Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Þegar menn standa andspænis því að leggja á skatta, hækka eða lækka prósentustig, leggja á nýja skatta eða fella niður gamla er hægt að nálgast það frá tveimur sjónarhornum, þ.e. frá sjónarhorni þess sem fær skattana, í þessu tilfelli ríkissjóður, eða þess sem greiðir skattana, einstaklingar og fyrirtæki. Nú þurfa þessi sjónarmið ekki að stangast á og best er að þau fari saman og hið ákjósanlega ástand er að hagur annars sé jafnframt hagur hins. En svo getur málum verið komið að hvorugur málsaðili sé aflögufær. Þegar svo er, og þannig er málum e.t.v. háttað hér og nú, hljótum við kvennalistakonur að hugleiða hag heimilanna öðru fremur.
    Ríkissjóður hefur fjölbreytlegri möguleika til að bæta sinn hag en heimili venjulegs launafólks og er auk þess að súpa seyðið af eigin óráðsíu. Þar hefur svo sannarlega ekki ríkt sú ráðdeild og útsjónarsemi sem hagsýn húsmóðir verður að beita í rekstri heimilis og því er nú svo komið að hallinn á ríkissjóði vex ár frá ári.
    Það er í sjálfu sér rétt og gott markmið að stefna að hallalausum fjárlögum og örlítið betur. En í þeim samdrætti sem nú er má varpa fram þeirri spurningu hvort ekki sé verið að nota langstökksaðferð þar sem e.t.v. þrístökk ætti betur við. Þó mikið liggi við er best að stilla öllu í hóf, líka góðum áformum ef framkvæmd þeirra bitnar verr en maklegt er á þeim sem eru í raun varla aflögufærir.
    Almenningur í þessu landi hefur horft upp á ótrúlega ósvífni í opinberum fjárfestingum, bruðl alls konar og óhóf. Ýmsir athafnamenn hafa leikið lausum hala, offjárfest og bruðlað og síðan ber launafólk, ýmist beint eða í gegnum ríkissjóð, skaðann. Sífellt berast fréttir af alls konar mis- og/eða ofnotkun á almannafé og misferli í atvinnurekstri. Því verða niðurskurðar- og sparnaðarleiðir hæstv. ríkisstjórnar að vera mjög trúverðugar og jafnafdráttarlausar og álagningartillögur hennar og þá er hollt að minna á að tiltekt í eigin búi er þar líklegust til að vekja tiltrú. Þegar hægt er að segja í einföldunarskyni að þeim 900 millj. sem ætlunin er að sækja með 2% hækkun á tekjuskatti sé ætlað að standa straum af ferða- og risnukostnaði ríkisins er varla von að sköttum hvað þá skattahækkunum sé tekið með glöðu geði. En fleira kemur til.
    Við skoðun á því frv. sem hér er til umræðu vakna ýmsar spurningar um réttmæti hækkunar tekjuskatts þó að tölur þær sem liggja fyrir í fylgiskjölum frv. séu fremur sakleysislegar hvað varðar launþega með meðaltekjur eða þar fyrir neðan. Það er alveg augljóst þó að hækkunina á að greiða með miklu verðminni krónum en var. Kaupmáttarrýrnun hefur orðið mikil þetta ár, verðbólgan á fullri ferð langt fram eftir hausti og þar á ofan hefur launafrystingin verið töluvert árangursríkari en verðstöðvunin svo að tölur fyrir og eftir breytingu eru alls ekki sambærilegar.
    Hvað persónuafslátt varðar er allt tal um hækkun hans blekking ein. Uppreikningur á persónuafslætti,

sem lögum samkvæmt á að fara fram tvisvar á ári, fór ekki fram 1. des. eins og ætlað var auk þess sem honum var flýtt um mánuð í vor og fór fram 1. júní í stað 1. júlí þannig að hækkun varð minni en ella hefði orðið. Að öllu þessu samanlögðu sýnist okkur kvennalistakonum að persónuafsláttur haldi ekki einu sinni í við verðlags- og lánskjarahækkanir, þ.e. að boðuð hækkun sé í besta falli leiðrétting á umsömdum hækkunum sem fólk var svipt með valdboði og lagasetningu.
