Nýtt álver við Straumsvík
Mánudaginn 21. nóvember 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi mál eru rædd hér á hv. Alþingi og tilefnin hafa kannski stundum verið næg og nærtækari en það sem hér er um að ræða.
    Það er ekki ónýtt fyrir þá aðila sem eru að bera sig saman úti í heimi um það hvernig þeir eigi að koma sér fyrir hugsanlega hér uppi á Íslandi að fá yfirlýsingar úr ræðustól á Alþingi frá hv. alþm. eins og hér hafa komið fram frá nokkrum þeim sem hér hafa talað. Ég nefni þar til sögu hv. þm. Kjartan Jóhannsson og hv. þm. Júlíus Sólnes sem var að ljúka máli sínu áðan og tala fyrir hönd Borgfl. væntanlega, enda formaður þess þingflokks hér á Alþingi, og hnykkja á því að það beri að ganga til samninga við þessa aðila um þreföldun áliðju í Straumsvík ef nokkur kostur sé að krækja slíku saman. Það er ekki ónýtt að fá slíkar pólitískar yfirlýsingar hér á Alþingi varðandi þá samningsstöðu sem menn sem eru kappsfullir um og ætla sér kannski að byggja upp í þessu máli, að fara að reisa hér nýtt álver, tvöfalt stærra en það sem fyrir er. Það er ekki ónýtt fyrir hæstv. viðskrh. að fá slíkt í vegarnesti, ef það skyldi einhvern tíma koma í hans hlut að reyna að ná þessum samningum, að sjá það að hér er hluti af hv. alþm. á hnjánum í sambandi við það að koma fótum undir þetta erlenda fyrirtæki suður í Straumsvík. Það vissu allir um viðhorf Sjálfstfl. í þessum málum og á þeim bæ er allt óbreytt. Það fengum við að vita nú síðast frá hæstv. fyrrv. iðnrh. Friðriki Sophussyni. Það var það eina flagg sem hann reisti í tíð sinni sem iðnrh. að gera samning um hagkvæmniathugun við fjögur erlend fyrirtæki um byggingu álvers í Straumsvík á sama tíma og grunnurinn var að hrynja undan almennum iðnaði í landinu eins og raun ber vitni og menn þekkja.
    Það er rétt sem hæstv. fjmrh. mælti hér úr þessum ræðustól áðan að það er nokkuð sérstætt að það birtist okkur sem aðaláhugamál stærsta stjórnarandstöðuflokksins og einstakra þm. sem styðja núv. ríkisstjórn að keppa að því að semja um atvinnurekstur af þessu tagi hið allra fyrsta --- fyrir lok næsta árs ef ég hef skilið hæstv. viðskrh. rétt --- á sama tíma og grunnurinn er hruninn undan útflutningsatvinnuvegum landsmanna vegna stjórnarstefnu fyrrv. ríkisstjórnar sem kom innlendum atvinnurekstri á vonarvöl, fiskvinnslunni í landinu og almennum iðnaði, að samkeppnisiðnaði meðtöldum, eins og menn þekkja og eins og nú er að koma í ljós þegar fyrirtækin í landinu eru að birta tölur sínar um milliuppgjör að loknum níu eða tíu mánuðum þessa árs. Það verður falleg jólabók sem hægt er að efna í handa hæstv. fyrrv. forsrh. Þorsteini Pálssyni og hæstv. fyrrv. iðnrh. Friðrik Sophussyni að senda þeim núna á jólaföstunni niðurstöðurnar úr rekstrarafkomu útflutningsatvinnuveganna á Íslandi um það leyti sem stjórnarskipti urðu. Það er sannarlega skammdegislesning sem ekki er uppörvandi.
