Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég vil taka það skýrt fram í upphafi míns máls að ég mun ekki eltast við ýmislegt af því sem hv. þm. Halldór Blöndal hefur látið sér um munn fara um mig persónulega og ekki hefur verið talað um af þeirri hófsemi sem hann ráðlagði áðan. Ég mun hins vegar fara að þeim ráðum og tala af hófsemi. Ég álít satt að segja að slík ummæli sem féllu hér í gær lýsi best þeim sem þau um munn hefur.
    Ég vil snúa að ýmsum atriðum sem hafa verið málefnalega til umræðu og þau eru mörg afar mikilvæg. Mér skilst að það verði hlé á fundi klukkan fjögur og ég kemst að sjálfsögðu ekki yfir þau nema að litlu leyti fyrir þann tíma.
    Í fyrsta lagi vil ég fjalla um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fallast á, að því við skildum eindregin tilmæli fjölmargra aðila, launþegastéttar og stjórnarandstæðinga, að fella niður 2. málsgr. 4. gr. bráðabirgðalaga fyrri ríkisstjórnar. Þessi málsgrein hefur verið nefnd hinum verstu nöfnum, m.a. mannréttindabrot. Ég er sammála þeim sem hafa farið hörðum orðum um ákvarðanir ríkisstjórna, því þær eru orðnar margar, að svipta menn þessum sjálfsögðu mannréttindum, þ.e. að semja um kaup sitt og kjör, verkfallsrétt o.s.frv. Ég hef sagt að slíkt á ekki að gera nema við allra brýnustu nauðsyn. Eftir að ég hafði skoðað þær fjölmörgu samþykktir sem hafa verið gerðar um bráðabirgðalögin, þeim var að sjálfsögðu mótmælt af launþegum eins og ætíð, vildi ég skoða vandlega hvort lengur mætti telja þá brýnu nauðsyn til staðar sem krefst þessa ákvæðis í lögum.
    Ég ræddi við ýmsa aðila úr launþegahópum sem þar eru trúnaðarmenn, hvort menn vilja telja það fulltrúa þeirra eða ekki er allt annað mál. Það er rétt að ég hef ekki rætt þetta við Ásmund Stefánsson. Hins vegar hafa samþykktir ASÍ eftir þeirra þing legið glöggar fyrir og ég hef fjallað um þær við aðra menn og fengið þær skýringar sem ég taldi mig þurfa að hafa. Það er einnig rétt að ég ræddi við Ögmund Jónasson í gær að hans frumkvæði og satt að segja sé ég ekki að þær viðræður verði neitt verri fyrir það. Ég vil einnig upplýsa að í morgun átti ég fund ásamt mínum aðstoðarmanni með þremur stjórnarmönnum frá BSRB og nú rétt þegar þessi fundur var að hefjast átti ég ásamt tveimur öðrum ráðherrum fund með Ásmundi Stefánssyni og þremur öðrum frá ASÍ. Að baki þessarar ákvörðunar liggja að sjálfsögðu þau hörðu andmæli sem öll hafa beinst mjög að því mannréttindabroti sem felst í þessu ákvæði laganna og ég hef einnig sagt hér að ég vonaðist til þess að með því að afnema þetta ákvæði væri bæði verið að ganga til móts við hv. stjórnarandstæðinga, t.d. þá tvo flokka stjórnarandstöðunnar sem flutt hafa breytingartillögur um þetta ákvæði, og að sjálfsögðu til móts við launþega sem hafa svo harðlega andmælt þessu ákvæði sem mannréttindabroti. Ég hef einnig sagt að ég hef vonast til þess að með því að afnema þetta ákvæði yrðu fulltrúar launþega fremur fúsir til að setjast niður með stjórnvöldum og fjalla um hið afar erfiða ástand sem nú er í atvinnumálum þessarar

þjóðar og ekki síst um það atvinnuleysi sem kann að blasa við ef ekki verður gripið í taumana.
    Ég vísa því algjörlega á bug að um einhverjar brellur hafi verið að ræða hér í gær eins og látið var liggja að og sagt beinum orðum. Ég taldi mig þurfa að skoða áhrifin af því að fella þetta niður á ýmislegt annað í þessum lögum, m.a. vildi ég skoða hina lögfræðilegu hlið þessara mála. Ég hafði ekki endanlegt samkomulag allra fyrir því að standa að þessu fyrr en upp úr kl. sex í gær, þ.e. stjórnarliða. Þetta vil ég að komi hér skýrt fram.
