Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Þriðjudaginn 29. nóvember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir er gamalkunnugt á Alþingi, frv. til laga um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það er vonandi ekki óviðeigandi að ég rifji það upp hér í upphafi að þegar ég í fyrsta sinn sat hér á þingi heilan vetur, veturinn 1978--1979, var það eitt af mínum fyrstu verkum sem stuðningsmaður þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat að vinna að undirbúningi frv. til þeirra laga um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem ætlunin er að framlengja með frv. sem hér er flutt. Ég minnist þess að við þann undirbúning höfðu mjög margir efasemdir um þennan nýja skatt og auðvitað var ekkert alveg sjálfsagt að hann kæmi nákvæmlega út eins og gerst hefur. Þó finnst mér athyglisvert, þegar maður lítur til baka yfir þessi 10 ár, að þrátt fyrir ólíkar skoðanir flokka á þessu máli á sínum tíma hefur þessi skattur reynst það lífseigur að enn á ný er af nýrri ríkisstjórn flutt frv. um að framlengja þennan sérstaka skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Líklegast munu það þá, fljótt talið, vera um sex ríkisstjórnir mismunandi flokka sem að þessari skattlagningu hafa staðið.
    Hins vegar hefur e.t.v. blundað með mönnum sá draumur að þennan skatt mætti hugsanlega leggja af því að formið sem valið hefur verið er að á hverju ári er flutt heildarfrv. um skattinn. Enn á ný stendur þess vegna fjmrh. í þeim sporum að leggja fram heildstætt frv. um þennan skatt og frv. sem ég mæli fyrir nú er að öllu leyti nema hvað eina tölu snertir samhljóða fyrri frumvörpum.
    Það er hins vegar eðlilegt að menn hugleiði það nokkuð við núverandi efnahagsaðstæður og erfiðleika verslunar hvort eðlilegt sé að framlengja þennan skatt með sama hætti og áður, en ég minni þó á að á undanförnum árum hefur verið um gífurlega fjárfestingu í verslunar- og skrifstofuhúsnæði að ræða, jafnvel offjárfestingu. Sumir áætla að þeir skipti mörgum tugum þúsunda, kannski tveimur hundruðum þúsunda, fermetrarnir sem bæst hafa við í slíku húsnæði hér á höfuðborgarsvæðinu á allra síðustu árum. Þess vegna tel ég að þessi skattur geti og þurfi e.t.v. í ríkara mæli en áður að vera hömlunarskattur til þess að draga að einhverju leyti úr viðbótarfjárfestingum á þessu sviði. Ef við tækjum upp sérstakan fjárfestingarskatt sem ýmsir hafa haft áhuga á að undirbúa, sá skattur væri virkt stýritæki til fjárfestingarstjórnar, væri e.t.v. hugsanlegt að endurskoða skattlagningu af því tagi sem hér er lagt til að verði framlengd. Meðan slíkur sérstakur fjárfestingarskattur sem stýritæki í efnahagsmálum hefur ekki verið smíðaður er óhjákvæmilegt að framlengja þá skatta, bæði þennan og einnig sérstakan lántökuskatt, sem geta orðið tæki til þess að hamla gegn fjárfestingu á þessu sviði og öðrum.
    Ákvæði laganna um skatthlutfall hafa yfirleitt haldist óbreytt, verið 1,1% en hæst 1,4%. Í endurskoðaðri tekjuáætlun fyrir árið 1988 er áætlað að innheimtar tekjur af skattinum verði um 235 millj. kr., en í fjárlagafrv. fyrir næsta ár, sem nú þegar er til

meðferðar hér á Alþingi, er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af þessum skatti aukist nokkuð. Þess vegna er lagt til í frv. að skatthlutfallið verði 2,2% í stað 1,1% sem það er á yfirstandandi ári. Þessi skattur er þess vegna ákveðinn liður í að framkvæma þá almennu skattastefnu, sem ég lýsti fyrr í dag og hef gert áður, að skattbyrðin eigi frekar að leggjast á þá sem miklar eignir eiga og verulegar tekjur hafa, en leitast við að hlífa hinum tekjulægstu og eignaminnstu í okkar þjóðfélagi. Það er m.a. á þessum grundvelli sem ákveðið var að hækka hlutfallið í því frv. sem hér er lagt fram og er þá miðað við að skatturinn kunni að gefa rúmar 400 millj. á næsta ári.
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé óþarfi að ég sé að fjalla nánar um þetta frv. á þessu stigi. Eins og ég gat um í upphafi hefur verið mælt fyrir því í 10 ár hér á Alþingi. Það eru kannski fá skattafrumvörp sem í sjálfu sér og í heild sinni hafa verið rædd jafnoft hér á undanförnum árum. Ég tel þess vegna að þótt ég reyni að láta reyna á hugmyndaflug mitt sé erfitt að finna eitthvað nýtt þar til viðbótar sem ekki hefur verið sagt áður, en vildi hins vegar, eins og ég hef gert, gera grein fyrir þeim ástæðum sem liggja að baki því að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að hækka hlutfallið úr 1,1% í 2,2%.
    Ég legg svo til, virðulegur forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til fjh.- og viðskn.