Eindagi söluskatts
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægður yfir því að þetta skuli komið í framkvæmd. Ég var mikill áhugamaður um að þessi háttur yrði upp tekinn, en ég hlýt þó að finna að því að eindagi söluskattsins fyrir nóvembermánuð skuli vera fyrir áramótin. Ég geri mér að vísu grein fyrir því að í ríkisreikningum munar mjög miklu í eitt skipti þegar söluskatturinn kemur ekki inn fyrr en eftir áramót og ef verðbólga er mikil getur þetta haft nokkur áhrif á lokatölur. Eftir sem áður held ég að það eigi að stíga skrefið til fulls þannig að eindagi söluskatts sé jafnan á öðrum eða þriðja virkum degi eftir mánaðamót. Ég skal ekki þreyta þingheim með því að ræða frekar þetta mál, en fagna þeim áfanga sem hefur náðst.