    Menn segja nú að þetta sé lítils virði. Það getur hver litið á það sínum augum. Vonandi er það . . . ( Gripið fram í: Einskis virði.) Jafnvel einskis virði, segja sumir. Það hefur Ögmundur Jónasson að vísu alls ekki sagt og alþjóð hlustaði á það sem hann sagði í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi svo ég þarf ekki að vitna til þess fundar sem ég átti rétt áðan með þremur mönnum úr stjórn BSRB. Menn segja: Ef þetta á að ná tilgangi sínum þurfi að fella niður ýmis önnur ákvæði úr bráðabirgðalögunum og þeim staðfestingarlögum sem liggja fyrir, m.a. fyrri málsgr. 4. gr. laganna. Þessi málsgrein framlengir gildandi og síðast gildandi kjarasamninga til 15. febr. og vitanlega felst í því gagnvart sumum félögum, eins og t.d. BSRB, að samningar þeirra sem hefðu að öðrum kosti runnið út um áramótin framlengjast til 15. febr. Út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt þó að þau félög, sem þannig er ástatt um, mótmæli þessu inngripi löggjafans. En það er ekki hægt að lesa þessa grein eina, menn verða einnig að lesa 12. gr. bráðabirgðalaga þessarar ríkisstjórnar sem gert er ráð fyrir að verði 1. gr. fyrri bráðabirgðalaga með þeim breytingartillögum sem liggja fyrir. Í þeirri grein eru allmörg ákvæði sem breyta ýmsum ákvæðum kjarasamninga, m.a. er ákveðið að allir skuli fá 1,25% launahækkun 15. febr. nk., jafnvel þeir sem ekki höfðu um hana samið, og þeir sem hefðu átt að fá slíka launahækkun síðar fá hana flutta fram til 15. febr. Í þessari grein er einnig sagt að þeir sem hafi samið um minna, ef ég man orðalagið rétt, skuli fá þessa launahækkun. Í þessari grein segir síðasta málsgreinin að óheimilt sé að semja um frekari launahækkanir eða eins og það er orðrétt, með leyfi forseta: ,,Frekari hækkun launa, kjaratengdra liða og hvers konar endurgjalds
fyrir unnin störf en ákveðin er í öðrum málsgreinum hér er óheimil.`` --- Svo ég fari aðeins lauslega yfir þetta. Sem sagt þarna er líka takmarkað samningsfrelsi.
    Það má hins vegar vekja athygli á því að í þessari grein er ekkert um það sagt að ekki megi semja t.d. um félagslegar umbætur eða þess háttar liði. Hér er skýrt tekið fram að ekki megi semja um launahækkanir eða það sem túlkað verður sem slíkt.
    Þá vaknar vitanlega sú spurning hvað gerist ef allt þetta er afnumið. Er þá ekki ljóst að kjarasamningar flestra aðildarfélaga ASÍ yrðu gildandi til 10. apríl? Þeir eru það samkvæmt því samkomulagi sem þessi félög gerðu. Þá stæðu hins vegar BSRB og ýmsir

aðrir með lausa kjarasamninga frá áramótum og þá eru þessi félög vitanlega mjög misjafnlega stödd um áramótin. Ætlast menn þá til að þessi 1,25% launahækkun komi til framkvæmda ef einhverjir þættir eða einhverjar málsgreinar þessara tveggja lagagreina, 12. og 4. greinar í viðkomandi frv. og lögum, eru afnumin? Mér sýnist málið nefnilega alls ekki eins einfalt í raun og sumir hér vilja vera láta. Menn eru með mismunandi langa kjarasamninga. Sumir eru með kjarasamninga sem ná allt fram í september. Í þessum lögum eru ákvæði um að samkomulag sem gert hefur verið um hækkanir sem koma síðar á árinu skuli ekki afnumið. Þegar þessar ákvarðanir voru teknar voru þessi atriði mjög mikið rædd og m.a. rætt við ýmsa fulltrúa úr launþegastéttum. Menn voru þá að velta því fyrir sér hvort menn ættu að ógilda alla kjarasamninga frá 15. febr. Það var mikil andstaða við það. Margir sögðu: Það sem samið var um lengra verður að fá að gilda. Þess vegna held ég að megi segja að hér hafi verið farin millileið, að framlengja kjarasamninga sem runnið hefðu út um áramótin til 15. febr., leyfa hinum að vera í gildi sem eru lengri, en að veita öllum þessa launauppbót, 1,25%, 15. febr. hvernig sem kjarasamningar stæðu.
