Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Þriðjudaginn 06. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég fer að skilja betur ýmislegt sem menn hafa sagt um Sjálfstfl. Vel getur verið að hv. þm. Þorsteinn Pálsson sé almennt að reyna að skjóta sér fram hjá þeim vanda að gera tillögur um niðurskurð eða tekjuöflun, ég skal ekkert um það dæma hér og nú. Það á eftir að koma í ljós. Það er hins vegar misskilningur hjá honum að mikill ágreiningur sé innan ríkisstjórnarinnar um þessi mál, það er það alls ekki. Það var t.d. gerð ítarleg grein fyrir því á viðræðufundinum með fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna í gær hvernig staðan væri varðandi tekjuskattinn og eignarskattinn. Ef menn vilja lýsa því sem bullandi ágreiningi, þá hafa menn ekki mikla reynslu af því að vinna efnislega að flóknum málum í samskiptum flokka.
    Það er hins vegar ekkert nýtt að einstakir þm. Framsfl. hafi verið á móti söluskatti á happdrætti. Það hefur löngum legið fyrir og er sagt frá því annan hvern dag á Stöð tvö. Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson kemur því enn áleiðis í Dagblaðinu í dag og hann er mjög iðinn við það þannig að það hefur ekki farið fram hjá neinum.
    Varðandi annað hefur þetta hins vegar alveg legið ljóst fyrir og því er enginn grundvöllur til þess að segja að ekki sé hægt að ræða þessi mál vegna ágreinings í ríkisstjórninni, það er misskilningur. Við munum þess vegna þróa þessi mál áfram. Við óskuðum eftir því í gær að heyra hugmyndir þingmanna Sjálfstfl. um tekjuöflunarþörfina og niðurskurðarmöguleikana. Við vorum ekkert að fara hér upp í ræðustól og skamma þá fyrir að vera ekki komnir með slíkar tillögur eða slíkar hugmyndir. Ég taldi satt að segja ekki að það ætti að vera stíll þessara viðræðna heldur væru þær með öðrum hætti og ég mun halda á þeim áfram með þeim hætti þrátt fyrir orð hv. þm. Þorsteins Pálssonar hér. Það verður svo að ráðast hvaða afleiðingar hann telur að þetta allt saman hafi í för með sér eða hvaða ályktanir hann mun draga af því. Ég ætla ekki að lengja þessar umræður hér. Það gefst ærið tilefni til þess að ræða það síðar meir.