Lánstraust Íslands erlendis
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég skil það mætavel að hæstv. viðskrh. skuli ekki telja mörgum orðum eyðandi að yfirlýsingum forsrh. um þjóðargjaldþrot og ég skil það mætavel að hann skuli ekki treysta sér til þess að taka undir þau ummæli eða verja þau á neinn hátt.
    Ég tel mikils um vert að það er fram komið með þessu eina orði, svarinu við síðari spurningunni, að viðskrh. er ekki sammála yfirlýsingu forsrh. og ég tel að viðskrh. hafi í flestum efnum betri möguleika til að meta hvort svo er ástatt sem forsrh. lýsti en hann sjálfur.
    Varðandi hins vegar fyrri spurninguna undrast ég það nokkuð að svo vandvirkur maður sem hæstv. viðskrh. er skuli ekki vilja a.m.k. kanna það óformlega hvort þarna hafi orðið einhver óheppileg áhrif. Það vill að vísu svo til að Morgunblaðið gerði smáathugun á þessu með því að hringja í nokkra menn og á daginn kom að flestir viðmælenda blaðsins skelltu upp úr þegar þeir heyrðu af þessari yfirlýsingu og ummælum forsrh. Sýnir það kannski ágætlega að þeir fylgjast vel með og vita á hverjum er mark takandi og hverjum ekki í landinu.