    Ég er þess vegna sjálfur í afar miklum vafa um það að launþegum væri greiði gerður með því að afnema 1. mgr. 4. gr. eða t.d. að mestu leyti og þá líklega öllu leyti 12. gr. sem á að verða skv. brtt. 1. gr. Ég er ekki búinn að sjá það að menn nái samningum fyrir 15. febr., t.d. um 1,25% eins og ástandið er á vinnumarkaðnum. Ég verð að segja því miður er ástandið þannig. Ég er því ekki tilbúinn að standa að slíkri breytingu. Tel hana alls ekki vera launþegum til góða.
    Menn hafa mikið rætt um það hvers vegna þetta ákvæði hafi verið sett inn sem bannar verkföll o.s.frv., þ.e. 2. mgr. 4. gr. Það er hárrétt eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni að lögfræðingar hafa lagt til að þessi grein verði inni. Mér hefur verið kunnugt um það. Þeir hafa lagt til að slíkt ákvæði sé í bráðabirgðalögum. Ég hef ekki nægilega góða lögfræðilega skýringu á því en ég hef þó hlustað á mismunandi skoðanir lögfræðinga á mikilvægi þess að hafa þessa grein inni. Sumir lögfræðingar hafa sagt að með því að ríkisvaldið er að hrófla við gerðum kjarasamningum séu þeir í raun og veru úr gildi. Mér finnst sjálfum persónulega --- ég legg áherslu á það, persónulega --- frá siðferðislegu sjónarmiði mikið til í þessum rökum. Menn séu þá ekki lengur bundnir af hinum almennu ákvæðum vinnulöggjafarinnar. Ég legg hins vegar áherslu á það að mér er ljóst að mjög eru skiptar skoðanir á meðal lögfræðinga um þetta atriði.
    Þeir sem líta svo á --- og ríkisstjórnin lítur svo á, ég vil taka það fram --- að kjarasamningarnir séu í gildi, og gengið er út frá því að þeir séu í gildi eins og um þá var samið, vitanlega eru þeir þá bundnir af hinum almennu ákvæðum vinnulöggjafarinnar, því ákvæði hennar að ekki skuli hefja verkföll á meðan kjarasamningar standa. Þetta hefur ætíð verið ljóst. Með því hins vegar að nema þetta ákvæði úr gildi

stendur þó ekki þetta í vegi, sem fjölmörg launþegafélög hafa haldið fram, fyrir því að menn geti sest niður og farið að tala saman. Fjölmörg launþegafélög hafa sagt: Við getum ekki sest niður með þetta ákvæði í lögum. Og mér sagði formaður BSRB að hann teldi að með því að fjarlægja þetta ákvæði úr lögum treystu þeir sér til að biðja um viðræður við ríkisvaldið strax um kaup og kjör. Þeim væri hins vegar fullkomlega ljóst að þeir gætu ekki knúið fram hækkun launa fyrr en eftir 15. febr. En hann tjáði mér að þeir hefðu áhuga á að ræða þar um ýmsa aðra hluti, félagslega hluti t.d. ( Forseti: Það er komið fram að þingflokksfundum. Má ég biðja hæstv. forsrh. að fresta ræðu sinni?) Já, herra forseti, að sjálfsögðu. --- [Fundarhlé.]
    Herra forseti. Að vísu eru ýmsir þeir, og reyndar flestir, fjarverandi sem ég taldi mig þurfa að svara. Ég veit ekki hvort ég á að óska eftir því að þeir séu sóttir. Það er kannski rétt, eins og venjan er, a.m.k. ef um ráðherra er að ræða. (Gripið fram í.) Já, já, en ég get kannski komið að þér þá. Herra forseti, ef ég má snúa dálítið við minni ræðu skal ég koma að nokkrum atriðum í, ég vil segja, málefnalegri ræðu hv. þm. Eyjólfs Konráðs. Ég legg áherslu á það til að aðgreina hana frá ýmsum öðrum ræðum sem hér voru fluttar, m.a. lagði hv. þm. fyrir mig nokkrar spurningar sem sjálfsagt er að svara og reyndar vildi ég gjarnan ræða töluvert betur um efnahagsmálin.