    En fremsta áhugamál þessara manna hér á hv. Alþingi er ekki að fara yfir þessa stöðu heldur að

reka á eftir því að gerðir verði samningar um erlenda stóriðju í Straumsvík, engin smáfyrirtæki, aukningu á raforkuframleiðslu til að afhenda útlendingum hér í atvinnurekstri. Aukningu um 2600 gwst. af orku þegar heildarframleiðslan í landinu nú er um 4000 gwst. til þess á þann hátt að koma upp vinnustað sem hæstv. viðskrh. upplýsir í svari við fsp. á þskj. 10 --- sem ég þakka fyrir, virðulegur forseti, að hefur borist á borð þm. --- að muni veita um 430 manns atvinnu. --- Og féll þá kertið frá fyrrv. iðnrh. fyrir borð og væntanlega verða það einnig örlög drauma hans um það að bæta við það dæmi sem Sjálfstfl. og Alþfl. bera ábyrgð á frá sjöunda áratugnum í sambandi við álver í Straumsvík. --- Það ætti að vera verkefni Alþingis nú í framhaldi af því sem dregið var fram í dagsljósið fyrir átta árum síðan: Hver eru þjóðhagsleg áhrif og hver er uppskeran úr þeim rekstri sem fram fer í Straumsvík? Hver er bagginn sem lagður hefur verið á innlendan atvinnurekstur með því að greiða niður raforkuna fyrir þennan iðnað?
    Það er heldur fátæklegt á þessum blöðum sem við vorum að fá sem svar frá hæstv. viðskrh. Það er lítið sagt um það hvaða raforkuverð það er sem menn hafa í huga vegna þessarar verksmiðju sem þeir bera fyrir brjósti. En út úr ársreikningum Landsvirkjunar, hæstv. viðskrh., fyrir árið 1987 lesum við að meðalkostnaðarverð á hverri seldri kwst. af orku út úr kerfi Landsvirkjunar til stóriðju og til almenns rekstrar og til heimila í landinu --- hvert skyldi það vera, virðulegur viðskrh.? Hvert skyldi það vera, hv. þm. Friðrik Sophusson? Ætli það séu 12,5 mill eins og lengst hefur verið búið við eftir að samningar voru endurskoðaðir vegna álversins í Straumsvík? Eða 18,5 mill sem samkvæmt hámarki og umsömdu þaki er toppurinn sem hægt er að ná? Nei, það eru 22 mill. 21,9 mill nákvæmlega reiknað samkvæmt ársreikningum Landsvirkjunar.
    Um hvað eru menn að tala? Hvað er verið að hvísla í eyrun á ATLANTAL-hópnum í sambandi við raforkuverð? Hvaða upplýsingar eru það? Per Olof, eins og ég held að hann heiti að fornafni, forstjóri Granges Aluminium í Svíþjóð, sagði hvað hæstv. fyrrv. iðnrh. hefði hvíslað í sín eyru meðan hann sat þar í embætti. Hann upplýsti það í viðtali við Morgunblaðið 5. júlí sl. Það væru sömu forsendur eins og í raforkusölunni til núverandi álbræðslu í
Straumsvík. Raforkusamningur sem getur hreyft sig á bilinu 12,5--18,5 mill, óverðtryggður, og hefur lækkað að raungildi um fjórðung frá því að Sverrir Hermannsson skrifaði undir hann í nóvember 1984, rýrnað að verðgildi síðan um einn fjórðung, um 25%.
    Er það alvara hv. alþm. að fara að efna til samningaviðræðna og eyða fjármagni af hálfu íslenska ríkisins og fyrirtækja eins og Landsvirkjunar í það að koma upp fyrirtæki af því tagi sem þarna er verið að láta liggja að að eigi að reisa fyrir 1992 og tvöfalda, samkvæmt upplýsingum frá hæstv. viðskrh. nú, að framleiðslugetu upp í 180 þús. tonn hið minnsta, 4--6 árum síðar? Er það meining hv. alþm., m.a. þeirra sem eru fulltrúar landsbyggðarinnar sem er stödd í

þeim sporum sem þeir menn þekkja sem fylgjast með atvinnurekstrinum úti um land, að ætla að fara að láta liggja að því að það komi til greina að fara að verja 20--25 milljörðum íslenskra króna í að byggja upp virkjanir á Suðurlandi til þess að selja orkuna á því undirverði sem viðgengist hefur í samningum um stóriðju á Íslandi undanfarna áratugi? Ætla menn að fara að láta nafn sitt við þetta? Ég spyr hv. þm. hvar í flokki sem þeir standa, ég spyr fulltrúa landsbyggðarinnar hér á Alþingi --- hér sitja t.d. fyrir framan mig hv. þm. fulltrúar Vestfirðinga þeir Þorv. Garðar Kristjánsson og Matthías Bjarnason --- ætla þeir í sínum flokki að taka þátt í að reka á eftir þessum fyrirætlunum þeirra sem hafa látið flækja sig í þessi net í eigin flokki og eru að reka þar á eftir?
