Fjárlög 1989
Laugardaginn 17. desember 1988

     Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta það, sem raunar er komið hér fram, að það væri engin fjárveiting til heilsugæslumála í Reykjavík. Það eru 8 millj. kr. til heilsugæslustöðvar á Seltjarnarnesi, til þess hluta hennar sem ætlað er að þjóna vesturbænum í Reykjavík, og það er ekki bráðabirgðaráðstöfun heldur framtíðarráðstöfun.
    Ég ætla líka að leiðrétta að þessi hugmynd hafi komið fram á einhverjum öðrum tíma en í upphaflegum tillögum nefndarinnar. Hún kom strax fram í tillögum þeim sem kynntar voru fjvn. frá meiri hl. fjvn. og heilbrmrn. Það er ekki heldur rétt að sú tillaga hafi komið inn á seinni stigum málsins.
    Þá er heldur ekki rétt að það sé ekki búið að standa við það samkomulag sem gert var við borgarstjórann í Reykjavík með heimild í 6. gr. Fyrrv. fjmrh. greiddi hluta af því og núv. fjmrh. hefur að fullu staðið við það samkomulag.
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð í viðbót. Það hefur torveldað mjög málin að ekki hefur ríkt samkomulag á milli Reykjavíkurborgar, heilbrmrn. og stjórnvalda almennt um heilsugæslumál í Reykjavík þar sem þau hafa verið í nokkuð öðru horfi en annars staðar á landinu. Nú er langt komið samkomulag á milli heilbrmrn. og borgaryfirvalda í Reykjavík um þau mál og mun það að sjálfsögðu greiða mjög mikið fyrir því að Reykjavíkurborg fái eðlilega meðferð í fjárveitingum. Það er sjálfsagt og eðlilegt að tengja samkomulag um slíkar greiðslur við það samkomulag sem verið er að gera að uppbyggingu heilsugæslumannvirkja. Ég lýsti því yfir í fullri heimild hæstv. fjmrh. að slíkir samningar yrðu teknir upp með heimild í 6. gr. og ég veit að hæstv. fjmrh. mun láta það samkomulag ganga fram og mun leggja sig fram um að það verði gert og ég vil ítreka að ég er reiðubúinn og mun að sjálfsögðu fylgja því eftir að svo verði. Ég segi já.