    Hv. þm spurði: Telur ráðherra að afgreiðsla þessa máls, skattafrumvarpa og fjárlaga muni í einhverju bæta stöðu atvinnuveganna? Ég tel í fyrsta lagi afar mikilvægt að fyrir liggi afgreiðsla fjárlaga og afgreiðsla þessa máls sem fyrst, þannig að unnt sé að byggja á þeirri niðurstöðu þá efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin verður að móta. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar byggist m.a. á hallalausum ríkisbúskap á næsta ári og efnahagsstefnan byggist líka á þeim aðgerðum sem þau staðfestingarlög sem hér eru til umræðu gera ráð fyrir. Þetta veit ég að hv. þm. getur verið mér sammála um þótt við kunnum að vera ósammála um mikilvægi þess að hafa t.d. hallalausan ríkisbúskap. Ég er þeirrar skoðunar að hlusta beri t.d. á fulltrúa atvinnuveganna. Ég vek athygli á þeirri merku nefnd forstjóra sem fyrrv. forsrh. skipaði og bað að gera tillögur um aðgerðir til aðstoðar útflutningsgreinunum. Þar var lögð höfuðáhersla á hallalausan ríkisbúskap. Ég get tekið undir það með hv. þm. að hallalaus ríkisbúskapur er ekki í öllum tilfellum a.m.k. óhjákvæmilegur. T.d. geta komið þeir samdráttartímar að eðlilegt sé að halli sé settur á ríkisbúskap eða fjárlög sveitarfélaga. Ég vek hins vegar athygli á því að skuldastaða þjóðarinnar er orðin ansi mikil eða nálægt 45% af þjóðarframleiðslu. Í þeirri skuldastöðu og í því útliti sem er fram undan þar sem gert er ráð fyrir minnkandi þorskafla tel ég afar vafasamt að auka þessar erlendu skuldir og halli á ríkissjóði getur mjög auðveldlega stuðlað að því nema þá mjög harðar aðgerðir séu annars staðar ákveðnar til að draga úr erlendri lántöku því vitanlega þarf ríkissjóður að

fjármagna hallann, annaðhvort á innlendum markaði eða erlendum. Ef hann gerir það á innlendum markaði takmarkar hann aðgang annarra að lánsfé þar nema farið sé að ráðum hv. þm. og bindiskyldan afnumin. Um það hef ég satt að segja oft hugsað og hef oft lýst því yfir að ég tel að hv. þm. hafi ýmislegt til síns máls þar, en við verðum að viðurkenna það báðir að við höfum ekki hlotið hljómgrunn fyrir þær athugasemdir hjá t.d. Seðlabanka Íslands. Svo að ég svara því að ég tel að í þessum frv. séu mikilvæg atriði í þeirri viðleitni ríkisstjórnarinnar að bæta stöðu atvinnuveganna.
    Ég get að sjálfsögðu bætt því við, eins og kom fram hjá hv. þm., að mikilvægt er að bæta skuldastöðu og eiginfjárstöðu atvinnuveganna. Og ég skil nál. stjórnarandstöðunnar þannig að hún telji að það eigi að hafa vissan forgang þó að menn séu svo e.t.v. ekki sammála um framhaldið. Nú hafa verið afgreiddir nokkrir tugir umsókna hjá Atvinnutryggingarsjóði og sú afgreiðsla hefur gengið sæmilega vel. Minni fyrirstaða hefur verið við skuldabréfin hjá ýmsum lánardrottnum en áður var talið þótt vart hafi orðið við það á einstöku stöðum að mér er tjáð. Ég held að við getum verið sammála um það að það er mikilvægt að breyta þessari miklu skammtímaskuldasúpu í lán sem eru viðráðanlegri. Sömuleiðis er gert ráð fyrir því að Atvinnutryggingarsjóður geti veitt lán, í kringum milljarð, til hagræðingar og Atvinnutryggingarsjóður gerir ráð fyrir því í samvinnu við Byggðastofnun og e.t.v., að því er mér er tjáð, sérstaklega ráðna sérfræðinga að veita þeim fyrirtækjum, sem ekki komast í gegnum ákvæði 2. gr. reglugerðar um Atvinnutryggingarsjóð, aðstoð til að hagræða og þá ekki síst til að auka eða bæta eiginfjárstöðu. M.a. eru hér brtt. við frv. sem undirstrika þá heimild sem var í reglugerðinni að Atvinnutryggingarsjóður geti keypt eignir fyrirtækja eða á annan máta stuðlað að því að fyrirtæki geti losað sig við eignir og þannig bætt fjárhagsstöðu sína.
