Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég vil taka með hv. 1. þm. Reykv. undir þá ósk sem hann bar fram um að það verði séð fyrir a.m.k. einum fundardegi til þess að fjalla um þáltill. sem fyrir liggja, en eins og fram kom í máli hans eru þær alls 35. Ég þykist gera mér grein fyrir því að að vart verði hægt að ræða þær allar áður en jólaleyfi hefst ef ég tel í huganum þær klukkustundir sem eru héðan af og til jóla. En ég mælist eindregið til þess að það verði séð fyrir a.m.k. einum fundardegi til þess að grynnka a.m.k. á þeim fjölda þáltill. sem nú liggja fyrir.
    Eins vil ég taka undir það sem hv. þm. sagði um fyrirspurnir. Það kom reyndar fram hér í þingskapaumræðu í síðustu viku að ég er orðin nokkuð óróleg vegna tveggja fsp. sem ég bar fram snemma í haust, en þær voru reyndar líka bornar fram í fyrra til hæstv. fjmrh. og mun vinnsla þeirra hafa hafist þegar sl. vetur. Vonast ég eindregið til þess að svör við þeim liggi fyrir sem allra fyrst.