    Hér situr formaður þingflokks Framsfl., hv. þm. Páll Pétursson. Ætlar hann að beita sér fyrir því í sínum þingflokki að farið verði að efna í samninga á þeim kjörum sem hv. þm. veit ósköp vel hver bjóðast í þessum efnum? Hann situr í stjórn Landsvirkjunar, en það hefur víst ekki verið haft mjög mikið fyrir því á þeim bæ að viðra orkuverðið sem Landsvirkjun hefði upp á að bjóða til þessa væntanlega fyrirtækis. Ég hygg að það hafi heyrst ansi lítið um það á þeim bæ, enda má niðurstöðuna finna í ársreikningum fyrirtækisins fyrir síðasta ár: 22 mill sem meðalkostnaðarverð allrar seldrar orku frá fyrirtækinu. Talið við þá í ATLANTAL-hópnum, hvort þeir vilji borga svona 50% ofan á þetta. Spyrjið þá að því. ( ÞP: Fær landbrh. líka fsp. frá þm.?) Landbrh.? Ætli hæstv. landbrh. svari ekki fyrir sig ef hann hefur einhverju við að bæta eða ef hv. þm. Þorsteinn Pálsson ætlar að beina til hans fsp. Hæstv. landbrh. hefur hlýtt hér af gaumgæfni á þessar umræður sem eðlilegt er. Það vantar hins vegar ýmsa sem mættu gjarnan taka hér til máls. Hér eru engin smámál til umræðu.
    Við erum hér að fást við draug úr tíð síðustu ríkisstjórnar, einn af mörgum draugum frá tíð þeirrar ágætu verkstjórnar sem hv. þm. Friðrik Sophusson var að minna á hér í ræðustól áðan. Hann var að tala um verkstjórnina í ríkisstjórninni og það brostu allir hv. þm. í kampinn sem eðlilegt var. Ríkisstjórnin sem lék íslenskan atvinnurekstur með þeim hætti sem nú blasir við. (Gripið fram í.)
    Ég held, virðulegur forseti, að það sé rétt að ég rifji aðeins upp hver stefna Alþb. er í þessum efnum. Það hefur komið fram í ræðu hæstv. fjmrh. og ég vil ítreka það sem er stefna Alþb. eins og hún hefur legið fyrir síðan 1974 þegar Alþb. markaði sína meginstefnu til atvinnumála, almenna stefnu til þjóðmála. Það er ekki langur kafli, virðulegur forseti:
    ,,Alþb. er því andvígt að erlend auðfélög fái aðstöðu til atvinnurekstrar á Íslandi og telur að uppbyggingu stóriðju í landinu beri að haga eftir efnahagsgetu þjóðarinnar sjálfrar. Alger forsenda er að íslenska ríkið eigi meiri hluta í stóriðjufyrirtækjum. Við byggingu og staðsetningu stóriðjumannvirkja ber að sýna ýtrustu aðgæslu um mengunarvarnir. En ekki er síður nauðsynlegt að taka fullt tillit til félagslegra

og efnahagslegra áhrifa. Við undirbúning framkvæmda í orkumálum og iðnaði, sem og við aðra mannvirkjagerð, ber að leggja áherslu á að fullt tillit sé tekið til umhverfissjónarmiða frá byrjun.``
    Þetta er hin almenna stefna Alþb. til þessara mála, sem er nánar útfærð í samþykktum flokksins frá 1976, sem ekki hefur verið breytt síðan, bæði varðandi eignaraðild, umhverfisvernd og félagslega þætti, þar á meðal byggðamál.