    Þá spyr hv. þm.: Hvernig hyggst forsrh. rétta af rangt gengi? Telur hann stórfelldar nýjar skattaálögur á fyrirtæki og almenning --- ég sé nú ekki alveg hvað hv. þm. hefur skrifað hér, hann skrifar ekki betur en ég. (Gripið fram í.) Já. --- geri einhvers konar niðurfærslu kostnaðarliða auðveldari en ella? (Gripið fram í.) Já, svo kemur: Gerir forsrh. sér grein fyrir þeim grundvallarstefnumun sem er á skattlagningarleið ríkisstjórnar hans og þeirri stefnu sem stjórnarandstaðan í heild boðar, m.a. með eftirfarandi orðum í nefndaráliti: ,,Verði gengið fellt er nauðsynlegt að mæta því með lækkun söluskatts á helstu nauðsynjar heimilanna.`` Fyrri lið, telur hann að stórfelldar nýjar skattaálögur á fyrirtæki og almenning geri einhvers konar niðurfærslu kostnaðarliða auðveldari, svara ég svo: Ég viðurkenni fúslega að hækkun skatta stríðir að vissu leyti gegn lækkun kostnaðarliða. En þarna eru menn að vega og meta þessi tvö markmið, hallalausan ríkisbúskap og lægri skatta. Ég hef lýst því áður að ég tel afar mikilvægt,

og það er grundvallaratriði í stefnu ríkisstjórnarinnar, að ríkissjóður verði hallalaus. Og ég lýsti því hér áðan að í öllum þeim álitum sem atvinnurekendur hafa sent frá sér er lögð mjög mikil áhersla á það sem grundvallaratriði í þeirra viðleitni að ná skynsamlegum samningum á vinnumarkaði og í þeirra viðleitni að reka sín fyrirtæki af skynsemi, að ríkissjóður sé rekinn hallalaus.
    Þessi ríkisstjórn hefur gert mjög alvarlega og ítarlega athugun á ýmsum kostnaðarliðum fjárlaga og fjárlagafrv. og ríkisrekstrar og hefur ekki komist lengra með lækkun kostnaðarliða en raun ber vitni. Ég skal fúslega viðurkenna að ég tel að við þær aðstæður sem nú ríkja hefði vel komið til greina að ganga töluvert lengra með niðurskurð. Hins vegar verð ég þá um leið að viðurkenna að
nokkuð langt er gengið þegar t.d. fjölmörgum deildum í sjúkrahúsum er lokað á sama tíma og biðlistar eru langir hjá fólki sem þarf afar nauðsynlegar aðgerðir. Ég held að til að ná í þessum mjög mikilvæga þætti ríkisgeirans verulegum sparnaði þurfi uppstokkun sem í raun tekur miklu lengri tíma en við höfum haft til þess.
    Ég vil t.d. lýsa því að ég er sannfærður um að ef einhver umtalsverð hagræðing eða sparnaður á að verða í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu verði nauðsynlegt að sameina sjúkrahús og sérhæfa þau í ákveðnum aðgerðum. Þetta hefur verið rætt fyrr. Ríkisstjórnin 1983--1987 fjallaði um hugsanleg kaup á Borgarspítalanum og vissa samræmingu í því sambandi. Menn vita hvaða deilur urðu af þeim málum. Svo að miðað við það að okkur hefur ekki tekist að ákveða meiri niðurskurð á útgjöldum ríkissjóðs eigum við ekki annan kost til að ná hallalausum ríkisbúskap en að hækka skatta, og ég viðurkenni að það stríðir vissulega, að vissu marki, gegn lækkun kostnaðar. Þarna verða menn að vega og meta.
    Vegna seinni hluta spurningar hv. þm. tek ég það fram að það er langt frá því að mér sé ljós efnahagsstefna stjórnarandstöðunnar. Ég tel að menn hljóti að ætla sér að útfæra hana miklu, miklu ítarlegar en með því einfaldlega að segja: að leysa eigi efnahagsvandann, jú, með því að bæta eiginfjárstöðuna og síðan að fella gengi og lækka söluskatt. Ég get ekki litið á þetta nema sem einn lítinn anga af þeirri efnahagsstefnu sem ég er sannfærður um að reyndir þingmenn eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hljóta að hafa í huga.
    Hér hefur verið rætt um nokkra þætti í hinum almennu efnahagsmálum og erfiðleikum atvinnuveganna. Ég ætla að drepa á nokkra og koma síðar að genginu. Mikill launakostnaður í þjóðartekjum eða svokölluðum þáttatekjum, sem eru þjóðartekjur að frádregnum beinum sköttum, hefur verið hér til umræðu. Nýjar athuganir Þjóðhagsstofnunar leiða í ljós að þáttur launa í þessum hluta þjóðarteknanna hefur hækkað úr u.þ.b. 65--66% árið 1985--1986 upp í um 73% nú og er orðinn miklu hærri en er t.d. í öðrum nágrannalöndum okkar. Þetta er miklu meiri

launahlutdeild en þjóðarbúið getur staðið undir.
