Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 22. nóvember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Þó seint sé þá var huggulegt að heyra í hv. 3. þm. Vesturl. hér áðan. Hann flutti að vísu ræðu sem hefði fallið betur að efninu þegar hér var talað um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Ég skal ekki á þessum fundi fara í kappræður um það hvernig hafi staðið á því að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar bar ekki gæfu til að taka á vanda atvinnulífsins. Á hinn bóginn liggur alveg ljóst fyrir að þær aðgerðir, sem núverandi ríkisstjórn beitti sér fyrir og hv. þm. er mikill talsmaður fyrir, njóta ekki mikils stuðnings í þeim sjávarplássum á Vesturlandi þar sem hann er fulltrúi ef eitthvað er að marka það rabb sem ég hef átt við einstaka menn þaðan að vestan. Og ég held að menn úti um land hafi áttað sig á því hvað raunverulega varð til þess að þeir Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson báðu Þorstein Pálsson að segja af sér. Það hefur margsinnis komið fram að það er rétt, sem stóð í Alþýðublaðinu, að það var baktjaldamakk við stjórnarandstöðuna í ágústmánuði. Þetta hefur verið staðfest bæði með beinum og óbeinum hætti síðar. Ég skil vel að þessi hv. þm. skuli mjög hrósa sér af því að Alþfl. skyldi hafa tekist að mynda nýja ríkisstjórn nú þó svo að ég hefði líka gjarnan viljað heyra hv. þm. segja að þau vinnubrögð, sem notuð voru í lok ágústmánaðar og byrjun september, séu til fyrirmyndar og eins og Alþfl. vill hafa það í stjórnarsamstarfi. Það hefði verið skemmtilegra að heyra hv. þm. segja það einnig.
    Hitt finnst mér hálfundarlegt að þessi hv. þm. skuli nú nota tækifærið, þegar Karl Steinar Guðnason er fjarstaddur, til að gera lítið úr þeim ummælum, sem hann viðhafði hér fyrr á þessu þingi, að hann hefði lýst því yfir í Alþfl. að fyrr yrði gengið yfir hann dauðan en hann hefði samþykkt niðurfærsluleiðina. Nú kemur formaður þingflokks Alþfl., breiðir sig út og talar um það að Þorsteinn Pálsson hafi pantað það úti í bæ að niðurfærsluleiðinni yrði hafnað. Ég held að þessi hv. þm. ætti fremur að snúa sér að þessum þm. Alþfl., Karli Steinari Guðnasyni. Það er ekki nóg með að lítið sé gert úr skoðunum hans nú á þessum fundi heldur var það æpandi í Þjóðviljanum sl. föstudag þegar þessi hv. þm. var brýndur á því að hann kæmi ekki til greina sem forseti eða varaforseti Alþýðusambands Íslands vegna þess að hann væri stuðningsmaður þeirra efnahagsráðstafana sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir. Ég skal svo ekki tala meira um þessi efni, en mér þótti vænt um þetta innskot formanns þingflokks Alþfl. þótt seint sé. Það lýsir svolítið þeim hugarhrellingum sem þm. er í.
    Það sem mér fannst eftirtektarvert í svörum hæstv. fjmrh. var þetta --- og ég skal reyna að fara hratt yfir sögu og virða tilmæli forseta. Þegar hann talaði um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga kom fram að ríkisstjórnin hugsar sér að Jöfnunarsjóðurinn fái fastan tekjustofn af tekjuskatti. Nú á ég ekki sæti í fjvn. og get þess vegna ekkert um það sagt hvort þar sé gert ráð fyrir því að taka hluta af tekjuskattsálagningunni eins og hún var áætluð í fjárlagafrv. þannig að hluti af þeim

peningum, sem þar var gert ráð fyrir að kæmu inn, færi til þessara þarfa sveitarfélaganna eða hvort hæstv. fjmrh. hugsar sér að hækka tekjuskattinn enn meira en jafnvel hann hefur talað um fram að þessu. Það var annar þáttur í ræðu hæstv. fjmrh. sem benti til að svo gæti verið. Það var þegar hann fór að halda yfir okkur sína hjartnæmu ræðu, sem við erum nú farnir að kannast við hér í þinginu, að vegna þess að skattar væru hærri einhvers staðar annars staðar þá þyrfti endilega að hækka skattana hérna líka. Ég skil nú illa þennan þankagang. Ég held að það sé óþarfi fyrir okkur að apa endilega allt eftir sem gerist erlendis. Það er alveg fráleitt að hugsa sér það að setjast í sæti fjmrh. með þeim hugsunarhætti að það sé svo sem allt í lagi þó að ríkisbáknið þenjist út, það sé svo sem allt í lagi þó að settir séu þyngri baggar á atvinnureksturinn í bullandi hallarekstri, það sé allt í lagi þó að settir séu þyngri pinklar á alþýðu þessa lands á sama tíma og kaupmátturinn dregst saman, þá skulum við samt klípa af færri krónum enn fleiri krónur í ríkissjóð, skerða afkomuna enn meir og sýna kæruleysi í ríkisfjármálum. Þetta er náttúrlega ekki góð latína eins og við íhaldsmenn kunnum hana og þarf að tala betur til okkar en gert var hér áðan til að sannfæra okkur um að þetta sé rétta leiðin nú í þeim erfiðleikum sem við búum við að halda uppi hækkandi gengi. Það kemur skýrt fram í fskj. með þjóðhagsáætlun, í töflu 5, að frá upphafi til loka árs muni framfærsluvísitala hækka um 6%, byggingarvísitala um 5% en hins vegar muni gengið vera óbreytt. Jafnframt kemur þar fram að meðalhækkun frá fyrra ári sé veruleg, eða 12% í framfærsluvísitölunni meðan hún er 7% í genginu, en munurinn þarna á milli er auðvitað meiri en nemur þessari alheimsverðbólgu eins og hún kemur við okkur ef ég hef réttar upplýsingar um þau efni, en það má vera að ég hafi það ekki.
    Eftir sem áður liggur fyrir að raungengi krónunnar er of hátt. Það liggur fyrir að það stuðlar annars vegar að hallarekstri atvinnugreina. Það stuðlar að meiri viðskiptahalla en ella væri. Það kemur í veg fyrir eðlilega uppbyggingu í atvinnulífinu. Það vinnur á móti því að menn ráðist í ný verkefni og kemur einnig í veg fyrir það að menn beiti sér eins og áður til meiri verðmætasköpunar í þjóðfélaginu. Þetta hefur auðvitað þau áhrif að landsframleiðslan verður minni en ella. Þetta hefur þau áhrif að skatttekjur ríkissjóðs dragast saman, eins og hv. 4. þm. Austurl. gerði rækilega grein fyrir hér áðan, þannig að ég hygg að það sé alveg ljóst að þetta frv. staðfestir það að ríkissjóður verður rekinn með miklum halla á næsta ári. Það verður reynt að halda atvinnuvegunum gangandi með vaxandi erlendum lántökum. Það verður þrengt að lánamarkaðnum hér innan lands með þeim afleiðingum að raunvextir fara hækkandi nema gripið verði harkalega inn í af stjórnvöldum sem aftur mun hafa þau áhrif að það dregur óeðlilega úr frjálsum sparnaði í landinu. Þetta er í stuttu máli sú mynd sem við blasir.
    Ég skal svo virða ummæli virðulegs forseta og

geyma mér frekari athugasemdir þar til síðar.