Endurskoðun lánskjaravísitölu
Mánudaginn 28. nóvember 1988

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Undan því verður ekki vikist að víkja örfáum orðum að ræðu hv. 1. þm. Suðurl. Í fyrsta skipti hef ég heyrt úr þessum ræðustól almenna leiðbeiningarstarfsemi til hv. þm. hvernig tillögur þeir mættu flytja og einnig sérstaka útlistun á því að tillögur fluttar af framsóknarmönnum væru sérstakrar gerðar og tegundar.
    Varðandi gróðurhúsin og stefnumörkun í þeim efnum hefði hv. 1. þm. Suðurl. verið hollt að hlusta á ræðu varaformanns Sjálfstfl. þegar hann gerði grein fyrir því að það væri verið að fara fram á að halda áfram vinnu á þessu sviði sem farin hefði verið af stað áður en þessi ríkisstjórn komst til valda. Það hefði í það minnsta stytt útskýringarnar á þeim hártogunum sem viðhafðar voru gagnvart þeirri tillögu.
    Um hitt atriðið, að ekki megi flytja tillögu sem snertir mál einhvers ráðherra í ríkisstjórninni, hlýtur það að verða umhugsunarefni hvernig tillögur má þá flytja á Alþingi. Ég hygg að það hefði verið hollt fyrir hann að hugleiða örlítið hvernig tillögu hv. 3. þm. Suðurl. flutti þegar hann lagði fram lagafrv. um að leggja niður lánskjaravísitöluna. Hafi hv. 1. þm. Suðurl. verið sjálfum sér samkvæmur hlýtur hann að hafa kallað á sínum tíma hv. 3. þm. Suðurl. fyrir sig og gert honum grein fyrir því að svona mætti alls ekki starfa. Þetta gengi ekki. Þetta væri í fyrsta lagi vantraust á viðskrh. og í annan stað vantraust á forsrh. fyrir það að efnahagsmál heyrðu undir hann. En engu að síður, þrátt fyrir þetta, sem vafalaust verður að telja að hv. 1. þm. Suðurl. hafi gert, lét hv. 3. þm. Suðurl. ekki segjast og flutti tillöguna. Makalaus þrjóska má það nú vera eftir jafngreinargóðar útskýringar á því hvað megi flytja í þinginu og hvað ekki.
    Ég ætla þá að víkja að efnislega grunni þeirrar umræðu sem hér fer fram, lánskjaravísitölunni. Lánskjaravísitalan verður til í reynd með lagasetningu hér á Alþingi, viljayfirlýsingu þingsins í lögum að það eigi að verðtryggja fjárskuldbindingar m.a., að bankarnir eigi að tryggja að sparifé landsmanna rýrni ekki í bönkunum. Ég hygg að ef menn vilja horfa á það með sanngirni hafi það verið söguleg staðreynd að undan því var ekki hægt að víkjast að taka á því ófremdarástandi, sem verið hafði, að sparifé landsmanna hafði verið að brenna upp í bankakerfinu. Stjórnmálamenn eftirlétu sérfræðingum að setja það upp hvernig kerfi ætti þá að taka við til að tryggja að vilji Alþingis yrði virtur. Ég hygg að hverjum manni sem skoðar hvað hefur gerst eftir þetta sé ljóst að sérfræðingaliðið teymdi þingið á hreinar villigötur því það þarf enginn að halda því fram að hér sé um verðtryggingu að ræða. Hér er um ávöxtun að ræða. Með hvaða rökum ætla menn að halda því fram að með því að greiða atkvæði með umferðarlögunum seinast, heilum bálk umferðarlaga, eigi menn að gá að sér og passa sig á því að þeir séu ekki að hækka lánskjaravísitöluna? Þegar þingmenn greiddu atkvæði með umferðarlögunum hér á Alþingi Íslendinga hækkuðu þeir lánskjaravísitöluna. Ég verð bara að

segja eins og er: Er það rökrétt? Hvers vegna, spyrja menn e.t.v. Vegna þess að kostnaðurinn í sambandi við bílinn hækkaði, fór inn í framfærsluvísitöluna og þaðan inn í lánskjaravísitöluna. Svo einfalt er málið. Og hvert lagafrv. eftir annað, sem þingmenn hafa verið að samþykkja hérna í þinginu, hefur farið beinustu leið inn í lánskjaravísitöluna. Það gengur ekki, það hreinlega gengur ekki að setja upp kerfi sem virkar á þann hátt að það kemur óorði á flesta gjaldmiðla hins vestræna heims, hreint út sagt. Þeir eru ekki taldir nægilega merkilegir til að eiga peninga í þeim. Sjá menn ekki að við höfum farið úr öskunni í eldinn? Sjá menn ekki að með því að vera með einn best tryggða gjaldmiðil heims höfum við farið langt upp fyrir gulltrygginguna og skapað vísitölutryggða krónu sem kemur óorði á alla aðra gjaldmiðla? Það er ekki efnilegt ástand að tarna.
    Menn gera grín að því að miða við vinnu. Ef allir Íslendingar væru með hliðstæð laun væri mjög rökrétt að miða við vinnuna. Þú lánar manni eina stund af lífi þínu og þú greiðir það með annarri stund af lífi þínu. Þetta gekk upp hjá frumstæðum þjóðum og var þar ekkert vandamál. Menn veittu vinnulán. Fram á þessa öld og langt fram eftir þessari öld var það algengt í sveitum að menn launuðu vinnu með vinnu. En við búum við þær aðstæður að laun manna eru svo misjöfn. Þau eru svo misjöfn að út frá því getur það gerst með því að miða við launin að kjör eins gagnvart afborgunum hafi stórkostlega batnað en annars aðila versnað. Það verður ekki séð að það sé auðvelt að feta sig jafnmikið eftir þeirri braut og hugmyndir manna eru í dag.
    Ég veit að margir segja: Þið eigið ekki að hafa skoðun á þessu. Þetta er verkefni fyrir Jón Sigurðsson að hugsa um, hæstv. viðskrh. Ég vil bara segja það eins og er að þrátt fyrir hans góðu greind, sem enginn efar, getur þeim góða manni skjátlast líka. --- Vonandi er það ekki refsivert að dómi forseta að maður fullyrði slíkt hér í stólnum, en þá yrði ég líka að taka fram dæmi um að ég hefði upplýsingar um slíkt einmitt úr þessum stól.
    En ég ætla að biðja um eina skýrslu frá hæstv. viðskrh. Það er greinargerðin sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða Alþjóðabankinn, ég man
hreinlega ekki hvor var, sendi Seðlabanka Íslands, upplýsingar um hverjar væru afleiðingarnar af því að hafa lánskjaravísitölu. Það er nefnilega tímabært að menn séu fræddir í réttri röð og þessi skýrsla verði kynnt og hæstv. ráðherra geri grein fyrir því hvers vegna Seðlabankinn kom þessu ekki á framfæri og hvers vegna ráðherra viðskiptamála á sínum tíma gerði Alþingi Íslendinga ekki grein fyrir hinni alvarlegu greinargerð sem birtist þar um þetta mál.