Flm. (Friðjón Þórðarson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 65 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um könnun á jarðvarma, jarðsjó og ferskvatni á Vesturlandi. Tillagan er þess efnis að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að láta fara fram samræmda könnun á jarðvarma, jarðsjó og fersku vatni á Vesturlandi í samvinnu við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila. Markmið slíkrar könnunar verði að safna upplýsingum um forða af heitu og köldu vatni og jarðsjó er hagnýta megi m.a. í þágu fiskeldis og til eflingar byggðar og búsetu á Vesturlandi.
    Tillaga þessi hefur tvívegis áður verið flutt. Á 109. löggjafarþingi voru flm. þeir Friðjón Þórðarson, Valdimar Indriðason og Sturla Böðvarsson. Tími vannst ekki til að fjalla um málið á því þingi. Í fyrra, á 110. löggjafarþingi, var tillagan endurflutt en varð ekki útrædd. Hún er því flutt nú með þeirri breytingu að jarðsjó er bætt við, þar sem Orkustofnun leggur nú mikla áherslu á rannsóknir varðandi vinnslu jarðsjávar.
    Greinargerð er nokkuð breytt í samræmi við framþróun mála og fylgiskjöl eru nú bréf og greinargerð Orkustofnunar frá okt. 1988 og hafa þau að geyma nýjustu viðhorf í þessum efnum. Þar er fjallað nánar um efni tillögunnar og tilgang hennar. Tel ég því ekki þörf á að rekja þau málefni ítarlegar í framsögu en vísa til greinargerðar og fylgiskjala. Þó tel ég rétt að stikla á nokkrum atriðum.
    Flestir virðast vera sammála um að íslenska þjóðin eigi að halda áfram að byggja landið allt en safnast ekki öll saman á einu horni þess. Þetta hlýtur a.m.k. að eiga við um allar lífvænlegar og blómlegar byggðir landsins. Meginstefnan hlýtur að vera sú að gera allt sem hægt er til þess að fólkið geti búið við sem jöfnust lífsskilyrði hvar sem það býr, til sjávar eða sveita. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að þekkja landið sem best, náttúru þess, auðlindir og önnur verðmæti. Landsmenn verða að kunna skil á því að nýta þessi gæði með hófsamlegum hætti og búa í sátt við umhverfi sitt.
    En sannleikurinn er sá að hagnýtum rannsóknum á náttúruauðæfum landsins miðar of hægt áfram og víða skortir frumrannsóknir, en á þessu sviði sem öðrum skortir nægilegt fé til framkvæmda þótt mörgum vel hæfum vísindamönnum sé á að skipa og verkefnin séu hin mikilvægustu.
    Samkvæmt lögum er hlutverk Orkustofnunar m.a. að annast yfirlitsrannsóknir á orkulindum landsins, eðli þeirra og skilyrðum til hagnýtingar þeirra. Sömuleiðis yfirlitsrannsóknir í orkubúskap þjóðarinnar er miði að því að unnt sé að tryggja að orkuþörf þjóðarinnar sé fullnægt og orkulindir landsins hagnýttar á sem hagkvæmastan hátt á hverjum tíma og aðrar rannsóknir á sviði orkumála eftir því sem tilefni gefast. Hér er því mikið verk að vinna og kostnaðarsamt.
    Á síðari árum þegar kvótareglur sníða mönnum þröngan stakk í sjávarútvegi og landbúnaði verður að leita nýrra leiða til öflunar verðmæta, nýrra búgreina eins og oft er haft á orði. Að því er Vesturland varðar koma fyrst í hugann ferðaþjónusta og fiskeldi, auk

ýmissa þjónustugreina. Að þessu sinni er fiskeldi aðallega haft í huga. Að mati Orkustofnunar eru réttar undirbúningsrannsóknir tryggasti grundvöllurinn undir réttum vatns- og varmaöflunarframkvæmdum. Rannsóknir nýtast best séu þær gerðar í áföngum og ákvörðun um framhald tekin eftir hvern áfanga. Ár frá ári eykst þekking á þessum efnum með nýjum rannsóknum, en jafnframt breytast ýmsar forsendur. Nú er mikil áhersla lögð á könnun varðandi vinnslu jarðsjávar, þar á meðal á Snæfellsnesi þar sem unnið var að rannsóknum á sl. sumri með góðum árangri.
    Fyrir allmörgum árum flutti ég till. til þál. um jarðhitaleit á Snæfellsnesi. Í umsögn um þá tillögu sögðu sérfræðingar Orkustofnunar m.a., með leyfi forseta:
    ,,Það hefur háð jarðhitaleit á norðanverðu Snæfellsnesi hversu skammt alhliða rannsóknir á eiginleikum og dreifingu jarðhita á nesinu eru á veg komnar. Allt þekkt jarðhitavatn á Snæfellsnesi er ölkelduvatn og talsvert frábrugðið heitu vatni á flestum öðrum lághitasvæðum landsins að efnasamsetningu og e.t.v. uppruna. Þá eru kaldar ölkeldur mun algengari á Snæfellsnesi en í öðrum landshlutum.``
    Á fskj. I með þessari tillögu segir svo í bréfi frá verkefnisstjórn fiskeldisverkefna, með leyfi forseta:
    ,,Við teljum einnig rétt að geta annarra nýtingarmöguleika, svo sem nýrra hitaveitna. Enn fremur má það ekki gleymast að efnasamsetning heita vatnsins við Lýsuhól og víða í Hnappadal er sams konar og vatns sem víða er notað til heilsubaða í Mið-Evrópu og víðar. Þó að það sé ekki beint á dagskrá hér má telja það orka tvímælis að eyða vatni af þessum toga til fiskeldis þegar nóg er af öðru.``
    Að sjálfsögðu er ýmislegt vitað um jarðhita á Vesturlandi frá fornu fari. Í Borgarfjarðardölum er eitt öflugasta lághitasvæði landsins. Rannsóknir hafa verið gerðar, vísindarit skrifuð og jarðhiti nýttur á margan veg. Þorvaldur Thoroddsen telur í eldfjallasögu sinni 106 heitar uppsprettur á 28 stöðum í Borgarfjarðarsýslu norðan Skarðsheiðar. Þá telja sumir Deildartunguhver
vatnsmesta hver í heimi með 200 sekúndulítra af 100 gráða heitu vatni. Hann hefur nú verið virkjaður fyrir Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar svo sem kunnugt er. Svo mætti lengi telja. Auk þess sem heitar lindir hafa nýlega fundist og eru að finnast þar sem enginn jarðvarmi er á yfirborði svo sem bent er á í niðurlagi greinargerðar um Hvalfjarðarströnd.
    Á fskj. II með tillögu þessari er yfirlit frá Orkustofnun um álitleg rannsóknarsvæði og þess getið að markmið rannsóknanna sé að fá yfirlit um möguleika á öflun jarðvarma, ferskvatns og jarðsjávar í þeim mæli sem nægi hitaveitum, fiskeldi eða annarri starfsemi ef verkast vill á öllu Vesturlandi. Þetta er allt saman mjög fróðlegt og stefnir í rétta átt, en það gefur auga leið að þetta yfirlit er langt frá því að vera tæmandi af þeirri ástæðu að segja má að í hverri leit finnist nýjar uppsprettulindir.
    Á hinn bóginn tel ég afar brýnt að fá með þessu

móti sem allra fyrst glöggt yfirlit um vatnsforða Vesturlands. Með slíka heimild að leiðarljósi er hægara um vik og auðveldara að vinna að hagnýtingu auðlindanna í þágu heimamanna og landsins alls.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. atvmn.