Ummæli viðskiptaráðherra um gróðurvernd
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ýmislegt sem fram hefur komið í þessum umræðum, þar á meðal ummælum hæstv. landbrh. og hæstv. heilbrmrh., þar sem þeir taka skýrt fram að þeir taka ekki ábyrgð á þeim ummælum sem hæstv. viðskrh. hefur hér látið falla. Þó bera þeir auðvitað sinn hluta ábyrgðar og pólitíska ábyrgð að sínum hluta á því sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands segir.
    Ég hef hins vegar lítið að þakka hæstv. viðskrh. Hann gerði hvorugt, að draga ummæli sín til baka né biðjast á þeim afsökunar. Á hinn bóginn reyndi hann og ýmsir fleiri þingmenn, einkum þingmenn Alþfl., að drepa þessu máli á dreif með fallegum ræðum um gróðurvernd sem er allt annað mál en það sem ég bar hér upp í upphafi. Ég las ummæli hæstv. ráðherra, sem hann hefur ekki dregið til baka, svohljóðandi, með leyfi forseta, m.a.:
    ,,Ef til vill er eina ráðið að efna til herferðar meðal almennings um að hann hætti að kaupa kjöt af þeim dýrum sem alin eru á beit afrétta í uppblásturshættu. Þetta á bæði við um afurðir sauðfjár og hrossa.``
    Það er alvarlegt þegar hæstv. ráðherra viðskiptamála, ekki síst, hefur slík ummæli, beinir slíkri hótun til bænda landsins, til þjóðarinnar. Það er alvarlegt. Og þau ummæli skora ég enn á hann að draga til baka, en biðjast afsökunar ella. Nú segir hæstv. ráðherra að neytendur eigi að finna það á sér hvaðan kjöt er sem er á boðstólum í verslunum og ekki kaupa kjöt sem er af gripum sem gengið hafa á landi sem hann telur ofbeitt. --- Ég beini því til hæstv. forseta að ég á þriggja mínútna ræðutíma. --- Hann segir líka að það sé ómerkilegur útúrsnúningur og menn hafa talað hér um ómerkilegan útúrsnúning að gera þessa hótun hæstv. ráðherra að umtalsefni. Það er nú svo að hæstv. ráðherra talar í þessu tilliti ekki sem einhver skriftlærður stofuspekingur heldur sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands.
    Hér hefur verið sagt að landið hafi verið fagurt við landnám. Víst var það eftir sögnum. Þá var góðæri hér í landi eftir öllum heimildum. Það góðæri stóð ekki mjög lengi. Seint á þjóðveldisöld tók mjög að kólna og kuldaskeiðið, harðindaskeiðið frá 17. öld til 1920 gekk nær gróðurlendi landsins en ýmsir nú vilja vera láta. Hv. þm. Árni Gunnarsson sagði áðan að nú væri meira landfok en nokkru sinni fyrr. Eftir móðuharðindin var svo komið að þjóðin var ekki nema 38 þús. manns, að sauðfé í landinu var aðeins 40 þús. vegna landeyðingar. Þá var ekki hægt að hafa fleira, þá lifði ekki hér fleira fé en 40 þús., ein kind á mann. Svo kemur þessi þingmaður með blekkingar og segir að nú sé meiri landeyðing en nokkru sinni fyrr.
    Ég tek undir að við þurfum að huga að varðveislu gróðurlendis og að auka gróðurlendi landsins, endurheimta það sem tapast hefur. Það er út af fyrir sig annað mál. Það er gott mál og fagurt um að tala og verður ekki rætt í svo stuttum ræðutíma. En það verður ekki gert með þeim hætti að kasta stríðshanska til þeirrar stéttar sem mest á í húfi, sem mest þarf að

hafa samstarf við, bændastéttarinnar. Það verður ekki gert með því að hafa hótanir í frammi í garð þessarar stéttar af hálfu hæstv. ráðherra, þeirra sem fara með stjórn landsins. Það verður að gerast með samstarfi. Það verður að fá þá aðila sem mest um þessi mál véla til samstarfs. Og bændur eru fúsir til samstarfs og hafa verið það á undanförnum árum sem ég hef nokkuð rakið í minni frumræðu.
    Ég vil því enn segja aðeins þetta: Við skulum ekki hafa hótanir í frammi. Við skulum laða aðila til samstarfs. Það er skylda stjórnvalda að halda svo á málum að það verði til þess að vinna þessum málum gagn, ekki til þess að efna til úlfúðar, ekki til þess að reyna að magna almenning í landinu gegn bændastéttinni meira en verið hefur. Enn skora ég á hæstv. ráðherra: Dragðu ummæli þín til baka, en biddu afsökunar ella. Þú værir maður að meiri.