    Um hækkanir á barnabótum gildir hið sama og voru þær þó ekki beysnar fyrir. Meðaltal barnabóta á yfirstandandi ári var 18.671 kr. með hverju barni á ári. Það gerir nú ekki meira en greiða fyrir gæslu þess meðaltalsbarns í einn mánuð og sú hækkun sem nú er boðuð er varla umtalsverð þegar tekið er tillit til þess kostnaðar sem fylgir þessu meðaltalsbarni, svo að enn eru menn við sama heygarðshornið hvað varðar ábyrgð á velferð ungviðis landsins. Það er þó huggun harmi gegn að maður gerði sér svo sem engar vonir.
    Það er líklega orðið hv. þingheimi ljóst að við kvennalistakonur erum fullar efasemda þegar kemur að stuðningi við hækkun á tekjuskatti á einstaklinga.
    Umfram það sem ég hef þegar tíundað við þær efasemdir er eitt ótalið. Það er hvort hreinlega borgi sig fyrir ríkissjóð að taka þessar fyrirhuguðu 900 millj. úr umferð, þ.e. að minnka ráðstöfunartekjur fólks sem væntanlega hefði að öðrum kosti skilað sér í neyslu ýmiss konar. Þeir peningar sem þarna eru teknir með beinum sköttum skiluðu sér sjálfsagt að stórum hluta gegnum óbeina skatta í ríkissjóð en hefðu í leiðinni gert gagn í efnahags- og atvinnulífi landins. Eins stórlega og tekjur ríkissjóðs hafa þegar minnkað af veltu og neyslu og ef tekið er tillit til þess samdráttar sem líklegur er má spyrja hvort nokkuð veiti af þessum peningum í veltunni og mundi ekki þegar upp er staðið skila sér betur. Nóg um tekjuskattinn í bili. Ég kem að honum seinna og skýri þá betur fleiri orsakir efasemda.
    Hvað varðar aðra liði frv. býst ég við að við kvennalistakonur styðjum þá liði flesta, en áskiljum okkur að sjálfsögðu rétt til að skoða málið betur í
nefnd og gera þá athugasemdir eða breytingartillögur þegar slík skoðun hefur farið fram.
    Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að fjalla lítillega um nokkrar greinar frv. og staldra ég þá fyrst við 3. gr. þar sem boðaðar eru nýjar reglur um fyrningar. Þetta þýðir örlitla hækkun á tekjuskatti umfram þá 2% hækkun sem boðuð er í 17. gr., en þess ber þó að geta að fyrirtæki byrja ekki að borga tekjuskatt fyrr en um einhvern hagnað er að ræða og hafa þau það sannarlega fram yfir heimili landsins því að þar er ekki spurt um hvort þau skili hagnaði áður en kemur að skattgreiðslum. Tekjuskattur eða þessar breyttu fyrningarreglur ættu því ekki að bitna á þeim fyrirtækjum sem illa eru stödd eins og nú er komið.
    Hvað varðar 6. gr. sýnist okkur að þetta sé vissulega til bóta og leiðir reyndar hugann að því hvort það beri ekki að reyna að uppræta eða girða fyrir sem flestar tegundir slíkra ívilnana sem menn

njóta í stað beinna launa og hvort það sé ekki miklu eðlilegra að fyrirtæki geri þá þeim mun betur við menn í launum en þau gefi kost á alls konar ívilnunum sem síðan ekki skila sér t.d. í sköttum. Hitt kann að reynast erfiðara að framkvæma þetta og má t.d. spyrja hvernig á að fylgjast með því hvort bíll er ætlaður forstjóra eða sendli. En ég vona að hæstv. ríkisstjórn verði eitthvað ágengt í því efni.
    Hvað varðar 7. gr. um ógreidd hlutafjárloforð virðist okkur þessi grein líka vera til bóta. Þetta er miklu skýrara og í þessu felst aðhald því það knýr þá til þess að raunverulega verði gerð skil á hlutafjárloforðum sem mun þá auðvitað bæta eiginfjárstöðu fyrirtækja.
    Sama gildir um 8. gr. Þetta líst okkur nokkuð ráðlegt og búumst jafnvel við að þetta leggi einhverjar hömlur á ótímabærar fjárfestingar sem oftar en ekki virðist hægt að skýra með því einu að það sé fylgt þeirri góðu gömlu íslensku reglu að allt sé betra en að borga skatt.
    Og 9. gr. á enn að girða fyrir leið sem menn geta notað til þess að komast hjá greiðslum, t.d. með því móti að kaupa sér gjaldþrota fyrirtæki og nota það árum saman til að fela eða minnka hagnað í eigin fyrirtæki.
