Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Hæstv. fjmrh. taldi sig hafa svarað öllu sem til hans var beint. Ekki er það nú svo. Hann svaraði t.d. ekki þeirri spurningu hvort það væri réttur skilningur á 19. gr. frv. að hæsta eignarskattsþrepið væri 2,7%. Vill hann kannski svara því? ( Fjmrh.: Það er 2,7.) Það er 2,7%. ( Fjmrh.: Já.) Ég hef verið að spyrjast fyrir um að hér meðal einstakra manna úr stjórnarliðinu hvort þetta hafi verið sá skilningur sem þeir hafa lagt í þessa grein. Og þó að það sé ekki mitt að skýra frá því, þá hafa þeir nú flestir hverjir komið af fjöllum að því er varðar þessa túlkun, enda segir greinin allt annað. En við skulum bara fjalla um það í nefndinni og stjórnarliðar verða auðvitað að gera það upp í sinn hóp hvernig þeir vilja hafa þessa grein. Við getum þá í nefndinni tekið hana til athugunar.
    Út af gjöfum til menningarmála sem ég og fleiri höfum vakið athygli á, þá undraði mig nokkuð að viðskrh. sá ekki ástæðu til að svara þeim spurningum, sem ég beindi til hans af því tilefni, þegar hann tók hér til máls og ræddi fyrirspurnir sem til hans hafði verið beint. Spurningin sem ég beindi til hans var sú: Hvað hefur breyst að því er Alþfl. varðar frá því í fyrra? Vegna þess að þá beitti formaður Alþfl. sér fyrir því með kjafti og klóm að koma þessari grein inn í lögin, sem áður hafði fallið út fyrir misgáning, að taka frádráttarheimildina inn í lögin á nýjan leik. En hæstv. viðskrh. sá ekki ástæðu til þess að svara því, enda þykist ég vita að hann hafi engin svör við því.
    Hitt er svo annað, að hæstv. fjmrh. vék að nauðsyn þess að gefa út reglur um það með hvaða hætti farið er með þessa heimild um frádrátt vegna gjafa til menningarmála. Mætti ég þá ekki benda hæstv. ráðherra á reglugerð nr. 748/1983, um frádrátt vegna gjafa til menningarmála, sem er birt í ágætu hefti þar sem saman eru tekin lög um tekjuskatt og eignarskatt ásamt fleiri skyldum lögum og reglugerðum. Þar er einmitt nákvæmlega tíundað hver skilyrði eru fyrir því að stofnanir, sjóðir og félög geti tekið á móti slíkum gjöfum þannig að þær séu skattfrjálsar hjá gefandanum, hvaða málaflokkar það eru, hvers konar kvittanir þurfa að vera o.s.frv. Þetta er því auðvitað til, en það má vel vera að það þurfi eitthvað að gera þetta ítarlegra. Ég er alveg til í að taka þátt í slíku starfi gegn því að ákvæði sem þetta fengi að halda sér í lögunum. Það er hlutur sem e.t.v. mætti ræða í nefndinni, en ef ráðherra var ekki um það kunnugt, þá var þessi reglugerð til og birtist á bls. 83 í þessari merku bók sem ég hef undir höndum.
    Ég skal ekki lengja þetta, herra forseti. Ég vildi þó aðeins í lokin vekja athygli á því sem ég reyndar kom að í ræðu minni og ýmsir aðrir, og því svaraði fjmrh. engu, en það er að skattleysismörkin lækka við þetta frv. frá því sem ella hefði verið með núgildandi lögum. Á þetta er bent í frétt í DV í dag og ég sé ekki betur en að þær tölur sem þar eru birtar séu alveg réttar, að persónuafsláttur miðað við frv. sé lægri en hann ella hefði verið að óbreyttum lögum.
    Ég tek undir spurningu hv. þm. Stefáns

Valgeirssonar: Er það þessi stefna sem alþm. vilja beita sér fyrir? Ég tek undir þá spurningu máttarstólpa ríkisstjórnarinnar og tel að hún hafi átt rétt á sér hér í umræðunum. En það kom bara ekkert svar við henni. Hæstv. ráðherra vék sér undan því að svara þessu og hafði þar með þær fyrirspurnir að engu.
    Hitt er svo annað mál, og það snertir töflurnar með þessu frv., að þó að það sem þar er birt sé rétt svo langt sem það nær, þá sný ég ekki til baka með það að það er villandi að birta þessar töflur á meðalverðlagi næsta árs þegar allt frv. er á desemberverðlagi þessa árs. Ef maður reiknar þetta út nákvæmlega eins og hlutirnir standa, miðað við þetta desemberverðlag, þá kemur eilítið annað út úr þessu. Ef um er að ræða þennan margfræga einstakling með 60 þús. kr. tekjur á mánuði, þá greiðir hann samkvæmt frv. 4645 kr. í samanlagðan tekjuskatt og útsvar, en hefði greitt samkvæmt núgildandi lögum 3278 kr. Þarna er um að ræða hækkkun upp á 1367 kr. Það er líka villandi eins og ég gat um, þó að það sé ekki rangt, að gefa það í skyn með tölum sem þessum að viðkomandi aðili þurfi ekkert að greiða í útsvar. Hann gerir auðvitað engan greinarmun á því sem af honum er tekið í staðgreiðslu, hvort það rennur til ríkisins eða sveitarfélagsins, vegna þess að að er gert í einni og sömu greiðslunni. Það er ekki til þess að auðvelda mönnum að bera þetta saman við sínar eigin skattgreiðslur og sína eigin launaseðla að taka þarna eingöngu tekjuskattinn. En ég vildi ítreka það, eins og ég hef sagt, að taflan sem slík er rétt, en hún er hins vegar villandi af þessum tveimur ástæðum.