Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið, löng og ítarleg, um það frv. sem hér liggur fyrir um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt. Í þessari umræðu hefur margt verið sagt mjög athyglisvert og ýmsar fróðlegar ábendingar komið fram um frv. sjálft og ýmsa þætti þess. Og eins og ég gat um hér í upphafi þá er það ætíð þannig að með frumvörp af þessu tagi er eðlilegt að menn hafi á þeim ýmsar skoðanir og geri athugasemdir við þær breytingar sem þar eru lagðar til vegna þess að skattalöggjöf af þessu tagi er ekki neitt eilífðarpatent heldur koma þar alltaf mörg álitamál til greina, einkum og sér í lagi vegna þess að það er verið að reyna að laga löggjöfina að veruleika sem enginn veit kannski alveg nákvæmlega hvernig er.
    Ég vil í þessu sambandi til skýringar nefna þá grein sem nokkrir hv. ræðumenn hafa vikið að og snertir breytingar á skattlagningu framlaga sem hefur verið varið til menningarmála og ýmsrar skyldrar starfsemi. Ástæðan fyrir því að þetta ákvæði er tekið hér inn er að ýmsir stjórnendur skattakerfisins hafa haldið því fram að nánast útilokað væri að ganga úr skugga um hvort þau framlög sem undanþegin væru skattgreiðslum rynnu í raun og veru til menningarstarfsemi eða hliðstæðrar starfsemi eða hvort eingöngu væri verið að nota yfirskin til þess að skjóta undan skatti framlögum af þessu tagi.
    Ég vek í því sambandi athygli á því að í Bandaríkjunum, þar sem heimild er til þess að draga frá skatti framlög af þessu tagi, gerist það ekki nema viðkomandi félög eða menningarstofnanir hafi fengið formlega viðurkenningu skattayfirvalda og stjórnvalda um það að þau verðskuldi þann sess. Það sem á ensku er kallað ,,taxexempt status``. Mér er ekki kunnugt um það að við séum með slíkt kerfi hér hjá okkur en að skattayfirvöld gefi formlega út og samtök sæki nákvæmlega um það eða stofnanir, öll þau sem þessara greiðslna hafa notið. Þess vegna var það álit þeirra sem starfa í skattakerfinu að vegna þess að þeir hefðu ekki aðstöðu til þess að vega og meta hvort í raun og veru væri rétt með farið og rétt frá skýrt væri þarna hugsanlega um undansláttarmöguleika að ræða sem að þeirra dómi væri eðlilegast að loka. Ég nefni þetta sem dæmi um það að þarna er verið að meta veruleika sem enginn veit kannski nákvæmlega hvernig er og álit eins getur verið með eðlilegum hætti annað en þess sem mat í fyrstu. Ég tel að mörgu leyti eðlilegt að hv. nefnd skoði þetta ákvæði rækilega og ræði við þá sem framkvæmd skattalaganna hafa annast á þessu sviði og síðan verði það metið af Alþingi hvort menn telja ástæðurnar vera það ærnar að þetta ákvæði verði látið gilda eða hvort menn vilja setja einhverjar skýrari reglur þar sem menn tryggja það að eðlilegir styrkir til mikilvægrar menningarstarfsemi séu ekki veittir undir yfirskini lagaákvæða af þessu tagi öðrum sem á engan hátt er hægt að flokka undir þann vettvang. Þannig er það auðvitað líka með ýmislegt annað sem hér hefur verið rætt í þessari umræðu að að mörgu leyti er auðveldara

að fjalla um það þegar hv. fjh.- og viðskn. hefur haft tækifæri til þess að skoða rækilega þau gögn og þau álit sem liggja að baki þessum breytingum.