    Ég er hins vegar alls ekki staðinn hér upp til að segja að þessa miklu launahlutdeild eigi að rekja til kjarasamninga sem hafa verið gerðir. Ég vek athygli á því að bæði launþegar og vinnuveitendur hafa talið að yfirborganir launa næmu um 20% í þjóðfélaginu. Ef það er sú meðaltala sem yfirborganir eru skýrir þessi yfirborgun ein þá miklu hækkun sem hefur orðið á þætti launa í þjóðarbúskapnum. Jafnframt viðurkenni ég það, sem kom fram hér hjá einum ræðumanni, að vitanlega eru þessar tölur eins konar safntala og langt frá því að litið sé á hina ýmsu þætti.
    Ég hef spurt að því og ekki fengið svar hvort inni í þessum tölum kunni að vera einhverjar tekjur af fjármagni. Mér hefur að vísu verið sagt munnlega að svo muni ekki vera, en ég hef beðið Þjóðhagsstofnun að athuga betur fyrir mig hvort inni í þeim séu slíkar tölur. Þarna kemur náttúrlega hvergi fram dreifingin sem ég held að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hafi talað um. Dreifing launa í þjóðfélaginu kemur vitanlega á engan máta þarna fram og fyrstur manna skal ég taka undir það að lægstu launin í þjóðfélaginu eru of lág og við verðum að finna leiðir til að hækka þau þó að við séum ekki í þeirri stöðu í þeirri kreppu sem núna er. Engu að síður gefur þessi heildarsafntala til kynna að við höfum tekið of mikið út af þjóðarkökunni í launum. Vonandi dregur það úr yfirborgunum, og margt bendir til þess að það muni gerast á næstunni, að þessi tala lækki og lækki meira en Þjóðhagsstofnun hefur áætlað. Ég tel áætlun Þjóðhagsstofnunar um lækkun á þætti launa of lága. Þjóðhagsstofnun áætlar að þáttur launa lækki í rúmlega 72%. Ef dregur úr yfirborgunum eins og haldið hefur verið fram að þær séu á þessi tala að lækka mikið meira en Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir.
    Annað atriði sem vekur mikla athygli mína í þeirri ítarlegu umræðu sem hér hefur orðið, og það er verst að hv. 2. þm. Norðurl. e. er ekki hér, er að ég hef afar lítið heyrt minnst á gífurlegan fjármagnskostnað sem vandamál í íslensku atvinnulífi. Vitanlega hefur þó hv. þm. Júlíus Sólnes minnst á það og minnst á lánskjaravísitöluna og fleira sem ég ætla að koma að síðar. Ég hef hins vegar ekki heyrt, eða það hefur þá a.m.k. farið fram hjá mér, í ræðum hv. sjálfstæðismanna. Ég heyrði að vísu ekki ræðu hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, því miður.
    Ég vil vekja athygli á því að í þessari ítarlegu úttekt sem nú hefur verið gerð, og læt ég nægja að vísa í úttekt fjögurra þaulreyndra endurskoðenda á 29 fyrirtækjum. Hvað sýnir sú úttekt? Hún sýnir ýmislegt afar fróðlegt. Hún sýnir t.d. í frystingunni að til þess að mæta afskriftum og fjármagnskostnaði þarf um 15,7% veltunnar. Og þó --- og ég bið menn að taka eftir því --- er þá búið að taka inn sem tekjur reiknaðar tekjur vegna verðlagsbreytinga. Ef þessar reiknuðu tekjur vegna verðlagsbreytinga eru ekki teknar inn þarf 25% til að mæta vöxtum og afborgunum. Þetta sama er í raun gegnumgangandi í gegnum allar þessar greinar sem hér hafa verið teknar fyrir. T.d. kemur í ljós, sem ég skal viðurkenna að

vakti afar mikla undrun mína, að vaxtagjöld, verðbætur og
gengismunur eru 36,1% af rekstrartekjum útgerðarinnar. M.ö.o. þegar Þjóðhagsstofnun metur 6% svokallað framlag til fjármagnskostnaðar, þá er það náttúrlega langtum lægri tala en þessi úttekt endurskoðendanna sýnir nauðsynlega.
