Framhaldsskólar
Mánudaginn 19. desember 1988

     Frsm. 2. minni hl. menntmn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Varðandi þau sérstöku atriði sem hæstv. ráðherra vék að í sambandi við reglugerðarsmíð og þau mál sem taka þyrfti til athugunar í sambandi við lögin í því samhengi vil ég aðeins segja að vegna þess annríkis sem ég hef átt í út af skattamálum síðustu daga hafði mér láðst að geta þess að ég hafði fengið þetta plagg í hendur og mun, herra forseti, við 3. umr. gera ítarlega grein fyrir því hver afstaða mín sé til þess og býst við því að forseti gefi mér svigrúm til að athuga það nú þannig að eftir þingflokksfundi þegar umræðu lýkur er ég reiðubúinn að ræða þann kafla úr ræðu ráðherrans sérstaklega. Ég veit að forseti skilur að þvílíkt annríki hefur verið á þingmönnum nú upp á síðkastið að það er kannski fyrirgefanlegt þótt þeim hafi láðst í öllum hitanum að fara ofan í alla pappíra því þó svo forseti Sþ. hafi lýst því yfir að þingmenn hafi þrjá starfsmenn sér til aðstoðar við undirbúning mála og hafi lýst því sem miklum framförum í Þjóðviljanum hafa mér engin boð borist um það frá forsetanum að mér prívat og persónulega standi slík þjónusta til boða fram yfir það sem áður hefur verið og er það kannski lítil skýring á því hvers vegna ég hef ekki haft tíma til að víkja nákvæmlega að þessum atriðum.
    En hitt vil ég segja um hvernig hæstv. ráðherra vék að athugasemdum þessarar nefndar að hann seildist þar um hurð til lokunnar, eins og fyrrv. þingmaður sagði stundum þegar menn tóku á sig útúrdúra að óþörfu. Ég býst ekki við því að hæstv. menntmrh. hafi viljað láta skilja sig svo að framvegis ættu skólarnir sjálfir að annast útgreiðslu launa, en það eru orðin mörg ár síðan sá háttur var upp tekinn að ríkisféhirðir annaðist almennar launagreiðslur til fastra starfsmanna og ég hygg að framkvæmd staðgreiðslulaganna sé mun einfaldari með því að sá háttur verði áfram en hitt að hann ætli sér að einstakir skólar á framhaldsskólastigi og e.t.v. á grunnskólastigi, ég veit ekki um Háskólann, eigi að greiða út launin en ekki ríkisféhirðir eins og verið hefur. Það væri kannski fróðlegt að fá upplýsingar um það.
    Nú er það svo að á því stigi sem þetta mál var þegar það fór úr deildinni og eins og þetta mál hefur verið hefur Sjálfstfl. ekki gert tillögu um að III. og VIII. kafla laganna verði frestað þó svo að í því felist ekki nein ánægja yfir því að smíði reglugerða í sambandi við framhaldsskólafrv. hefur dregist úr hömlu og mjög verulega kvartað yfir því af fulltrúum bandalags kennara hversu illa hefði verið staðið að reglugerðarsmíðinni og má vel vera að af þeim sökum sé nauðsynlegt að fresta lögfestingu þessara kafla. En ég undirstrika, herra forseti, að við höfum ekki gert það endilega að okkar tillögu.
    Á hinn bóginn vil ég spyrja hæstv. félmrh. hvaða afskipti félmrn. hefur haft af bréfi Sambands ísl. sveitarfélaga frá 16. sept. sl. Með leyfi hæstv. forseta er best að ég lesi bréfið í heild til þess að ekki komi fram misskilningur. Þetta bréf er dags. 15. des. 1988 af því tilefni að formaður menntmn. sneri sér til Sambands ísl. sveitarfélaga til að biðja um afstöðu

þess til þess að fresta tilteknum atriðum í lögum um framhaldsskóla. Þá barst þetta bréf 15. des., en í því segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Lög nr. 57/1988 um framhaldsskóla.
    Á stjórnarfundi Sambands ísl. sveitarfélaga 16. sept. sl. var m.a. rætt um framkvæmd laga um framhaldsskóla nr. 57/1988 sem taka eiga gildi í ársbyrjun 1989 að því er stofn- og rekstrarkostnað varðar. Svofelld samþykkt var gerð um málið:
    ,,Þar sem fram hefur komið í umræðum að til álita komi að fresta gildistöku laga um framhaldsskóla sem samþykkt voru á síðasta þingi vill stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga árétta að sveitarfélög landsins hafa ekki gert ráð fyrir öðru en að ríkið standi við sinn hlut kostnaðar við framkvæmd laganna á næsta ári miðað við þá kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga við byggingu og rekstur framhaldsskóla sem lögin gera ráð fyrir.``
    Þetta tilkynnist hv. þingdeildarnefnd hér með.