    Um þær greinar sem varða tekjuskattinn og formlegar breytingar sem lúta að honum ætla ég ekki að ræða í þessu sambandi því það tengist allt framkvæmd tekjuskattshækkunarinnar.
    Varðandi 19. gr., um eignarskatt og sérstakan eignarskattsstofn á skuldlausum eignum sem nema 6 millj. kr. eða meira, má varpa því fram hvort það væri ekki alveg jafnheppilegt að hafa eignarskatt af brúttóeign í húsnæði en ekki nettóeign, en þá yrðu mörkin að vera talsvert hærri því það að binda þau við skuldlausa eign hvetur til þess að menn gæti þess að fara ekki yfir þessi mörk og getur því þannig birst sem refsing á þeim sem standa í skilum og leggja metnað sinn í að greiða niður sínar skuldir fljótt og vel og jafnvel telja það til dyggða að vera skuldlausir. Það má velta því fyrir sér hvort ekki væri hægt að ná sama árangri með öðrum aðferðum.
    Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða meira um einstakar greinar þessa frv., en mig langar, virðulegi forseti, að fara nokkrum orðum um þá leið, sem lengi hefur freistað okkar kvennalistakvenna og við reyndar lagt fram tillögur þar að lútandi, en það er að hafa fleiri en eitt skattþrep stighækkandi. Þetta finnst okkur svo sjálfsagt og réttlátt að við erum alltaf dálítið undrandi þegar aðrir sjá ekki hvílíkt réttlætismál það er að þeir sterku beri þyngri byrðar en þeir veikari og þeir sem aflögufærir eru greiði meira til samneyslu. Samneysla, samábyrgð og samvinna og fleiri orð sem byrja á ,,sam-`` eru algeng í okkar stefnuskrá. Það hefur gengið maður undir manns hönd að sannfæra okkur um að þetta borgi sig ekki. Einföldun og sjálfvirkni skili meiru og betur. Rökum um að erfitt sé að framfylgja lögum um fleiri en eitt skattþrep ýtum við léttilega til hliðar. Ekkert er óviðráðanlegt í þeim efnum. Það er bara spurning um

vilja. Framkvæmd má fresta um nokkra mánuði til eða frá til að auðvelda starfsfólki skattheimtukerfisins störf. Það er bara sjálfsögð kurteisi. En það sem er alvarlegt í sambandi við ef upp er tekið nýtt skattþrep er hve litlu það skilar í raun og er lýsandi dæmi um hve framkvæmd skattalaga er í molum og dýru verði keypt að gera þar ekki bragarbót. Í þessu sambandi langar mig að segja litla dæmisögu.
    Við kvennalistakonur létum reikna fyrir okkur alls konar dæmi með mismunandi álagsprósentu á mismunandi háar tekjur. Auk þess færðum við persónuafslátt upp í samræmi við einstakling hvers neyslu Hagstofan féllst loks á að reikna út fyrir okkur. Þessi einstaklingur er afskaplega hversdagslegur, lítillátur einstaklingur. Þar er ekki heimtufrekjunni fyrir að fara. Að vísu neitar hann að láta þrengja neyslu sinni niður á algert nauðþurftastig. Hann fer einstöku sinnum á leikhús eða tónleika, hann gleður vini sína og fjölskyldu á tyllidögum með hóflegum gjöfum. Einstöku sinnum býður hann heim, sjaldan þó, og veitingum öllum stillt í hóf. Hann býr í lítilli íbúð, ekur um á litlum, notuðum bíl og matinn fær hann aðallega upp úr hinni frægu hagstofukörfu. Þetta allt saman kostar þennan fyrirmyndareinstakling 84 þús. kr. á mánuði. Í framhaldi af þessu fannst okkur
einsýnt að reikna með 80 þús. kr. skattleysismörkum. Slógum þó af þörfunum til að allir öxluðu sitt og lögðum dæmið þannig upp að einstaklingur með 80 þús. kr. tekjur skyldi hafa óbreytta skatta fyrir og eftir breytingu. Eðli málsins samkvæmt hækkuðum við því persónuafslátt aðeins upp í 19.100 kr. á mánuði og hugsjónum okkar trúar barnabætur um 50% en höfðum skattprósentuna 38,2%. Sá rúmi milljarður sem hærri skattprósentu átti að gefa þurrkaðist út í einu vetfangi og 600 millj. betur. Þessar 600 millj. komu þó inn með hátekjuþrepi þar sem gert var ráð fyrir 45% álagningu á 160 þús. kr. tekjur og hærri á mánuði, sami persónuafsláttur, þ.e. 19.100 kr. og 50% hækkun á barnabótum. Þannig var þessi tekjutilfærsla sem sagt framkvæmanleg ef maður teldi aðstæður bjóða upp á slíkt. En það sem okkur fannst athyglisvert var að samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar mundu aðeins 3000 einstaklingar lenda í hátekjuþrepi eða hafa í tekjur 160 þús. kr. eða meira og trúi því nú hver sem vill.
