Skipasmíðaiðnaðurinn
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Virðulegi forseti. Ég á svolítið erfitt með að ávarpa hæstv. viðskrh. meðan hann er hvergi sýnilegur. ( Forseti: Forseti skilur það vel en væntanlega mun hæstv. iðnrh. birtast hér og sitja fyrir svörum fyrirspyrjanda.) Ég sé að það er búið að opna allar dyr upp á gátt þannig að hann kemst væntanlega inn í salinn. Það er kannski bara einfaldast að geyma fsp. til næsta fundar ( Gripið fram í: Hann er kominn.) ef hæstv. iðnrh. má ekki vera að að vera hér við.
    Já, virðulegi forseti. Eins og alþjóð er kunnugt eða ætti a.m.k. að vera kunnugt hefur mjög verið þrengt að skipasmíðaiðnaðinum með margvíslegum hætti upp á síðkastið. Í fyrsta lagi er það að gengi íslensku krónunnar er rangt skráð þannig að skipasmíðaiðnaðurinn á í vaxandi erfiðleikum með að mæta samkeppni erlendis frá ef einungis er miðað við verð í krónum talið. Í öðru lagi er það að sjávarútvegurinn er rekinn með botnlausum halla sem veldur því að útgerðarmenn eiga erfiðara en áður með að gera full skil á viðgerðum eða endurbótum á skipum sínum eða draga það að setja skip sín í viðgerð þó hún sé kannski knýjandi, en auðvitað verður það mjög dýrt til lengdar. Í þriðja lagi er mikil óvissa um það hvernig lánafyrirgreiðslu verður háttað í sambandi við skipasmíðaiðnaðinn á næsta ári og allt í óvissu um það hvort Byggðasjóður muni áfram veita þá fyrirgreiðslu upp í 80% af meiri háttar viðhaldi og endurbótum sem verið hefur undanfarið og hefur reynst mjög vel, notið vaxandi trausts bæði útgerðarmanna og skipasmíðaiðnaðarins og engin gagnrýni hefur fengist á enda um mjög fagleg vinnubrögð að ræða og einungis nauðsynlegt vegna þess að aðrir sjóðir í landinu eru ekki færir um að inna þessa fyrirgreiðslu af hendi.
    Enn er það að frv. um tekjuskatt og eignarskatt sem lagt hefur verið fram mun bitna með miklum þunga á skipasmíðaiðnaðinum eins og ég veit að hæstv. iðnrh. er ljóst sem er mjög skattfróður maður og enn vil ég bæta því við að í lögum um lántökugjald á erlendar lántökur er gert ráð fyrir því að leggja sérstakan skatt á lán sem veitt eru til þess þó að fiskiskip séu smíðuð hér á landi, en eins og iðnrh. er kunnugt er verið að smíða eitt slíkt skip á Akureyri m.a. Ég get því ekki séð annað en að ríkisstjórnin stefni með markvissum hætti að því að brjóta niður þennan iðnað. Með því er að sjálfsögðu líka verið að vega mjög að landsbyggðinni því að skipasmíðaiðnaðurinn er mjög úti um allt land. Hann er sérstaklega á Akureyri og Akranesi e.t.v. en hann er á ýmsum öðrum stöðum. Ég get talað um Ísafjörð, Vestmannaeyjar, Suðurnes, Húsavík og Siglufjörð, og það er hægt að tala um Skagaströnd og Seyðisfjörð. Víða hefur skipasmíðaiðnaðurinn verið í misjöfnum vexti að vísu, en hann hefur þó náð að lifa af og ég vil segja að hann sé nauðsynleg þjónusta til þess að við getum verið sú fiskveiðiþjóð með þeirri reisn sem við viljum vera og höfum verið.