Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 13. desember 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Það gerast ýmis óvænt tíðindi og þó ekki óvænt. Auðvitað hefur hæstv. forsrh. verið að reyna það núna eftir að hann kom heim að bræða saman og það kemur honum að óvörum að stjórnarandstaðan skuli vera algerlega sameinuð um nýja stefnu, heilbrigða, frjálslynda stefnu í efnahags- og fjármálum sem nú hefur verið gerð grein fyrir. Hann er þess vegna að reyna að lappa upp á verk sín og tekur það ráð að skýra okkur nú undir kvöldmat frá því sem hann hefur verið að bauka í dag. Ég er ekkert út af fyrir sig að álasa honum fyrir að reyna að halda saman sinni stjórn. Sá hv. þm. sem síðast talaði virtist tala í dálítið öðrum tóni eftir að hafa fengið þessi nýju tíðindi og þakkaði fyrir þetta. Ég get gert það líka út af fyrir sig. En auðvitað er þarna verið að versla. Við skulum kalla þetta réttu orði. Það er verið að reyna að halda þessu ríkisstjórnarhrói saman. Og við sjáum svo hvernig það gengur þegar að því kemur.
    En við t.d. í hv. fjh.- og viðskn. höfum algerlega leyft stjórnarsinnum og formanni nefndarinnar að halda á þessum málum, hvernig þetta yrði millifært á milli laga, sem er klúður og það vitum við allir að hefði kannski alla vega verið klúður að geta þá ekki steypt þessu öllu saman í einn bálk sem stjórnarsinnar vildu að fram kæmist. Við tökum þetta mál auðvitað til athugunar aftur og það er mjög æskilegt, eins og hv. þm. Halldór Blöndal sagði, að fella þá niður öll ákvæði um allar frestanir samningafrelsis í þessum lögum.
    Að vera svo með skæting í okkur, að við séum steinrunnir eða hvaða orðalag sem hann nú notaði. Auðvitað eru þessi lög frá í maí einskis virði. Ef þau voru einhvers virði þá, sem ég efast um að þau hafi verið nokkurn tíma, þá er þetta allt liðin tíð fyrir lifandi löngu og átti auðvitað þess vegna að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar eða frá með rökstuddri dagskrá. Það var mjög eðlilegt að gera það. Aðstæður á Íslandi eru allt aðrar í dag eftir öll þau ósköp sem verið er að dengja yfir þjóðina af nýjum sköttum og allt annað sem verið er að gera. Hvers vegna ættum við sjálfstæðismenn að halda endilega öllu því í gildi sem þá var?
    En ég ætla ekki að ræða þetta frekar að sinni.