    Ég vil hins vegar víkja hér í örstuttu máli að fáeinum atriðum og þá fyrst nefna það að samkvæmt opinberum skýrslum OECD eru aðeins þrjú lönd OECD-ríkjanna með lægra skatthlutfall af landsframleiðslu en Ísland, þ.e. Spánn, Portúgal og Tyrkland. Ég held að það sé rétt þegar við erum að meta skatta í þessu landi að gera okkur grein fyrir því að nánast öll þau lönd sem við viljum helst bera okkur saman við, bæði Norðurlönd, Vestur-Evrópulönd og fleiri, hafa talið nauðsynlegt að hafa hátt skatthlutfall af landsframleiðslu til þess að standa undir sambærilegri velferðarþjónustu og við búum hér við. Ég vil einnig geta þess að ráðgjafar OECD hafa hvað eftir annað bent íslenskum stjórnvöldum á það að skynsamlegra væri frá hagstjórnarlegu tilliti að auka hlutfall beinna skatta í okkar skattheimtu vegna þess að það væri að þeirra dómi of lágt. Ég skal ekki hér kveða upp dóm yfir þessari ráðgjöf. Eins og við vitum eru mismunandi skoðanir á því hvað ráðgjöf frá OECD-stofnuninni sé skynsamleg, en engu að síður er það staðreynd að sérfræðingar og stjórnendur þessarar mikilvægu stofnunar hafa hvað eftir annað vakið athygli íslenskra sérfræðinga og stjórnvalda á því að við værum með óeðlilega lágt hlutfall beinna skatta út frá hagstjórnarlegum og öðrum slíkum sjónarmiðum.
    Þá hefur einnig borið á góma í þessari umræðu að þær breytingar sem hér eru lagðar til feli ekki í sér nægilega mikinn persónuafslátt eða barnabætur og hafa menn þá viljað miða það við ákvæði um lánskjaravísitölufylgni sem sett var á sínum tíma. Ég vil í því sambandi ítreka það, sem ég held að ég hafi vikið að í minni framsöguræðu, að eftir ítarlega athugun töldu menn óeðlilegt að fastbinda persónufrádráttinn með þessum hætti eins og gert var áður vegna þess að það drægi úr þeim möguleikum að spila saman skattprósentu, persónuafslætti og barnabótum til þess að laga skattkerfið að þeim tekjujöfnunarmarkmiðum sem menn vildu hafa. Þess vegna væri eðlilegt að ákveða þetta hverju sinni út frá þeim meginsjónarmiðum sem ríkjandi væru á þinginu á hverju ári. Eins og ég benti á í framsöguræðu minni, og vil ítreka hér, þá er með hærra prósentuhlutfalli hægt að ná meiri persónuafslætti og barnabótum og
nálgast þannig það sjónarmið sem sumir hv. alþm. hafa sett hér fram og gagnrýnt frumvarpið fyrir að fullnægja ekki nægilega. Á því hefur ekki verið nein launung af minni hálfu eða annarra sem að þessu frumvarpi standa að vilji menn ráða bót á því sem þeir hafa bent á sem vankanta í þessu frumvarpi, þá er hægt að gera það með því að hækka prósentuna og verja þeim fjármunum í þessu skyni. Þetta er atriði sem ég held að sé rétt að hv. þingnefnd skoði vel og rækilega áður en frumvarpið kemur þar endanlega til afgreiðslu.
    Einnig hefur verið sagt að í talnaupplýsingum frumvarpsins væru fólgnar ákveðnar blekkingar með

því að birta eingöngu tölur yfir tekjuskatt en ekki útsvar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem unnar hafa verið í ráðuneytinu bendir margt til þess að í mjög mörgum tilfellum komi þetta betur út ef útsvarið er tekið með inn í myndina. Má í því sambandi nefna dæmi af hjónum með 120 þús. kr. tekjur en hjá þeim er lækkunin meiri þegar útsvarið er tekið með inn í myndina og hjá hjónum með yfir 150 þús. kr. tekjur er hækkunin minni þegar útsvarið er tekið með inn í myndina. Þess vegna held ég að þetta sé atriði sem gott er fyrir menn að skoða rækilega í nefnd, en óþarfi að vera að togast á um það hér í ræðustól. Það er betra að hafa öll gögn við hendina þannig að hver og einn geti litið yfir það og sannfærst þá af þeim talnagrunni sem fram er lagður.
    Sama gildir um ýmislegt sem sagt hefur verið um skattlagningu fyrirtækjanna. Ég held að það sé þess eðlis að betra sé að skoða það að lokinni meðferð í nefnd. Þar á ég t.d. við að það sé rangt að segja að skatthlutfallið hjá fyrirtækjunum hækki bara um 2%, sem m.a. kom fram hjá hv. þm. Geir H. Haarde. Hann benti á lækkun á fjárfestingarsjóðsheimildinni í því sambandi. Það er rétt að vekja athygli á því að það eru alls ekki öll þessi fyrirtæki sem nýta þessa heimild, líklegast ekki nema um þriðjungur fyrirtækja sem gera það, þannig að jafnvel þó að þetta væri rétt, sem hv. þm. hélt fram, sem ég tel að sé ekki, þá ætti það ekki við nema lítinn hluta fyrirtækjanna.