Virðingarfyllst,

Magnús E. Guðjónsson,

framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga.``

    Nú skildi ég þetta bréf Sambands ísl. sveitarfélaga þannig að framkvæmdastjóri þess væri að koma þeim skilaboðum til menntmn. að sveitarfélögin sem heild álitu að það væri ávinningur að því fyrir sig að staðið yrði við fyrirheitið um að fjármálakaflar framhaldsskólalaganna tækju gildi 1. jan. 1989 eins og ákveðið hafði verið á síðasta Alþingi og skýrt er kveðið á um í lögum og ég skildi þetta bréf framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga einnig þannig að það hefði láðst hjá ríkisstjórninni að tilkynna Sambandi ísl. sveitarfélaga og sveitarfélögunum um að annað stæði til en að framhaldsskólalögin tækju gildi 1. janúar.
    Þetta er mjög alvarlegt mál. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál ef svo er. En hitt kemur mér þess vegna mjög á óvart ef það er rétt hjá hæstv. menntmrh. að kostnaðarákvæði framhaldsskólalaganna séu óbrúkleg því að ef
kostnaðarákvæði framhaldsskólalaganna eru óbrúkleg felst í þessum orðum hæstv. menntmrh. beinlínis að Samband ísl. sveitarfélaga, stjórn þess, hafi ekki nennt að setja sig inn í framhaldsskólalögin áður en það bréf var skrifað sem ég vitnaði nú til eða þá að sveitarfélögin hafa látið undir höfuð leggjast að tilkynna framkvæmdastjóra sínum að um óbrúkleg lagaákvæði væri að ræða. Mér finnst satt að segja að í þessum ummælum hæstv. menntmrh. felist allmikill hroki, ef litið er á forsögu málsins, ólýsanlegur hroki. A.m.k. er það alveg ljóst, herra forseti, að ummæli hæstv. menntmrh. lýsa því að hann hefur ekki lagt mikið á sig til að setja sig inn í þankagang sveitarstjórnarmanna um þá hagsmuni sem hann ber fyrir brjósti.
    Það sem hæstv. menntmrh. sagði áðan um galla frv. var sagt í slíkum styttingi að ég hlýt við 3. umr. að skoða þau mál sérstaklega. Má vera að nauðsynlegt sé þá að taka upp ítarlegar viðræður við hæstv. menntmrh. einmitt um þá kafla sem lúta að

fjármálahliðinni. Skal ég ekki fara um það fleiri orðum, en mér var ómögulegt annað en hafa orð á því hér í deildinni að skilaboðin sem menntmn. fékk frá Sambandi ísl. sveitarfélaga voru skýr að okkar dómi, þau að ríkisstjórnin hefði látið undir höfuð leggjast að gera sveitarstjórnunum grein fyrir því að ekki stæði til að taka upp kaflana um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga 1. janúar eins og lögákveðið er.
    Eins og ég sagði eru margar hliðar á þessu máli. Þetta er flókið mál. Ég geri alls ekki lítið úr þeim ummælum hæstv. menntmrh. að í sambandi við breytta kostnaðarskiptingu sé margt álitamálið. Við munum eftir því alveg frá því 1970 eða um það leyti, þegar farið var að tala fyrst um nauðsyn þess að setja samræmda löggjöf um framhaldsskóla, að slík löggjöf strandaði einmitt alltaf á því að sveitarfélögin og ríkisvaldið gátu ekki komið sér saman um það hvernig kostnaðarskiptingin ætti að vera. Af þeim sökum frestaðist ár frá ári að ganga frá breyttri kostnaðarskiptingu til að eyða því misræmi og því óréttlæti sem er á milli ýmissa sveitarfélaga einmitt vegna þess að kostnaðarskiptingin er allt önnur í framhaldsskólunum eftir því um hvaða skóla við erum að tala. Nú get ég t.d. af því að hæstv. menntmrh. talaði um framhaldsskólana á Akureyri aðeins vikið að því að allt, allt öðruvísi er staðið að kostnaðarskipan verkmenntaskólans en menntaskólans þar sem ríkið greiðir hverja einustu krónu og fjölbrautaskólans aftur á Sauðárkróki. Þar er enginn skóli rekinn sem alfarið er á kostnað ríkisvaldsins. Hitt er auðvitað misskilningur og rangminni hjá hæstv. menntmrh. ef hann minnir að Dalvíkurbær mundi t.d. einhverju tapa á því að lögin um breytta kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga tækju gildi úr því að hann fór sérstaklega inn í mitt kjördæmi og fór að tala um að í því kjördæmi mundu sveitarfélögin tapa á breyttri kostnaðarskiptingu. Ég vona að þessi orð hæstv. menntmrh. lúti að því að sú leiðrétting verði gerð á fjárlagafrv. að Dalvíkurbær verði ekki einn látinn bera allan almennan rekstrarkostnað af stýrimannaskólanáminu og fiskvinnslunáminu þar ef sleppt er launakostnaðinum. Ég vona sannarlega, úr því að hæstv. menntmrh. misminnti um Dalvík, að það verði þá til þess að hann leiðrétti það í fjárlögunum þannig að Dalvíkingar fái þá kostnaðarskiptingu sem menntmrh. lýsti í deildinni að hann vildi hafa. Ég vona að hann skrifi nú niður sér til minnis, sýni einmitt að málunum sé svo komið. En ég dreg ekkert úr því að Dalvík hefur ranglega orðið að bera of þungar byrðar af þessum sökum síðan þessar framhaldsdeildir voru stofnaðar. Sumpart er það vegna þess að þau vinnubrögð eru orðin nú hjá fjvn., a.m.k. eftir að alþýðuflokksmaðurinn Sighvatur Björgvinsson var kjörinn formaður, að hún neitar fullkomlega og algerlega að segja einstökum þingmönnum frá því hvaða brtt. hún hyggist flytja við 2. og 3. umr. fjárlaga, þannig að ógerningur er að koma neinum leiðréttingum að, því að allar brtt. sem síðar berast falla í Sþ. samkvæmt sérstakri skipan