    Kannski má vekja athygli á því að úttekt endurskoðendanna og úttekt Þjóðhagsstofnunar ber mjög vel saman allt að fjármagnskostnaðinum. Þjóðhagsstofnun gerir í raun ekki tilraun til að meta fjármagnskostnaðinn og segir bara hvað mikið er til að mæta fjármagnskostnaði. Hér kemur í ljós að til að mæta þessum gífurlega fjármagnskostnaði þarf, ef við tökum ekki með reiknaðar tekjur vegna verðlagsbreytinga, svona 15--20% tekna. Það fer hátt upp í vinnulaun. Þess vegna vekur það mikla athygli mína að þm. hafa yfirleitt ekki talað um þennan gífurlega kostnaðarlið og hvernig á að lækka hann. Í þessum sömu töflum, sem allar hafa verið birtar og ég reyndar afhenti þingflokkunum fyrir allnokkru, kemur m.a. fram að skammtímaskuldir eru samtals 7 1 / 2 milljarður, en hins vegar er velta þessara fyrirtækja samtals, þ.m.t. útgerðar, í kringum 11 milljarðar og skammtímaskuldir og langtímaskuldir teknar saman eru um 16 milljarðar á móti 11 milljarða tekjum.
    Nú segja menn hér að eina lausnin á þessu vandamáli sé gengisfelling. Hér hafa menn talað tæpitungulaust um það. Ég get út af fyrir sig tekið undir það að afar æskilegt er að geta lækkað kostnaðarlið á móti og þá komum við hins vegar að því hvernig við náum jafnvægi á fjárlögum o.s.frv. Það er hins vegar ekki hægt að segja að síðasta ríkisstjórn hafi verið aðgerðalaus í þeim efnum. Síðasta ríkisstjórn felldi gengið í febrúar um 6% og í maí um 10% og það var mjög nálægt því sem atvinnuvegurinn bað um. Atvinnuvegurinn talaði um 4--10 í fyrra skiptið og í seinna skiptið um 10--13. Finnst mönnum engin ástæða til að spyrja: Hvers vegna hafa þessar aðgerðir runnið algjörlega út í sandinn? Jú, jú, það eru ýmsar skýringar til á því. T.d. verðfall og breyting á dollaranum o.s.frv. En það einfaldar myndina að mínu mati ákaflega mikið því að þótt verðfall hafi orðið í Bandaríkjunum og dollarinn hafi fallið seljum við stöðugt meira og meira af okkar afurðum til Evrópu svo að þetta verðfall og fall dollarans hefur haft miklu minni áhrif en áður var. Ég hef þess vegna óskað eftir því að þau 15 fyrirtæki sem Atvinnutryggingarsjóður lét okkur í té almennar upplýsingar um verði metin með tilliti til gengisfellingar, það verði beinlínis reiknað út fyrir hvert fyrirtæki hvað gengisfelling þýðir. Hvað bjargar það fyrirtækinu lengi? Hvað hækka skuldirnar mikið? Hvað hækkar fjármagnskostnaðurinn mikið? Við vitum að sumir liðir hækka. Það getur hver maður reiknað þetta lauslega í huga sér gagnvart þessum fyrirtækjum. Segjum 10% gengisfelling, þá hækka tekjurnar um rúman milljarð. Við skulum gefa okkur það að helmingurinn af því fari í ýmsar hækkanir, laun, rafmagn o.fl. Þá eru 500 millj. eftir.

Skammtímaskuldirnar hækka um 750 millj. Jú, menn geta sagt: Við semjum um það áfram, en þær hækka um þetta og menn ná ekki samningum um allt. Langtímaskuldirnar hækka um 860 millj. Ég er því að láta reikna nákvæmar hvað gengisfelling þýðir fyrir þessi fyrirtæki. Mér er fullkomlega ljóst að gengisfelling fyrir hin sterku fyrirtæki, sem eru með góða eiginfjárstöðu og litlar skuldir, er vitanlega björgun.
    Ég vil jafnframt taka það fram að þegar þessar tölur liggja fyrir hafði ég hugsað mér að bjóða til viðræðna við stjórnarandstöðuna og aðila vinnumarkaðarins um alla þessa útreikninga. Menn geta þá sest niður og hætt að boða annars vegar gengisfellingu og hins vegar niðurfærslu. Ég geri mér vonir um að menn skoði þá þessar tölur málefnalega, ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað, og geri sér grein fyrir kostum og göllum við hinar ýmsu leiðir sem verður að fara til viðbótar við það sem nú er verið að gera.
    Herra forseti. Ég gæti vitanlega lengi rætt um þessi efnahagsmál og væri full ástæða til og ég veit að það skapast tækifæri til þess síðar hér á fundinum eða síðar á fundum Alþingis, kannski ekki á þessum fundi, en ég er vitanlega fús til þess að halda áfram lengur ef þess er óskað.
