Framhaldsskólar
Mánudaginn 19. desember 1988

     Frsm. 2. minni hl. menntmn. (Halldór Blöndal):
    Herra forseti. Eins og ég skil ummæli hæstv. félmrh. hefur átt sér stað alvarlegur misskilningur milli nefndarmanna í menntmn. sem sýnir að við gerðum rangt í því að greiða fyrir því að nefndin gæti afgreitt frv. með lítilli skoðun og látið duga að fá bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Það hefði verið miklu skýrara að fá það beint frá sambandinu að það væri sátt við að breytt kostnaðarskipting við framhaldsskóla tæki ekki gildi fyrr en 1. janúar 1990 en að framkvæmdastjóri þess sendi okkur bréf sem ekki verður túlkað á annan veg en þann að það sé sérstakt baráttumál sveitarfélaganna að þessi breytta kostnaðarskipting taki gildi 1. janúar 1989. Ég vil að þetta komi fram, herra forseti, en aðeins ítreka að ég treysti því að mér gefist rúm til að athuga nánar þau atriði sem hæstv. menntmrh. vék að áðan í sambandi við það að lögin væru óbrúkleg. Ég hef í höndum það plagg sem hann vildi rökstyðja það með og tel óhjákvæmilegt að kynna mér það örlítið betur og afla mér upplýsinga því að þetta eru mjög mikil og stór orð og í algerri og hróplegri mótsögn við það sem bréf Sambands ísl. sveitarfélaga ber með sér.