ríkisstjórnarinnar. Það er einmitt af þessum sökum, vegna óbrúklegra, svo að ég noti orð hæstv. menntmrh., óbrúklegra vinnubragða formanns fjvn., sem örðugt hefur reynst einmitt að koma fram nauðsynlegum lagfæringum og nauðsynlegum breytingum í sambandi við kostnaðarskiptingu ýmissa sveitarfélaga.
    Hæstv. menntmrh. var að hrósa sér af Norðurlandi eystra. Það er alger misskilningur t.d. hjá honum ef hann heldur, eins og tillögurnar komu frá fjvn. varðandi framhaldsskólann á Húsavík, að einhver hugmynd hafi verið uppi um það í fjvn. að greiða eina einustu krónu af stofnkostnaði framhaldsdeildanna þar. Allur sá stofnkostnaður átti að falla á Húsavíkurkaupstað. Það er borðliggjandi. Við höfum það á borðinu fyrir framan okkur þannig að það þýðir ekkert að vera að vingsa einhverjum orðum hér sem ekki er hægt að standa við. Hitt held ég að skipti okkur meira máli hvort einhver misskilningur hafi komið fram milli menntmn. og Sambands ísl. sveitarfélaga. Skilaboðin til okkar eins og þau eru orðuð voru skýr. Þeir bjuggust við að fjármálakaflarnir tækju gildi 1. janúar eins og lög segja til um og bréfin verða ekki skilin öðruvísi en svo að sveitarfélögin sjái hagsmuni sína í því. Þetta er alveg skýrt.
    Varðandi svo skólanefndirnar: Ef borin er saman ræða hæstv. menntmrh. um
skólanefndirnar við 1. umr. málsins og nú við 2. umr. kemur undir eins í ljós að rök hæstv. menntmrh. eru allt, allt önnur nú en þá. Þá talaði hann um að það væri tæknilega ekki unnt að skólanefndirnar tækju til starfa um áramótin, að væri faglega ekki hægt. Nú talar hann aftur um að ákvæðin um skólanefndirnar séu efnislega gölluð vegna þess að hæstv. menntmrh. vilji að öðruvísi sé skipað í skólanefndirnar en ákveðið er í lögunum um framhaldsskóla. Það er aftur málefnalegur ágreiningur sem auðvitað er fullkomin ástæða að ræða efnislega við menntmrh. og ég er reiðubúinn að gera það milli 2. og 3. umr. ef hæstv. menntmrh. kýs. Skal ekki standa á mér í sambandi við það.
    Hann spurði í fyrsta lagi hvort ég gæti fellt mig við að hafa breytta skipan á skólanefnd Verslunarskólans. Ég get sagt menntmrh., af því að það er ekkert launungarmál, að ég yrði mjög ánægður yfir því ef Verslunarskólinn sýndi af sér meira sjálfstæði að sumu leyti en hann hefur gert og er mjög til viðtals einmitt við hæstv. menntmrh. um hvernig hægt sé að haga svo landslögum og fjárveitingum til Verslunarskólans og Samvinnuskólans að þessum tveim skólum verði gert mögulegt að vera miklu, miklu sjálfstæðari í sínum rekstri en þeir hafa verið. Um þetta er ég alveg fullkomlega sammála ráðherranum og tel raunar að rétt sé að taka í úttrétta hönd hans um að reyna að vinna að meira sjálfstæði þessara skóla en verið hefur, meira fjárhagslegu sjálfstæði þessara skóla. Ég er mjög sáttur við það. En hvort hússtjórnarskólarnir hafi þessa stjórnun eða hina held ég að sé ekki höfuðmál og skal ekki fara út í þá

