hver biður um þessa umræðu? Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, málsvari Alþb. í utanríkismálum. Hann er málsvari Alþb. í utanríkismálum, Hjörleifur Guttormsson. Málflutningur hans er málflutningur þeirra, sérstaklega þegar þeir undirstrika það með því að þurfa ekkert að vera mættir. Hv. þm. getur séð um þetta allt saman. Og það hafa heldur engir þingmenn frá Alþb. verið hér nema þeir sem skyldum eiga að gegna, nauðsynlegum skyldum eins og hæstv. forseti. Og hv. formaður þingflokks Alþb. sýnir auðvitað þá kurteisi að mæta hér. Nei, nei, við skulum hafa það allt á hreinu.
    Það er mjög gott að íslenska þjóðin viti það að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er málsvari Alþb. í þessum málum þangað til þeir, ráðherrarnir og ráðamenn þar, sýna það þá betur en þeir hafa gert í verki að þeir ætli ekki að láta málflutning þessa eina manns vera málflutning sinn. Þeir gerðu það að vísu mjög rækilega að reka hann út í horn nú í byrjun þings þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lýsti því yfir í öllum fjölmiðlum sem hann gat troðið sér í --- og er nú á hlaupum á milli fjölmiðla eins og þeir eru nú fleiri náttúrlega --- að hann bæri enga ábyrgð á því hver væri formaður nefndarinnar o.s.frv. Menn muna þetta allt saman. Hann ætlaði sko að gera uppsteyt og hann ætlaði að krefjast þess að það yrði öðruvísi farið með málefni í hv. utanrmn. og meira tillit yrði tekið til Alþb., ekki bara þar heldur líka í ríkisstjórninni og öllu hennar framferði. Jú, hann ætlaði sko að sjá um það. Menn biðu mjög spenntir að vita hvað yrði nú um þetta allt saman. ( Forseti: Ég verð að benda þingmanninum á að hér fer fram umræða utan dagskrár. Hún fjallar ekki um þetta.) Fjallar hún ekki um þetta? ( Forseti: Nei.) Um talsmann Alþb.
( Forseti: Ég verð að minna þingmanninn á að hann er kominn langt út fyrir umræðuefni sitt. Hér hefur staðið yfir umræða utan dagskrár í næstum tvo tíma. Forseti getur ekki leyft umræðu um málefni hinna ýmsu og einstöku flokka hér í þessari umræðu.) Ég verð nú að lýsa furðu minni á þessu, en ég skal hlíta úrskurði forseta að sjálfsögðu. En ég hafði ekki verið beðinn um að stytta mitt mál og hér hafa verið fluttar mjög . . . ( Forseti: Forseti er ekki að biðja þingmanninn um að stytta sitt mál, einungis að halda sig við umræðuefnið.) Já, já. Umræðuefnið er sem sagt utanríkismál af því að þau snerta Ísland og íslenska stjórnmálamenn og þess vegna verð ég að hafa leyfi til þess aðeins að ljúka þessu máli, þessum

þætti, að það gerðist ekkert af þessu sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ætlaði sér að gera. Hann greiddi atkvæði með núverandi formanni utanrmn. og tók þar með afstöðu um stuðning við ríkisstjórnina. En ég þori nú varla að tala um ákveðna þingmenn eftir þetta og verð þá kannski eitthvað stuttorðari líka. En við skulum ekki fara lengra út í þessa sálma og einangrun þessa hv. þm. og ég skal ekki heldur ræða meira um það sem í utanrmn. hefur gerst. Það vita allir.
    Ég skal þá víkja að því sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vakti máls á, sem er fyrst og fremst Ísraelstillagan, fordæming á Ísrael. Það mál er vissulega viðkvæmt og margt af því sem hæstv. utanrrh. sagði hér get ég fullkomlega tekið undir. Það er vandmeðfarið í slíku máli að smáþjóð eins og við ályktum og ætlum að gera okkur sérlega digra. Engu að síður er sjálfsagt að ræða þessi mál og það er búið að boða að tillaga verði flutt um það mál hér í þinginu. Hv. þm. Páll Pétursson gerði grein fyrir efni þeirrar tillögu. Sú tillaga fer væntanlega til utanrmn. og verður þar að sjálfsögðu rædd. Við höfum þess vegna tíma til þess síðar að fara nánar ofan í þessi mál og ég skal ekkert vera að eyða tíma í það vegna þess að ég veit að þó að hæstv. forseti hafi verið svo tillitssamur við mig að vera ekki að biðja mig að stytta mál mitt, þá flýgur tíminn áfram og a.m.k. úr mínum flokki veit ég að margir vilja fá að tala í þessari umræðu og ég vil ekki verða þess valdandi að þeir komist ekki að í umræðunni og þarf þess vegna ekki að fara ýkja langt út í þessa sálma. En ég gagnrýni ekki afstöðu hæstv. utanrrh. í þessu máli.
    Þá er komið að frystingartillögunum. Það er alveg rétt sem hv. þm. Páll Pétursson sagði að það er ekkert nýjabragð að frystingartillögunum lengur. Það er það svo sannarlega ekki. Frystingartillögurnar voru mjög ræddar fyrir þrem, fjórum, fimm árum á alþjóðavettvangi og sýndist sitt hverjum um það hvort þær væru heppilegar eða líklegar til að bera einhvern árangur. Við vorum margir hér, ég held áreiðanlega meiri hluti, sem töldum að það væri lítið á því að græða að ætla að frysta vopnabirgðir sem nægðu til að drepa heimsbyggðina hundrað sinnum skilst mér. Hættan væri nú lítið minni þó að ekki yrði hægt að drepa allt mannkynið 200 sinnum í staðinn fyrir 100 sinnum. Þannig að ég hef nú aldrei haft mikla trú á þeim tillögum. Ég játa það hreinskilnislega. En hafi einhverjir haft trú á þeim, þá vildi svo til að allur slíkur þankagangur var drepinn. Og hvar var hann drepinn og hvenær? Hér í Reykjavík á leiðtogafundinum. Þá var stigið fyrsta skrefið til afvopnunar, til að eyða þessum vopnum, ekki bara að fara að frysta þau niðri í kjöllurum eða neðanjarðar eða á höfum úti eða hvar sem þau eru, heldur til að eyða þeim.
    Þetta gerðist hér í Reykjavík og þótti einhver stórkostlegasti atburður í sögu mannkyns. Og hvað þá um Ísland, gistilandið? Þessir menn fóru ekkert eftir þeim tilmælum, eins og hv. þm. Kristín Einarsdóttir var að greina okkur frá að væru í hugmyndum

