Vestmannaeyjaferja
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvað líði athugun á smíði nýrrar ferju á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Í lánsfjárlögum fyrir yfirstandandi ár, 7. gr., er Herjólfi hf. heimilað að taka lán að fjárhæð 100 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til hönnunar og smíði ferju að fengnu samþykki fjmrh., samgrh. og fjvn. Alþingis eins og segir þar.
    Í febrúar sl. tilnefndu þessir ofangreindu aðilar menn í starfshóp til að fjalla um hugmyndir og athuganir forráðamanna Herjólfs hf. um smíði nýrrar ferju fyrir Vestmannaeyjar. Þessi vinnuhópur skilaði skýrslu um störf sín í maí á sl. vori og var meginniðurstaða hópsins sú að leggja til að fjmrh., samgrh. og fjvn. samþykktu ekki að svo komnu máli lánsábyrgð til handa stjórn Herjólfs vegna smíði nýrrar ferju. Það var álit vinnuhópsins að áður en til endanlegrar ákvörðunar kæmi væri gerð athugun á þeim valkostum sem settir voru fram í skýrslu vinnuhópsins og þær athugasemdir metnar sem þar voru gerðar við frumathugun stjórnar Herjólfs á ferjusmíðinni. Þetta var gert og samgrn. sendi stjórn Herjólfs téða skýrslu vinnuhópsins til umfjöllunar með bréfi dags. 25. maí og fulltrúi fjmrn. mætti á fund félagsins sem var haldinn samdægurs og gerði fundarmönnum grein fyrir niðurstöðu vinnuhópsins, m.a. því áliti að stjórn Herjólfs tæki málið fyrir á ný og endurmæti hugmyndir varðandi skipakost félagsins.
    Ráðuneytið fór þess á leit við framkvæmdastjóra Herjólfs að hann gæfi upplýsingar um gang mála varðandi nýtt skip fyrir Herjólf og þá þróun mála sem orðið hefði frá aðalfundi félagsins í maí sl. Bréf Herjólfs hf. ásamt athugun Skipatækni dags. 8. f.m. um kaup á notaðri ferju fyrir Herjólf barst ráðuneytinu 2. þ.m. Í því bréfi segir m.a.:
    ,,Hinn 15. júní 1988 kom þáv. fjmrh., Jón Baldvin Hannibalsson, ásamt Sveinbirni Óskarssyni á fund stjórnar Herjólfs til að ræða þessi mál. Á þeim fundi óskaði fjmrh. þess að stjórn Herjólfs hefði forgöngu um þessa könnun, þ.e. athugun á því hvort til væri notað skip sem hentað gæti Herjólfi hf. Þá þegar fól stjórnin þremur aðilum að kanna markað notaðra skipa. Svar við þeim fyrirspurnum bárust á tímabilinu júlí til september. Voru þessi svör öll gaumgæfilega yfirfarin og könnuð. Kom í ljós að tiltölulega fá skip er gætu hentað á þessari leið voru til sölu. Flest skipin voru mun stærri en svo að þau kæmu til greina eða þá voru orðin of gömul. Eitt þessara skipa kom þó sterklega til greina, það mun hafa verið skipið Bohus, og var gerð sérstök athugun á því. Sérfróðir menn voru fengnir til að skoða það og meta. Niðurstaða þessara manna fylgir hér með og sýnir ótvírætt að þessi lausn er ekki fær``, segir þar.
    Ég mætti svo á fund með stjórn Herjólfs hinn 12. nóv. sl. og voru mér þá kynntar þessar niðurstöður allar ásamt öðrum málefnum félagsins. Ég hef nú athugað þetta allrækilega, þar á meðal gögn sérfróðra aðila, eins og Dwinger Marine Consultans og Skipatækni hf., um athugun á notuðum skipum og hef

sannfærst um að sú leið er ekki fýsilegur kostur og hæpin fjárfesting að kaupa til að mynda 10, 12, 15 ára gamalt skip fyrir 50--60% af kostnaðarverði nýsmíði. Mér sýnist því stefna í það að á næsta ári hefjist endanleg hönnun og ákvörðun um gerð og smíði nýrrar ferju og heimild í lánsfjárlagafrv. nú er ætluð í því skyni.