Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Mánudaginn 05. desember 1988

     Flm. (Stefán Guðmundsson):
    Já, forseti. Það er rétt að það komi fram að þegar þetta mál átti að vera á dagskrá í síðustu viku reiknuðum við með því og það var ætlan manna að þetta mál gæti verið á dagskrá að mig minnir kl. hálfþrjú. Það er rétt að fjöldi aðila hafði haft samband við mig og aðra þingmenn um það hvenær þetta mál yrði á dagskrá til þess að fá að fylgjast með umræðu hér. Það eru þessir heiðursmenn sem sitja hér uppi og hafa lagt niður vinnu til að fá að fylgjast með umræðum í hinu háa Alþingi um það hvern hug menn bera til þeirrar atvinnustarfsemi sem þeir hafa framfæri sitt af.
    Það er rétt, sem kom fram hjá fyrrv. iðnrh., að ég ætlaði fyrst og fremst í máli mínu, og gerði það, að tala til fyrrv. ráðherra og núv. ráðherra einnig. Þegar ég talaði við forseta í morgun um þetta mál skildi ég það svo: Eftir að ég hafði heyrt það í útvarpi að hér ætti að fara fram utandagskrárumræða gekk ég á fund forseta og ræddi við hann um hvernig með þetta mál yrði farið. Forseti sagði mér þá að þetta mál yrði fyrst á dagskrá og ég var í þeirri góðu trú þá að málið yrði á dagskrá í heild, utandagskrárumræðan færi þess vegna fram að þessari umræðu lokinni. Ég vona þá að hv. 1. þm. Reykv. hafi fengið það inn í höfuðið sem hann þarf að fá.