Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Sú þáltill. sem hér er til umræðu um bætta samkeppnisstöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar er kannski af sömu rót og bætt samkeppnisstaða íslenskra atvinnuvega yfirleitt. Á iðntæknisviðinu höfum við góðar stofnanir eins og t.d. Iðntæknistofnun, sem sinnir sínu hlutverki vel, og við höfum góða iðnskóla, iðnfræðslu, og við höfum iðnlánasjóði. Við höfum þetta allt saman. En hvað er það þá sem við höfum ekki? Það vantar hin almennu skilyrði fyrir þetta atvinnulíf. Það vantar almennilega hagstjórn í landinu. Það er tími til kominn að efnahagsráðgjafar hætti að spyrja hvað mikið vanti í kassann, hvað mikið sé hægt að sækja í atvinnulífið, hvar sé hægt að láta greipar sópa um íslenskt atvinnulíf og hirða í ríkishítina. Þessu eiga menn að hætta að velta fyrir sér og huga í staðinn að því hvað atvinnulífið þoli mikið. Það er einmitt það sem íslenskur skipasmíðaiðnaður þarf á að halda. Íslenskir atvinnuvegir þurfa á að halda réttri gengisskráningu, líka íslenskur skipasmíðaiðnaður. Gengisskráning er ekki eitthvað sem ráðherrar geta haft eins og þeim sýnist. Gengisskráning á að endurspegla ástandið í hagstjórn á Íslandi. Hún á að vera nokkurs konar loftvog ef hæstv. ráðherrum er kunnugt um hvers konar tæki það er.
    Valkostirnir í sambandi við íslenskan skipasmíðaiðnað eru þeir sömu og í öðrum atvinnuvegum. Valkostirnir eru þeir að hæstv. ráðherrar og ríkisstjórn og efnahagsráðgjafar sérstaklega fari að velta fyrir sér hvað atvinnulífið þoli mikla skattheimtu og hvað launþegar í landinu þoli mikla skattheimtu. Hvað þolir íslenskur veikur fjármagnsmarkaður að ríkissjóður sæki stóran part þangað? Það eru þessar spurningar sem menn þurfa að íhuga og hugsa þessa hluti frá sjónarhóli raunveruleikans en ekki frá þeim sjónarhóli hvað sé hægt að láta fógetann sópa miklu í kassann.
    Þegar menn hugsa á þennan hátt verða svörin allt öðruvísi en ýmsar þær hugmyndir sem hér eru uppi um skattheimtubrjálæðið. --- Ég ætla að leyfa mér að nota það orð.
    Og ég ætla að halda áfram að segja þetta hér aftur og aftur, þó svo að menn verði hundleiðir á því, þangað til að einhver skilningur verður fyrir því að það sé bætt hagstjórn í landinu sem þarf til þess að íslenskur atvinnuvegur fái þrifist og þar á meðal íslenskur skipasmíðaiðnaður.