    Hér kom talsmaður eins stjórnarandstöðuflokksins, Borgfl., og fór að fjalla um viðhorfið til byggðar í landinu í sambandi við þessa atvinnuuppbyggingu. Það var satt að segja mesta raun á að hlýða. Hv. þm. Júlíus Sólnes var ekkert að skera utan af því hér í sinni ræðu. Það á ekki að taka nokkurt tillit til þess ef útlendingunum þóknast annað. Menn eiga bara að fara eftir því sem þeim þóknast hvernig staðið er að uppbyggingu atvinnurekstrar í landinu. Vegna þess að menn ætluðu að byggja litla kísilmálmverksmiðju austur á landi þá vildu útlendingarnir ekki bíta á og það var ósköp eðlilegt! Það mátti skilja það á orðum hv. þm. Hvers vegna ætli hafi ekkert orðið úr því fyrirtæki? Jú, ,,hagkvæmniathugunin kom ekki nógu vel út,,, sagði hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson. Hún brást. Hagkvæmniathugun hverra? Rio Tinto Zink. Mánuði eftir að hv. fyrrv. iðnrh., Friðrik Sophusson,
kistulagði það fyrirtæki og lagði það niður, hlutafélagið sem stofnað var í kringum það 1982, hafði afurðaverðið á kísilmálmi hækkað það mikið að það nægði til að fleyta arðseminni inni í þeim líkönum sem miðað var við yfir það lágmark sem útlendingarnir höfðu talað um að uppfylla þyrfti. En það er auðvitað ekkert verið að líta á það. Þarna voru ráðin í höndum útlendinganna frá upphafi til enda. Það var algerlega lagt í vald eigendanna, hluthafanna suður í London og víðar út um heim, hvort af þessu fyrirtæki yrði eða ekki. Það er ein afleiðingin, hæstv. viðskrh., af því að láta útlendingana um það að ráða ferðinni sem eignaraðila að slíkum fyrirtækjum. Það er afleiðingin af því í hvaða rekstri sem er. Ef menn afhenda útlendingum meirihlutaeign í íslenskum atvinnurekstri, þá erum við að sigla inn á braut hjálendunnar á nýjan leik.
    Hér hefur verið minnst á Noreg. Norðmenn hafa lært af sinni reynslu í stóriðju. Þeir fóru út á þá braut á sjöunda áratugnum og þeim áttunda að kaupa upp hlutabréfin í erlendu stóriðjufyrirtækjunum til að tryggja sér þar ítök og meirihlutaáhrif í flestum tilvikum. Skyldu þeir hafa gert það að gamni sínu? Ó-nei. Þeir voru reynslunni ríkari af samskiptum við þessa útlendu herra. Og núna? Ég var á ferð í Noregi í síðustu viku, ræddi þar m.a. við fulltrúa í umhverfisráðuneytinu norska, sem væri nú fróðlegt fyrir hv. alþingismenn að kynna sér hvernig starfar, ræddi um þau verkefni sem þar er verið að fara yfir. Eitt af því sem lagt er til fjármagn á komandi ári er að athuga þjóðhagsleg áhrif málmvinnslunnar í landinu, frekari þróunar á því sviði, frekari uppbyggingar á því sviði, með spurningum, með stóru

spurningarmerki: Er það þjóðhagslega rétt að leggja meira fjármagn í slíkan rekstur og þá með hliðsjón af öðrum kostum í atvinnulífi?
    Nýjustu upplýsingar í sambandi við ál sem ég heyrði úr munni þessara manna voru þær að líkurnar á þeirri aukningu, sem menn hafa talið að lægju fyrir hvað snertir markað fyrir ál, væru minnkandi, m.a. vegna þess að ál er nú talið, það eru vísbendingar um það a.m.k., að ál sé heilsuspillandi þegar það er notað í heimilistæki og matarílát og slíka hluti en það er drjúgur hluti af hinni almennu notkun áls, nýtingu hrááls. Það er talið leiða til hrörnunarsjúkdóma, einkum á efri árum manna. Þeir hlutir eru ekki til fulls upplýstir, en Rannsóknaráð Noregs ver umtalverðri upphæð á komandi ári til þess að fara ofan í saumana á þeim málum.
    Það er ekki allt gull sem glóir. Þau áform sem hér er verið að ræða eru sannarlega umræðunnar virði. En ég vil biðja hæstv. viðskrh. um það að draga svolítið niður í áhuga sínum á þessu máli og sameinast um það með öðrum í ríkisstjórninni að reyna að finna lausnir á þeim mikla vanda sem núverandi atvinnurekstur á Íslandi býr við og kanna þá þróunarkosti í íslensku atvinnulífi sem eru allt of lítið athugaðir. Það liggja fyrir fjölmargir þættir sem við þurfum að athuga og gætu orðið að veruleika, arðskapandi og auðskapandi fyrir þessa þjóð, bara ef menn hafa hug til þess að leggja í þá, standa að rannsóknarstarfsemi í landinu fyrir íslenskt fjármagn og með íslensku hugviti til þess að byggja hér upp atvinnulíf sem við ráðum við, sem við ráðum yfir og sem fellur að því markmiði að byggja Ísland allt í framtíðinni.