    Það eru þó örfá atriði enn sem ég vil nefna í sambandi við niðurfellingu seinni málsgreinar 4. gr., þ.e. bann við verkföllum og slíku. Ég rakti fyrir hlé að ég teldi vafa undirorpið að fella niður ýmis fleiri ákvæði þessara laga og ég væri ekki sannfærður um að það væri launþegum, a.m.k. öllum, til bóta gert.
    Mér hefur verið bent á eitt atriði sem hafi komið fram í umræðu, og það er að í stað þess að segja í fyrri málsgrein að framlengdir skuli allir samningar til 15. febr. og sömuleiðis að í síðustu málsgrein 12. gr. segi að bannaðar séu hækkanir launa og launatengdra gjalda til 15. febr. segðu menn til gildistöku þessara laga. Hvað þýðir það í raun og veru? Þá væru samningar nokkurra félaga lausir eins og t.d. BSRB. Það breytti hins vegar engu um samninga ASÍ. Samningar ASÍ eru samkvæmt eigin samningum þeirra bundnir til 10. apríl og ég verð að viðurkenna það að mér fyndist þá vera stofnað til verulegs mismunar á milli aðila vinnumarkaðarins. Ef 1,25% gætu haldist, a.m.k. hjá þeim félögum sem yrðu þá með lausa kjarasamninga, hlýtur næsta spurning að vera þessi: Mundu menn treysta sér til þess að fara með lögum að
rifta kjarasamningum ASÍ og VSÍ og ákveða með lögum að þeir skuli renna úr gildi um áramót? Ég treysti mér ekki til þess.
    Ég nefndi einnig áðan að þetta atriði sem við töldum okkur í góðri trú vera að afnema til að ganga til móts við ýmsa aðila vinnumarkaðarins er eitt meginatriðið í kæru ASÍ til Alþjóðavinnumálasambandsins. Þar er sérstaklega tekið fram --- ef ég má lesa það, herra forseti, á ensku: að ,,any kind of action for the purpose of amending wages and terms agreements is abolished by the act``

eða m.ö.o. að sérhver tilraun, viðleitni til að breyta launum sé bönnuð með þessum lögum og það er nákvæmlega það sem þessi 2. mgr. segir mjög ákveðið.
    Ég nefndi það einnig að nokkuð skiptar skoðanir væru um það í raun og veru hvort verkfallsréttur væri til staðar á tímabilinu frá því að þetta ákvæði er fellt niður og til 15. febr. Ég sagði að ég hefði heyrt lögfræðinga vera nokkuð ósammála um það atriði. Ég ætla, með leyfi forseta, að vísa hér í Arnmund Backman sem hefur skrifað viðurkennt rit um vinnuréttinn ásamt Gunnari Eydal. Í þessu sambandi er vísað til svokallaðrar friðarskyldu sem er túlkuð þannig að ekki sé leyfilegt að beita verkfalli eftir að samningar eru gerðir til að breyta ákvæðum samninganna. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þar sem reglan um friðarskyldu bannar vinnustöðvanir á gildistíma kjarasamninga nær friðarskyldan þó aðeins til þeirra atriða sem kjarasamningur inniheldur. Þess vegna er ekki loku fyrir það skotið að á milli aðila sem bundnir eru kjarasamningi geti komið til kröfugerðar og jafnvel vinnudeilna ef deilt er um atriði sem ósamið er um í kjarasamningi. Hér geta auðvitað margs konar tilvik komið upp, svo sem þau að stofnað sé til nýs starfssviðs, ný verkefni eða ný tæki komi til sögunnar eða ósamið er um ákveðinn hluta vinnunnar.``
    Ef við göngum út frá því að lögin bindi kjarasamningana til 15. febr., sem ég geri, þá gildir friðarskylda, sem ég hef að vísu heyrt einstaka lögfræðinga draga í efa þar sem ekki sé þar um frjálsa samninga að ræða, en ég held að það geti samt ekki staðist, þá telur samt Arnmundur Backman að beita megi verkföllum til að knýja fram ýmsa aðra þætti í samningum á milli aðila en beinlínis þá sem um er samið og taldir eru upp í þessum lögum.
    Herra forseti. Ég læt þessu lokið. Ég sé að hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur ekki fyrir því að hlusta á það sem hann hefur þó krafist að ég ræddi. Ég sé því ekki ástæðu til þess að halda lengur áfram.