Kjararannsóknir
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegur forseti. Ég er einn af flm. þessarar tillögu og tek einnig undir þau orð annarra hv. þm. að það er mjög þýðingarmikið að efla kjararannsóknir.
    Vegna ummæla hv. 5. þm. Suðurl. Guðna Ágústssonar um að það væri mikilvægt að Sjálfstfl. skildi mikilvægi þessa máls tel ég nauðsynlegt að það komi fram sem þjóð veit náttúrlega, þó að honum hafi e.t.v. ekki verið kunnugt um það, að Sjálfstfl. hefur ætíð skilið hagmunamál launafólks og það mjög vel. Það vill svo til að mikill fjöldi sjálfstæðismanna er virkir þátttakendur í verkalýðshreyfingunni og vegna þeirrar þátttöku hafa sjálfstæðismenn að sjálfsögðu mjög komið við sögu í kjaramálum og einnig í sambandi við það mál sem hér er til umræðu.
    Við viljum að sjálfsögðu styrkja stöðu launafólks og þessi till. sem hv. flm. Kristín Einarsdóttir átti frumkvæði að að koma með er auðvitað liður í þeirri sameiginlegu baráttu okkar allra að styrkja stöðu launafólks með þeim hætti sem till. gerir ráð fyrir. Þess vegna endurtek ég það og tek undir þau ummæli annarra hv. þm. að ég vænti þess að þessi tillaga fái jákvæða afgreiðslu á Alþingi.