Rekstrarskilyrði garðyrkju og ylræktar
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Hv. 1. þm. Reykv. Friðrik Sophusson gaf okkur gott dæmi um það hversu fljótur hann er að taka ákvarðanir og draga ályktanir af framkomnum upplýsingum. Stundum er nú betra að flýta sér hægt. Hann hefði til að mynda í þessu tilviki gjarnan mátt byrja með spurningu en ekki gefa sér niðurstöðuna fyrir fram.
    Ég hef að sjálfsögðu ekki tekið neina ákvörðun um að ýta þessu verkefni út af borðinu eða leggja niður í skúffu starf eða álit þessarar nefndar. Ég hef einu sinni spurst fyrir um það á þeim réttum tveimur mánuðum síðan ég kom í ráðuneytið hvar þetta starf væri á veg komið og ég fékk þær upplýsingar að nefndin væri að störfum. Mér er kunnugt um að hún hefur haldið fundi, en um það nákvæmlega hvenær hún skilar af sér get ég ekki sagt á þessu stigi málsins ef það liggur þá fyrir hjá nefndinni sjálfri. En ég vonast til þess að það geti orðið mjög fljótlega.
    Síðan vil ég bæta því við að ýmislegt af þeim efnum sem varða beint rekstrarstöðu eða rekstrarskilyrði garðyrkju og ylræktar í landinu er til sérstakrar skoðunar, þar á meðal tollamál á innflutningi. Í fjmrn. er sérstaklega verið að athuga þau mál í tengslum við mögulegar breytingar á tollskrá og tollalöggjöf á næstunni.
    Hvað varðar aftur það að flutt sé almenn þáltill. um nauðsyn þess að kanna rekstrarskilyrði garðyrkju og ylræktar, þá held ég að það sé ekki rétt að láta formið þvælast allt of mikið fyrir sér í þeim efnum. Þó svo að nefnd sé að störfum þá getur það verið fullkomlega eðlilegt að hv. alþm. vilji engu að síður leggja áherslu á mikilvægi þess að málefnum garðyrkju og ylræktar sé sinnt með tillöguflutningi af þessu tagi. Ég mundi hneigjast til þess að taka þannig á málinu að skoða það nál. sem vonandi kemur í mínar hendur innan tíðar og láta mat á því ráða því hvort ástæða sé til ítarlegri könnunar eða hvort á grundvelli þess nál. sé hægt að ráðast beint í þær aðgerðir og grípa til þeirra úrræða sem nauðsynleg kunna að þykja til að halda vel utan um hag þessara greina.
    Ég er alveg sammála því sem kom hér fram í máli hv. ræðumanna að það er mjög mikilvægt að tryggja sem best starfsskilyrði garðyrkjunnar og ylræktarinnar. Þar hefur verið um vaxandi grein að ræða sem veitir sífellt meiri atvinnu, skapar störf út um sveitir og veitir ekki af að standa vel við bakið á þeirri starfsemi.