Efling fiskeldis
Fimmtudaginn 24. nóvember 1988

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft merkilegu máli sem hlýtur að vekja áhuga flestra á þessum síðustu og verstu tímum þegar ýmsar atvinnugreinar eiga undir högg að sækja. Nefndar hafa verið samanburðartölur sem mann sundlar af að heyra og maður hefur kannski varla móttökutæki á. Mig langar samt til að segja það að sem leikmanni dettur mér í hug að hafa efasemdir um að rétt sé að samþykkja slíka tillögu meðan hvergi liggur fyrir opinber úttekt á hugsanlegri þjóðhagslegri arðsemi fiskeldis. Við höfum ýmis dæmi um atvinnugreinar sem er hlaupið út í og eiga að leysa allan efnahagslegan vanda okkar í lengd og bráð en hafa ekki orðið að því liði sem ætlað var. Ég lýsi þá jafnframt eftir því hvort slíkt úttekt hafi verið gerð.
    Skemmst er að minnast þeirra fjárhagsörðugleika sem eldisstöðvar hafa verið og eru í á þessu ári. Uppbygging fiskeldis hefur hingað til stuðst við arðsemismat þeirra einstaklinga sem hafa komið þessu á fót og í sumum tilfellum hefur þessi atvinnuvegur gengið vel og öðrum ekki eins og kom fram á sl. vori þegar forstöðumenn eldisstöðva ráku upp ramakvein vegna skertra sölumöguleika á eldisseiðum og töldu sig þurfa á fyrirgreiðslu að halda sem næmi hundruðum milljóna. E.t.v. leysast þessi mál betur en á horfðist í vor en ég vil nú samt hreyfa þeirri spurningu hvað gerist ef eldisstöðvarnar geta ekki selt fiskinn, seiðin sem þeir héldu áfram að ala með ærnum tilkostnaði frá því í vor. Ef þessar afurðir seljast ekki, hvað gerist þá?
    Þessi atvinnugrein hefur byggst mjög hratt upp og e.t.v. ekki með nauðsynlegri fyrirhyggju í hverju tilviki. Í undangengnum samdrætti hefðbundinna búgreina hefur verið lögð áhersla á eflingu nýrra og þá lögð mikil áhersla á loðdýrarækt og fiskeldi. Menn hafa flykkst í þessar búgreinar að því er manni virðist meira af kappi en forsjá, sumar hverjar. Skortur á fjárhagsfyrirgreiðslu hefur ekki beinlínis orðið þessum greinum til trafala, fremur má segja að skort hafi á ráðgjöf, einkum í sambandi við loðdýraræktina. Staða hennar er nú slík sem allir vita, þessarar búgreinar sem ætlað var að leysa helst allan vanda bændastéttarinnar. Landsmenn eru að verða tortryggnir á þessar töfralausnir sem öllu eiga að bjarga. Þeir vilja sjá röksemdir fyrir arðsemi og gagnsemi uppbyggingar atvinnugreina áður en flanað er af stað með framkvæmdir sem síðan verða að þiggja lán og styrki af almannafé til að halda lífi ef það þá tekst. Mér finnst vanta röksemdir í þessa till. um það sem mestu varðar, arðsemina. Ég verð hins vegar að játa að greinargerðina hef ég trúlega ekki lesið nógu vel. Samt sem áður lýsi ég eftir þessu opinbera arðsemismati.
    Hins vegar er hér réttilega drepið á ýmsa þætti sem þarf að huga að við uppbyggingu og þróun þessarar atvinnugreinar svo að við verðum samkeppnisfær við aðrar þjóðir og ég er fyllilega samþykk flestum þeim sjónarmiðum sem þar koma fram og vil aðeins árétta fáeina þætti.
    Ég minni á það að við Háskólann á Akureyri er

fyrirhugað að taka upp kennslu í sjávarútvegsfræðum og það væri rétt að huga að hvort kennsla í fiskeldi á háskólastigi gæti farið fram þar því að okkur er nauðsyn á að eignast fleiri háskólamenntaða menn í þessum fræðum. Best væri að þurfa ekki að sækja alla þá menntun út fyrir landsteinana. Rannsóknaþáttinn þarf einnig að efla og líta þá í leiðinni á hvernig búið er að rannsóknastofnunum atvinnuveganna yfirleitt. Þar vil ég minna á að það er þörf á því að athuga að ríkið gangi ekki of langt í kröfum um sértekjur stofnana. Þó að vissulega sé réttmætt og sjálfsagt að greitt sé fyrir þá þjónustu sem þær veita má ekki ganga of nærri þeim sem þurfa á grundvallarrannsóknum að halda. Það má ekki krefja atvinnugreinar í uppbyggingu um svo há gjöld fyrir rannsóknir að þær telji sig ekki geta staðið undir þeim greiðslum því að þá láta þær kannski hjá líða að nota sér rannsóknirnar í þeim mæli sem þyrfti.
    Um sjúkdómaeftirlit og sjúkdómavarnir mætti ýmislegt segja. Það er skortur á faglærðu fólki til að sinna þessum störfum nú og ég vil upplýsa að Dýralæknafélag Íslands hefur farið fram á opinberan styrk til að sinna viðbótar- og endurmenntun dýralækna á þessu sviði. Þess er að vænta að sú bón fái undirtektir því að það er svo mikið undir því komið að nóg sé af vel menntuðu fólki í þessum greinum og til þess að sinna þessum þætti.
    Hvað viðvíkur fjórða þættinum hefði jafnvel þurft að vera búið að gera þessa athugun, en það er betra seint en aldrei. Ýmsir bændur binda vonir við umskipti í búskap á þessa leið og það er auðséð að það hlýtur að verða samvinnuverkefni bænda í sveitum því að einn og sér fær bóndi ekki staðið undir þeim kostnaði sem þarf til uppbyggingar.
    Fimmti þátturinn var sjúkdómaeftirlitið sem ég var að tala um áðan, en sjötti þátturinn er samræmt gæðamat fiskeldisafurða. Það er brýnt að því verði komið á sem allra fyrst og væri meira að segja ástæða til að athuga hvort ekki væri hægt að taka það út úr þessari tillögu og flýta framkvæmd þess því að þetta er mál sem enga bið þolir. Í sölumálum okkar á þessu sviði gildir núna algjört frumskógarlögmál. Það eru engar reglur og engir staðlar í gildi, það hefur ekki fengist reglugerð frá landbrn. um þessa hluti og það eru of margir
smáir aðilar í þessari sölu. Góðir markaðir tapast vegna þess að það tekst ekki að sjá fyrir nógu magni og líka vegna þess að gæðin eru ekki nógu stöðug og samræmd. Þetta er mál, eins og ég sagði áðan, sem alls ekki þolir bið.
    Síðasta atriðið í þessu er að sett verði samræmd heildarlöggjöf um fiskeldi og það held ég líka að sé mál sem enga bið þolir. Ég held að fullkomin ástæða sé til að líta mjög nákvæmlega á þessa þáltill. og að hún fái góðan framgang.