Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Mér fannst svar hæstv. forsrh. vera mjög stutt og ónákvæmt. Ég beindi mjög skýrri fyrirspurn einmitt um 2. mgr. til hæstv. menntmrh. í dag og hver væri afstaða Alþb. Þessi fyrirspurn var mjög skýrt fram borin þá og líka fyrir helgi og hvorugur ráðherranna sá neina ástæðu til að svara því þá í réttu samhengi.
    Ég vil líka segja það, herra forseti, að það er óeðlilegt að hæstv. forsrh. skuli haga sér með þessum hætti þegar honum er kunnugt um að samkomulag var um það milli stjórnarandstöðu og að beiðni Framsfl. að fresta atkvæðagreiðslu í kvöld og hafa umræður um frv. til l. um aðgerðir í efnahagsmálum stuttar á morgun. Auðvitað felst í því að við getum ekki tekið upp ítarlegar viðræður við hæstv. forsrh. þá um það mál á morgun vegna þess að við erum bundnir samkomulagi um málið.
    Ég vil því vænta þess, herra forseti, að það verði séð um það og það verði viðbótarsamkomulag að hæstv. forsrh. skýri frá því í kvöld hvaða viðræður hann hafi átt við verkalýðshreyfinguna um þau bráðabirgðalög sem voru til umræðu á undan þessu máli þar sem eru kaflarnir um kjara- og verðlagsmálin þannig að við getum fjallað um málið efnislega í kvöld þó svo 3. umr. verði á morgun. Það var algert skilyrði af hálfu Sjálfstfl. að umræðurnar á morgun yrðu stuttar. Það var einungis á þeirri forsendu sem við féllumst á þá beiðni Framsfl. að draga atkvæðagreiðsluna til morguns. Við vissum ekki annað en á bak við það lægi sú ástæða ein að einn af þingmönnum Framsfl. þurfti að fara norður í land og auðvitað vissum við það eins og venja er til hér í þinginu. En úr því að hæstv. forsrh. byrjar með þessum hætti að tala um þær viðræður sem hann hefur átt við aðila vinnumarkaðarins og nú hafa að hans sögn orðið til þess að hann kýs að fella niður 2. mgr. 4. gr. er óhjákvæmilegt að stjórnarandstaðan fái glögga vitneskju um stöðu þessara mála í heild.
    Það má vel vera að það séu fleiri atriði sem þá er nauðsynlegt að ræða. Allt er þetta óvænt. En það er svo sem ekki í fyrsta skipti þegar þessi hæstv. ráðherra á í hlut sem talað er héðan og þaðan. Það er það ekki, því miður. En það er kominn tími til þess að hæstv. ráðherra tali hreint út úr pokanum. Það þýðir ekki alltaf að skorast undan. Það þýðir ekki alltaf að segja eitt í dag og annað á morgun. Við erum að tala um alvörumál. Það var svo sem eftir öðru, eftir að maður hefur hlýtt á ræðu frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., eftir að maður hlýddi á ræðu hæstv. menntmrh. og eftir að maður hlýddi á hæstv. sjútvrh. tala í umræðunum í dag án þess að víkja einu einasta orði að útlitinu í sjávarútveginum, að hæstv. forsrh. skyldi standa upp til að tala um það mál sem búið er að taka á dagskrá. Það má segja að það sé virðuleikablær yfir þessu.