Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Mér þykir satt að segja afar leitt að hv. sjálfstæðismenn skuli taka þessari breytingu svona fálega. Það kann að vera af því að hér er um að ræða breytingu á lögum sem við settum sem bráðabirgðalög saman 20. maí. En menn mega þó ekki vera svo steinrunnir að ekki megi breyta því sem við höfum þannig gert.
    Ég vil taka það skýrt fram að ég sagði ekki áðan að ég hefði rætt við verkalýðshreyfinguna. Ég sagði að ég hefði rætt við einstaka aðila í verkalýðshreyfingunni, einstaklinga þar. Sömuleiðis treysti ég mér ekki til að gera grein fyrir þessari breytingu hér fyrr en mér væri sjálfum ljóst að hún nyti stuðnings allra stjórnarsinna. Ég hef verið að kanna það og ég gerði grein fyrir henni strax og það lá fyrir. Mér þykir satt að segja undarlegt ef stjórnarandstæðingar sem hér eru með breytingartillögur fagna því ekki frekar en að leggjast gegn þegar fallist er á slíka brtt. (Gripið fram í.) Ég vona það og ég taldi mig vera að gegna skyldu minni með því að greina frá þessu eins fljótt og það lægi fyrir að samstaða væri í stjórnarliðinu um þessa breytingu. Það lá fyrir þegar hv. þm. Júlíus Sólnes hóf mál sitt áðan.
    Ég mun vitanlega ræða þetta frv. og er tilbúinn að ræða það í alla nótt, en ég ætla ekki að taka tíma til þess núna. Það hafa komið fram ýmsar spurningar og ýmislegt í efnahagsmálum sem svo sannarlega er rétt að ræða. Ég er reiðubúinn að gera það. En að ég ætli að hlýða hér einhverjum skipunum og greina frá hverju símtali sem ég kann að eiga við einstaka menn í verkalýðshreyfingunni kemur ekki til greina.