Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegur forseti. Hinn 28. september sl. var mynduð sú ríkisstjórn sem nú situr. Aðstandendur hennar leyfðu sér aðeins örskamman tíma til þess að leggja grunn þess samstarfs og hefðu sennilega betur viðhaft heldur minna írafár ef marka má margvíslega uppúrsuðu og sendingar undanfarna daga og nægir þar að minna á hvöss orðaskipti og yfirlýsingar vegna furðulegra vinnubragða hæstv. utanrrh. í atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, svo og sókn og vörn í álversmáli sem við fáum umræður um hér á eftir.
    En mönnum lá mikið á að mynda stjórnina, að því er sagt var til þess að hindra hrun útflutningsatvinnuveganna, og þótt örfáir dagar væru til þingsetningar lét hæstv. ríkisstjórn verða sitt fyrsta verk að setja bráðabirgðalög, nokkuð sem alþýðuflokksmenn og alþýðubandalagsmenn hafa sýknt og heilagt gagnrýnt þegar þeir eru utan ríkisstjórnar, bráðabirgðalög sem höfðu m.a. að geyma áframhaldandi launafrystingu, slökun á verðlagsbindingu og ákvæði um alræmdan Atvinnutryggingarsjóð.
    Þessi bráðabirgðalög hafa nú verið til meðferðar í þinginu alveg frá þingbyrjun og sér ekki enn fyrir endann á umfjöllun þeirra í fyrri deild. Slíkur seinagangur í umfjöllun á staðfestingu bráðabirgðalaga hefur vissulega oft verið látinn viðgangast vegna þess einfaldlega að menn hafa gefið sér niðurstöðuna miðað við stuðning stjórnarinnar á Alþingi. Nú eru aðstæður aðrar og engan veginn gefið að þessi bráðabirgðalög hljóti blessun Alþingis. Því miður eru reyndar líkur til þess að launafrystingin gangi í gegn þar eð sjálfstæðismenn geta tæpast afneitað því sem þeim þótti réttmætt fyrr á þessu ári og ekki þarf að fjölyrða um aðra sem fyrr á tímum töluðu fjálglega um helgan rétt launafólks en hafa nú gleypt öll stóru orðin um þau mál. Ríkisstjórnin þarf því vart að óttast mótatkvæði frá meiri hluta Alþingis hvað þessi ákvæði varðar.
    Öðru máli gegnir með ákvæðin um Atvinnutryggingarsjóð sem allir þingflokkar stjórnarandstöðu hafa mikið við að athuga svo sem fram kom við 1. umr. málsins í Ed. Ég leyfi mér að fullyrða að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki nokkra einustu tryggingu fyrir því að bráðabirgðalögin, og þá sérstaklega ákvæðin um Atvinnutryggingarsjóðinn, verði afgreidd óbreytt frá Alþingi og ég vil sérstaklega minna á andstöðu okkar kvennalistakvenna við ákvæði um að fjármagna þennan sjóð með framlögum úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þrátt fyrir þessa óvissu situr nú umboðsmaður ríkisstjórnarinnar í skrifborðsstóli sínum inni í Byggðastofnun og tekur á móti pöntunum í ímyndað fé þessa umdeilda sjóðs sem m.a. margir forkólfar atvinnulífsins hafa efasemdir um. Og það sem meira er og vekur mestar áhyggjur: stjórn hins svonefnda Atvinnutryggingarsjóðs hyggst hefja útdeilingu þessa fjár innan fárra daga samkvæmt fréttum í fjölmiðlum.
    Ég endurtek það, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin

ætlar, að því er virðist blygðunarlaust, að láta sérlegan starfsmann sinn og skömmtunarstjóra hefja útdeilingu fjár svo hundruðum milljóna skiptir nú á næstu dögum úr sjóði sem óvíst er að Alþingi leggi blessun sína yfir í þeirri mynd sem hann birtist í bráðabirgðalögunum. Þetta er að mínum dómi, virðulegi forseti, og ég get nú farið að ljúka máli mínu, óvirðing við Alþingi. Og ég spyr hæstv. forsrh. hvaða tryggingu hann hafi fyrir því að bráðabirgðalögin verði samþykkt óbreytt frá Alþingi, hvort honum finnist ekki ástæða til þess að fara fram á að afgreiðslu málsins verði hraðað hér í þinginu til að fá úr því skorið sem fyrst hvern stuðning þau hafa eða hvort einstökum ákvæðum þeirra verði breytt og hvort hann telji ekki rétt að bíða með útdeilingu fjár þar til séð verður hvernig Alþingi afgreiðir málið.