Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Ég tel ærna ástæðu til að flytja hv. 2. þm. Austurl. þakkir fyrir að hafa gefið tilefni til þessarar umræðu. Hún var síst af öllu óþörf, á köflum merk og í mínu skamma þingminni með þeim merkari sem hér hafa farið fram. Ég mun virða tilmæli forseta um að draga ekki þessa umræðu mjög á langinn og takmarka athugasemdir mínar við fá atriði.
    Í fyrsta lagi: Mér þykir miður að hafa verið borið á brýn að ég hafi ávítað sendimenn Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það tel ég mig ekki hafa gert. Ég skýrði frá því að af hálfu utanrrn. hefði þeim verið bréfað að gæta þess betur framvegis að þær ályktunartillögur sem að mati sendinefndarinnar þættu helst flokkast undir álitaefni bærust utanrrn. fyrr en reyndin varð á um nokkrar af þessum tillögum. Þetta eru ekki ávítur. Þetta eru ábendingar um verklag. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því þótt ég hafi ekki setið þing hinna Sameinuðu þjóða sem þingmaður eða tekið þátt í störfum þar að við erum fáliðuð, málaflóðið mikið og þeim kann að vera vandi á höndum um þetta. Þetta er ábending um vinnubrögð, að velja úr öllu flóðinu þær tillögur sem ástæða er til að ætla að þarfnist sérstaklega skoðunar.
    Í öðru lagi: Mönnum hefur orðið nokkuð tíðrætt um að það séu uppi ólík sjónarmið meðal þeirra flokka sem standa að núv. hæstv. ríkisstjórn í utanríkismálum og ekki mikil tíðindi. Það er rétt. Það eru ólík sjónarmið uppi. Sá ágreiningur var að sjálfsögðu ekki settur niður með því samkomulagi sem tókst um málagrundvöll. Þar settu menn á blað það sem menn höfðu sameinast um. Hver er stefna Íslands á alþjóðlegum vettvangi? Að gæta hagsmuna Íslands að sjálfsögðu. Að reyna eftir fremsta megni að stuðla að vináttu við aðrar þjóðir og stuðla að afvopnun og friði hvar sem við megum. Blandast nokkrum hugur um að það er sú stefna sem ríkisstjórnin fylgir?
    Ég tók eftir því að menn spyrja sem svo: Þýða þessar ákvarðanir, sem hér hafa verið til umræðu, þrjár talsins, að það hafi verið breytt stefnu í utanríkismálum frá tíð fyrri ríkisstjórnar, frá tíð forvera míns í embætti utanrrh.? Mitt svar er nei. Við fylgjum óbreyttri utanríkisstefnu. Hornsteinar hennar eru þátttaka í starfi Norðurlandaráðs þótt þess sé ekki getið í sáttmála af ástæðum sem okkur báðum, mér og Páli Péturssyni, hv. 1. þm. Norðurl. v., er fullkunnugt um. Við tökum þátt í starfi Norðurlandaráðs. Við tökum þátt í starfi Sameinuðu þjóðanna. Við tökum þátt í starfi Atlantshafsbandalagsins. Við tökum þátt í ýmsum öðrum alþjóðlegum samtökum, t.d. á vettvangi efnahagsmála. Og stefnunni hefur ekki verið breytt. Afstaðan gagnvart umræddri tillögu, sem vakið hefur hvað mestar umræður og ástríður, þ.e. spurningunni um einhliða fordæmingu á stefnu Ísraelsríkis, er óbreytt frá því sem hún var í fyrra. Hún er sú hin sama. Þá sat Ísland hjá við tillögu sem var eðlisskyld, svipuð. Og að því er varðar hinar tillögurnar tvær um frystingu kjarnavopna réttlæta þær ekki og standa ekki undir svo stórum orðum að á bak við það standi

einhver breyting í utanríkismálum. Mín rök í því máli eru þau að þær tillögur eru tæknilega úreltar. Það er allt og sumt.