    Þegar maður tekur ýmsar tölur og upplýsingar af opinberum toga og ber saman kemur margt fróðlegt í ljós. Samkvæmt upplýsingum eru einstaklingar sem telja fram 70 þús. talsins. Þar af eru 50 þús. með 60 þús. kr. á mánuði eða minna í laun. Af þeim 20 þús. sem eftir eru eru aðeins 3 þús. sem hafa 160 þús. kr. á mánuði eða meira. Hvernig samræmist þetta svo tölum um einkaneyslu? Árið 1988 er áætluð einkaneysla um það bil 216 þús. kr. á mánuði á þessa meðaltals fjögurra manna fjölskyldu og er þá búið að greiða skatta. Ef um það bil 70% skattgreiðenda hafa tekjur undir 60 þús. á mánuði eða 120 til samans til þess að gera töluna sambærilega er auðsætt að þeir eru varla hálfdrættingar í þessu neyslumeðaltali jafnvel þótt barnabótum sé bætt við séu skattskýrslur

áreiðanlegar heimildir. Hin 30% hafa því svo drjúgar tekjur að þeir ná að hala meðaltalið upp í 216 þús. kr. á mánuði á fjölskyldu. Árið 1989 er reyndar áætlað að meðaleinkaneysla verði á sömu einingu 237 þús. kr. á mánuði.
    Er ekki eitthvað sem ekki gengur upp í útkomu þessa dæmis? Er skattalöggjöfin svo götótt eða er framkvæmd laganna svona léleg? Það er opinbert leyndarmál að sú upphæð skiptir milljörðum sem ekki tekst að koma höndum yfir í skattheimtu og á þetta bæði við um beina og ekki síður óbeina skatta. Er það ekki peninganna virði að nota verulegt fé til að koma höndum yfir þessa milljarða? Skýtur það ekki skökku við að stórfé sé notað til að eltast við og koma lögum yfir smáþjófa en gefast svo upp fyrir hinum raunverulega þjófnaði, því skattsvik, undanskot og vanskil eru svo sannarlega brot á lögum og heitir á alþýðumáli þjófnaður? Svona tvöfalt siðgæði er óþolandi. Allir sjá þetta, allir vita þetta, en lítið er að gert. Skorti á mannafla og fé til að herða skatteftirlit er brugðið við, en það er engin afsökun. Það verður að fá til þess hæft fólk og borga því vel. Það yrði ekki lengi að skila sér.
    Þetta vegur mjög þungt á metunum hjá okkur kvennalistakonum þegar að því kemur að taka ákvörðun um að hækka skatta á venjulegu launafólki. Það er erfitt að verja það að seilast sífellt í sömu vasa til að sækja fé, vasa þess sama fólks sem launafrysting og kaupmáttarskerðing bitnar harðlega á og hefur sjaldnast haft það í tekjur að það gæti offjárfest eða bruðlað svo að ylli þenslu. Yfir þessu sama fólki þrumar svo fyrrv. hæstv. fjmrh. með jöfnu millibili og skammar það blóðugum skömmum. Það væri óskandi að hann hefði brýnt sig að sama skapi í eigin búðum. Það er því í raun varla verjandi að styðja auknar skattaálögur á almenning í landinu fyrr en ráðamenn hafa gengið rösklega í skrokk á þeim sem með einhverju móti sleppa við að leggja sitt af mörkum til samneyslunnar, löglega eða ólöglega, og tekið ærlega til í eigin búi, sýnt það með framgöngu sinni allri, hegðan og aðgerðum að þeir rísi undir nafni félagshyggju. Að öðrum kosti hljóta þeir einungis þann dóm að vont sé þeirra ranglæti, en verra þeirra réttlæti.