Fyrirspurn um þjóðargjaldþrot
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég hef verið ýmist á nefndarfundum í morgun eða á skrifstofu minni í þinginu eða hér í þinghúsinu og hafði vænst þess að þessi fsp. yrði tekin fyrir. Ég hef nú fengið fréttir af því að hæstv. forsrh. hafi verið búinn að ráðstafa tíma sínum í hádeginu fyrir fram og hlýt að vænta þess að það verði gert hlé á fundinum og hæstv. forsrh. verði kallaður til að svara fsp. Það er ekki tekið til greina hjá stjórnarandstöðunni að hún geti fengið hlé á nefndarstörfum á venjulegum skrifstofutíma opinberra stofnana, kannski svo dögum skiptir, og er ætlast til að við sitjum hér á fundum frá hálfníu og níu til hádegis og svo strax kl. eitt og förum síðan á deildarfundi þannig að við getum hvorki aflað upplýsinga um þingmál né undirbúið okkur undir þingmál nema þá á kvöldin eða í matartímum. Það er auðvitað alveg lágmark að þeir menn sem ætlast til þess að aðrir vinni með þessum hætti sýni okkur sömu virðingu.
    Nú vil ég líka spyrja hæstv. forseta hvenær næsti fyrirspurnatími verður. Hann hlýtur að verða í næstu viku.