Framtíðarhlutverk héraðsskólanna
Fimmtudaginn 08. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. menntmrh. á þskj. 148 um framtíðarhlutverk héraðsskólanna. Fsp. er í tveim liðum og er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
,,1. Er ætlun ráðherra að hafa forgöngu um að móta stefnu um framtíðarhlutverk héraðsskólanna?
    2. Ef svo er, hvenær er þá að vænta tillagna um þessi efni, sbr. þáltill. á síðasta löggjafarþingi sem þá var 199. mál, sem samþykkt var að vísa til ríkisstjórnarinnar 7. maí sl.?``
    Það var sem sagt á síðasta þingi sem flutt var till. til þál. um stefnumótun varðandi framtíðarhlutverk héraðsskólanna. Tillagan var afgreidd undir þinglok sl. vor og eftir meðferð í félmn. Sþ. á þann veg að henni var vísað til ríkisstjórnarinnar. Í örstuttu nál. hv. félmn. segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og sent hana til umsagnar. Nefndin telur mikilvægt að ákveða framtíðarhlutverk héraðsskólanna. Vitað er að unnið er að athugunum á þessum málum á vegum menntmrn. og viðkomandi héraða, en nefndin leggur áherslu á að sem allra fyrst komi fram tillögur um framtíðarstefnu í þessum málum. Í trausti þess að svo verði leggur nefndin til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Það var gert. Þeir skólar sem hér um ræðir eru átta talsins og eru í öllum kjördæmum landsins utan Reykjavíkur og Reykjaness. Þeir hafa hver á sínu sviði gegnt merku hlutverki, en hafa undanfarin ár orðið fyrir barði á þeirri búsetuþróun sem hér á landi hefur orðið. Auk þess hafa flestir þeirra verið vanræktir hvað varðar viðhald og búnað og almenna þróun í þeimn efnum. Engu að síður er ljóst að hér er um mikil verðmæti að ræða sem þjóðfélagið hefur ekki efni á að kasta á glæ og því er markviss stefnumörkun yfirstjórnar menntamála og raunar einnig fjármála mjög nauðsynleg til þess að málefni þessara stofnana horfi til meiri heilla en verið hefur um alllangt skeið. Í þeim tilgangi að leita eftir vilja og áformum hæstv. menntmrh. er fyrirspurn þessi flutt.