Kvennalista og fleiri um frystinguna, við tillögum þeirra, að hvetja leiðtoga stórveldanna til að lýsa yfir annaðhvort sameiginlega eða einhliða stuðningi við þessa stefnu. Þeir eru búnir að tala saman nokkrum sinnum síðan. Ég minnist þess ekki að annar hvor þeirra hafi sérstaklega lagt áherslu á það einhliða, eða þeir saman, að þeir létu sér nægja einhverja frystingu á kjarnorkuvopnum. Þeir hafa gengið hreint til verks og eru að gera sér grein fyrir því, vonandi í fyllstu einlægni og á báða bóga, að heimsbyggðin er auðvitað í nákvæmlega sömu hættunni þó að það séu ekki framleidd fleiri kjarnavopn.
    Hitt er svo aftur alveg rétt sem kom hér fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að vígbúnaðarkapphlaupið er enn á fullri ferð. Hin svokölluðu hefðbundnu vopn eru auðvitað ekkert hefðbundin. Það er hægt að framleiða í dag vopn sem eru fullkomin manndrápstæki miðað við það sem var í síðustu heimsstyrjöld. Tækin sem þá voru notuð voru kannski eins og skammbyssur á móti fallbyssum nú, þannig að ekkert af þessu er mjög einfalt og auðleysanlegt og kannski síst á færi okkar --- eða a.m.k. játa ég minn vanmátt í því að átta mig á þeim hlutum öllum saman, ég þekki ekkert af þessum vopnum. Ég veit bara að þau eru ógnvænleg og það vitum við öll. En hver styrkurinn er á hverjum tíma? Það er mál sem hefur ósköp lítið upp á sig, held ég, að eyða miklum tíma í að ræða.
    Ég kann ekki við annað en að víkja þá að síðasta atriðinu og það er varaflugvöllur á Íslandi sem yrði byggður að einhverju eða öllu leyti fyrir fé úr mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Það er ekki rétt sem hv. þm. Páll
Pétursson sagði hér áðan: NATO byggir ekki flugvöll ef það ætlar sér ekki að nota hann. Þetta er öfugt. Varnir NATO hafa verið og eru gerðar til þess að þurfa ekki að nota styrkleikann. Það vitum við allir jafnt. Og þessar traustu varnir og sú staðfesta vestursins, lýðræðisþjóðanna, hefur áorkað því sem nú er að gerast, að það er þó glæta, vonarglæta í heimsbyggðinni. Það er von um að stórveldunum takist að feta sig áfram niður stigann skulum við segja, frá ógninni og niður á jörðina, að fá komist niður á jörðina í sínum umræðum og sínum þankagangi. Og aðalatriðið er að fyrsta skrefið var tekið, fyrsta trappan var stigin hér í Reykjavík. Ættum við þá endilega að fara að setja okkur í einhver dómarasæti um það hvað mikilvægast væri fyrir þessa leiðtoga að ræða þegar við vitum að það er ekkert á okkur hlustað? Það er kannski ljótt að segja það, en þannig var það á fundi Sameinuðu þjóðanna. Ég leitaði auðvitað að því hvort það væri ekki eitthvað sagt frá einhverjum tillögum, sem ég var að puða í að lesa og lesa, í New York Times eða einhverju blaði eða í sjónvarpsfréttum. Það örlaði ekki á því þó að Höfði væri, eins og ég segi, á hverjum sjónvarpsskermi. Þetta er nú staðreyndir þess máls.
    Afstöðu hæstv. utanrrh., um að breyta nú frá þeirri nýju afstöðu í frystingarmálunum sem fyrirrennari hans tók á sl. ári, kallar hv. þm. Kristín Einarsdóttir

,,furðulegt og óskiljanlegt skref aftur á bak``. Ég get ekki annað en verið sammála því sem hæstv. ráðherra sagði, að það væri auðvitað skref aftur á bak að ætla núna að fara að gera frystingu að einhverju meginmáli. Hún er bara ekkert í umræðunni lengur. Hún er sem betur fer dauð. Það er verið að reyna að eyða þessum vopnum í staðinn fyrir að geyma þau.