    Ég sagði áðan að á köflum hefðu þessar umræður verið merkar og ég þykist þess fullviss að það verður eftir þeim tekið, ekki bara í okkar þjóðfélagi heldur víðar. Mér þótti t.d. mjög fróðleg söguleg upprifjun sem fram kom í máli hv. 4. þm. Vestf. um hlut Íslands við stofnun Ísraelsríkis.
    Mér þótti líka afar áhugavert og tilefni til íhugunar margt sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Vestf. Einkum var það tvennt og það eru ekki meginatriði málsins. Hver á land, hver er réttur til lands fyrir botni Miðjarðarhafsins? Ég er búinn að lofa virðulegum forseta að lengja ekki mál mitt svo að ég ætla ekki að hafa um það mörg orð. En ég ætla aðeins að segja eitt. Líkingin milli Íslands og Noregs, ef víkingar þeir sem byggja veiðistöð þessa vildu nú fara með landakröfum á hendur Norðmönnum aftur, er ekki rétt af þeirri einföldu ástæðu að hin umdeildu landsvæði Júdea og Samaría, eins og þau heita á biblíumáli, voru ekki í eigu þeirra ríkja sem fóru með ófriði á hendur Ísrael, þ.e. Sýrlendinga og Egypta. Á þessum slóðum hafa gyðingar og arabar byggt land í sameiningu öldum saman og eiga báðir tilkall til landa, en stundum hefur það gerst þegar landnemar nema óbyggt land svo til að þeir ávinna sér rétt til lands með berum höndunum, þess lands sem þeir breyta úr eyðimörk í aldingarð.
    En hitt þótti mér þó meginatriði í máli hv. 2. þm. Vestf. þegar hann sagði: Von okkar um jákvæðar aðgerðir til að binda endi á ofbeldisverkin, hatrið, stríðið er því bundin að innan Ísraels heyrist raddir og rísi upp fólk sem skynjar að það verður eitthvað á sig að leggja fyrir friðinn, jafnvel að bjóða land fyrir frið. Og þær raddir hafa heyrst. Tillögur fyrrv. utanrríkisráðherra Ísraels, Símonar Peres, tillögur Verkamannaflokksins í Ísrael í því efni vekja von vegna þess að sá flokkur hefur það á stefnuskrá sinni að leita í alvöru eftir samkomulagi við Palestínumenn undir merkjum þess að láta land fyrir frið og öryggi. Og þeir hafa lagt fram tillögur um að fram fari kosningar í Júdeu og Samaríu og Gaza sem leysi deilumálið um PLO þannig að það fáist úr því skorið að Palestínumenn nái því að kjósa sér í kosningum, sem gjarnan mættu fara fram undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna, fulltrúa sína
til þess að stýra þeirra sjálfstjórnarkröfum og taka þátt í þeim samningum við Ísrael og aðra á jafnréttisgrundvelli. Þessar raddir eru því til og sakar ekki að geta þess að þarna fara fyrir flokki, hv. þm., jafnaðar- og samvinnumenn.
    Það er á misskilningi byggt þegar menn segja að það megi ekki draga samasemmerki milli Ísraelsríkis annars vegar og ríkislausra Palestínumanna af því að annars vegar sé hinn ægilegi hernaðarmáttur Ísraelsríkis, en hins vegar varnarlaust fólk. Við skulum gæta að því að í þessum illdeilum eigast við arabaríki grá fyrir járnum með á annað hundrað milljónir íbúa og smáríki sem telur nokkrar milljónir, en hefur orðið

að færa þær fórnir að verja um það bil helmingi af fjárlögum sínum á ári hverju, svo að ég tali nú á þingmáli, til þess að tryggja varnir sínar gegn ofurefli, yfirgnæfandi ofurefli.
    Virðulegi forseti. Ég læt máli mínu lokið. Ég þakka fyrir þessar umræður. Þær hafa verið fróðlegar, gagnlegar, upplýsandi og þessari samkundu til sóma. Ég tek það jafnframt fram að ég hef ekki enn heyrt þau rök, þó ég hafi hlustað grannt, sem munu sannfæra mig um að breyta þeirri afstöðu sem þegar liggur fyrir.