Hlutafélög
Miðvikudaginn 23. nóvember 1988

     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. er nú endurflutt og get tekið undir þau orð hæstv. ráðherra að nauðsyn beri til að hraða afgreiðslu þessa máls og vænti þess að það verði að lögum á þessu þingi. Ég hef áður mælt fyrir þessu frv. sem nú er flutt lítillega breytt. Það var ekki vanþörf á því að gera margvíslegar breytingar á lögum um hlutafélög því að þau eru að stofni til orðin mjög gömul eða frá árinu 1921, þó að þeim hafi verið breytt árið 1978, en sú breyting var að mínum dómi fremur lítilfjörleg og engan veginn í takt við tímann.
    Eins og hæstv. ráðherra gat um, þá hefur frv. tvisvar sinnun verið lagt fyrir Alþingi, árin 1986 og 1987, og er byggt á starfi nefndar sem skipuð var á árinu 1984. Endurflutningur frv. er með tveimur smávægilegum efnisbreytingum, annars vegar varðandi 3. mgr. í 1. gr. laganna, en þar er aðeins vísað í lánskjaravísitölu, og hins vegar ný 3. mgr. 20. gr. laganna þar sem tímatakmörk eru sett vegna mats á innlausnarverði hlutabréfa. Svo og eru leiðréttingar á örfáum villum sem slæðst hafa inn. Ítarleg greinargerð fylgir frv. og skýrir vel hvaða breytingar eru hér gerðar. Margar þessar breytingar eru mjög mikils virði. Það er einnig mjög mikils virði að hin minni hlutafélög fá þarna bæði aukinn rétt og um leið aðhald sem þarf á að halda. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða frekar um þetta frv. efnislega að öðru leyti en því að ég endurtek að ég fyrir mitt leyti, en ég á sæti í þeirri nefnd sem væntanlega fær frv. til meðferðar, mun leggja áherslu á það að nefndin afgreiði það því að það er, eins og ég sagði hér í upphafi, brýn nauðsyn á því að Alþingi setji nýja löggjöf um hlutafélög þar sem gildandi löggjöf er á margan hátt úrelt. Hins vegar áskil ég mér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma um hin minni atriði sem alltaf getur komið til í sambandi við meðferð nefndar á frv.