sálma.
    Ég vil aðeins vekja athygli á því að að síðustu sagði hæstv. menntmrh. að spurningin væri sú hvort skólanefndirnar sem lagt var af stað með af fyrirrennara hans fengju að verða til eða ekki. Hann sagði: Fyrir því eru engin efnisleg rök. Þetta vissum við allan tímann. Hæstv. menntmrh. hefur játað undir lokin að það var fyrirsláttur með faglegu ástæðurnar. Það var fyrirsláttur að einhverjar menningarlegar eða skólastefnulegar --- ég man ekki fínu orðin sem hann tvinnaði saman við 1. umr, ég man að þar kom fyrir siðfræði, þróun, menning og eitthvað fleira, þær ástæður voru auðvitað fyrirsláttur. Það sem fyrir núv. hæstv. menntmrh. vakir er að þær skólanefndir sem forveri hans hafði ákveðið samkvæmt lögunum að tækju til starfa 1. janúar 1989 skuli ekki taka til starfa. Þetta er hans ákvörðun. Þetta er pólitísk ákvörðun. Ekki skólapólitísk ákvörðun heldur flokkspólitísk ákvörðun og á auðvitað m.a. rætur sínar að rekja til þess að í skólapólitík eins og í allri pólitík er gjá á milli Sjálfstfl. og Alþb., djúp gjá sem okkur hefur ekki tekist að brúa til þess að við hefðum kannski getað tekið saman um önnur mál þar sem við erum sammála, Alþb. og Sjálfstfl.
    Við tveir, ég og hæstv. menntmrh., gerum okkur fullkomlega grein fyrir því að það er óþolandi ástand í þjóðfélaginu að þessir svokölluðu milliflokkar, Alþfl. og Framsfl., geti hagað sér eins og daðurdrósir í landsmálapólitíkinni, ýmist brosað til hægri eða vinstri og í trausti þess að Alþb. og Sjálfstfl. nái ekki saman. Við höfum oft átt tal um þetta, ég og ýmsir af stuðningsmönnum Alþb., sannir sósíalistar og alþýðubandalagsmenn, og við höfum fundið að báðir þessir flokkar, bæði Sjálfstfl. og Alþb., hafa viss prinsip sem þeir vilja standa við. Við stöndum á okkar skoðunum. Við erum ekki eins og vindhani eða skopparakringla.
    Ef maður ætlar að kynna séu t.d. hverjar séu skoðanir Alþfl. í skattamálum dettur engum reyndum Íslendingi sem orðinn er tvítugur í hug að fletta upp í stefnuskrá Alþfl. Menn spyrja: Hvort er hann í stjórn með íhaldinu eða kommum? Og ef hann er í stjórn með íhaldinu flettum við upp í stefnuskrá Sjálfstfl. til að vita hvað Alþfl. vill í skattamálum. Ef hann er í stjórn með kommum spyrjum við: Hvað vill Svavar Gestsson og hvað vill Ólafur Ragnar? Eins er þetta með Framsfl. Framsfl. hefur allra flokka best lag á því að laga sig eftir umhverfinu og minnir stundum á salamöndru í því sambandi. Þess vegna hef ég stundum sagt að gamni mínu að pólitísk barátta hæstv. forsrh. sé í rauninni salamöndrustríð.
    Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa fleiri orð um þetta. Mér þykir vænt um að hæstv. menntmrh. skyldi í lokin koma inn á að ágreiningur okkar um skólanefndirnar er pólitískur ágreiningur, ekki faglegur skólapólitískur ágreiningur heldur af allt, allt öðrum toga og þakka þá hreinskilni sem hann hafði uppi í því sambandi, en ítreka fyrirspurnir mínar til félmrh.: Hvaða viðræður hafa átt sér stað milli félmrn. og sveitarfélaganna, stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga,

um það ákvæði laganna að fresta gildistöku á fjármálaköflum laga um framhaldsskóla?