    Þannig er hægt að nefna fjölmörg önnur atriði. Ég vil í þriðja lagi víkja á sama hátt að fullyrðingum sem hér hafa komið fram um fjölda einstaklinga og skattgreiðenda sem muni lenda í þessu sérstaka háeignaþrepi sem lagt er til í þessu frumvarpi. Það hefur verið framkvæmd gróf athugun á því hvernig þetta skiptist og þær tölur sýna það að þessi hópur er, eins og ég nefndi, í kringum 5--6 þúsund manns. Þar af eru hjón rúmlega 2000 og einstaklingar rúmlega 1800, einstæð foreldri aðeins 138. Í nefnd er þannig hægt að fá ákveðna sundurgreiningu á því hvað í þessu felst svo að menn geti betur séð þá þjóðfélagshópa sem hér um ræðir.
    Auðvitað er það þannig að æskilegt væri að hafa ítarlegri og betri greinargerð yfir eignaskiptinguna í okkar landi og skuldastöðu og eignastöðu bæði einstaklinga og fyrirtækja og geta þá skoðað þetta betur. Þær upplýsingar liggja auðvitað fyrir að nokkru leyti og er sjálfsagt að þær verði til reiðu fyrir viðkomandi þingnefnd.
    Hér hefur einnig verið varpað fram ýmsum hugmyndum, t.d. af hv. þm. Þórhildi Þorleifsdóttur, sem ég tel sjálfsagt að taka til skoðunar og athugunar og sjá hvernig hægt er að vega og meta. Ég tek undir þá athugasemd hennar að það skattalega hugtak, skuldlaus eign, sem hér er lagt til grundvallar þarf ekki endilega að veita rétta mynd af því sem eðlilegt væri að menn greiddu til samfélagsins, þar þarf að gæta að ákveðnu samhengi. En eins og ég sagði í inngangsræðu minni eru ýmis rök sem mæla með því að taka upp sérstakt skattþrep þó að ýmsir séu á annarri skoðun.

    Enn fremur, þó að það hafi nú ekki verið vikið mikið að því í þessari umræðu, getur auðvitað komið til greina að skoða betur þau aldursmörk barna og unglinga sem miðað er við í tekjuskattslögunum og á ég þar bæði við neðri og efri mörkin. Það er þáttur sem væri einnig mjög fróðlegt að skoða nánar.
    Hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir vék að því að um 900 millj. kr. væri varið í ferða- og risnukostnað á vegum ríkisins. Ég þori nú ekki að fullyrða hvort það er rétt tala, ég hef ekki þær upplýsingar hér við höndina. Ég veit hins vegar að það eru mjög háar upphæðir. Það er m.a. þess vegna sem í samvinnu við fjvn., sérstaklega formann hennar, hefur verið unnið að tillögum sem væntanlega verða kynntar hv. Alþingi innan fárra daga um sérstakan niðurskurð á þessum kostnaðarlið upp á 250 millj. kr. Það er satt að segja allvæn upphæð og verður ekki framkvæmd að mínum dómi nema með því að setja sérstakan kvóta á einstök ráðuneyti og ríkisstofnanir sem þau verða að halda sig innan hvað þessi útgjöld snertir og fá þá ekki meir ef öllum þeim peningum hefur verið varið áður en árið er á enda. Það atriði á kannski betur heima í umræðu um fjárlagafrv., bæði við 2. og 3. umr. þegar um það verður fjallað hér.
    Hvað aukafjárveitingar snertir hef ég hugsað mér að vinna að kynningu þeirra með eðlilegum hætti og kynna þær fjvn. á sínum tíma og tel ég eðlilegt að svo sé gert.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að ég hafi þá vikið að flestöllu því sem ég tel rétt á þessu stigi að reifa beint í framhaldi af þessari umræðu, en endurtek það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að auðvitað kom mjög margt
fram í þessum ræðum sem ástæða væri til að ræða nánar. Það gefst e.t.v. tími til þess síðar þegar allir hv. þm. hafa haft tækifæri til að skoða málið betur og við getum borið saman bækur okkar, bæði á grundvelli þess undirbúnings sem fram fór í ráðuneytinu og þeirrar könnunar sem hv. þm. hafa framkvæmt.