Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Ég held að það sé tímabært að ræða um bætta samkeppnisaðstöðu innlends skipaiðnaðar og því er þessi tillaga hv. flm. Stefáns Guðmundssonar tímabær og má segja þó fyrr hefði verið. En ég var byrjaður að ræða í mjög naumum ræðutíma iðngreinar sem eru hliðstæðar skipasmíðaiðnaðinum að því leytinu til að vandamál þeirra eru hliðstæð hvað þetta frv. snertir, iðngreinar sem hafa horfið vegna sjónarmiða sem voru lík þeim sjónarmiðum sem ríkja varðandi skipasmíðaiðnaðinn, horfið á þann hátt að þekkingin er ekki til lengur í annarri iðngreininni og þekkingin var að hverfa vegna þess að menn eldast, þeir sem voru í hinni, en fengu þó tækifæri til að hefja sína iðn á ný.
    En ég vil fyrst, ef hæstv. iðnrh. vildi taka eftir því sem ég ætla að segja núna, fagna því að mér skildist á hans tali áðan að hann sé að komast á hliðstæða skoðun og ég hafði þegar ég var iðnrh. og ég gerði tillögu um ákveðna fyrirgreiðslu fyrir skipaiðnaðinn sem slíkur og ég heyri líka að hv. 2. þm. Norðurl. e. telur þá lausn vera fullnægjandi fyrir sig, en það er að takmarka mjög lánveitingar til nýbygginga eða viðgerða erlendis ef hægt er að vinna verkefnið hérlendis. Tillaga mín sem iðnrh. í ríkisstjórn Íslands á þeim tíma var einmitt um það að banna, taka alveg fyrir öll lán eða fyrirgreiðslu af opinberu fé til að halda uppi vinnumarkaði erlendis í samkeppni við vinnumarkaðinn hér. Á þeim tíma gerði ég tillögu um það að þegar tilboð berst erlendis frá verði það borið saman við innlend tilboð á þann hátt að allir opinberir skattar af innlenda tilboðinu hverju nafni sem þeir nefnast, og þá tek ég útsvör líka með sem skatta, allt sem heitið getur álag, verði dregið frá íslenska tilboðinu til að fá jafnan samanburð vegna þess að íslenska ríkið fær ekki krónu í opinber gjöld af erlendu tilboðunum þannig að samanburður getur aldrei verið jafn nema þetta sé gert. Þar fyrir utan á að ákveða hvað mörgum prósentustigum íslenska tilboðið má vera hærra til að það sé tekið fram yfir erlend tilboð. Þetta var kolfellt í ríkisstjórn Íslands og sérstaklega var nú hæstv. sjútvrh. algerlega á móti því að beita slíkum fantabrögðum við Fiskveiðasjóð Íslands. En Fiskveiðasjóður er opinbert fé og þetta opinbera fé er notað til að gera íslenskum fyrirtækjum erfiðara fyrir en þeim útlendu og þá sérstaklega þegar við tökum tillit til þess að það er næstum því útilokað að fá nokkra bankaábyrgð til innlendra verktaka hvort sem það er nýsmíði eða viðgerðarkostnaður, en það er greið leið fyrir erlend fyrirtæki að fá sams konar bankaábyrgð. Að sjálfsögðu er hugsunin sú að erlendu fyrirtækin hreinlega bjóða skipin upp og selja þau erlendis fyrir kostnaðinum, en ef það er gert af íslensku fyrirtækjunum er það allt í lagi vegna þess að skipið fer ekki úr landi. Þessi hugsunarháttur gengur ekki. Slíkan ójöfnuð skapar það á milli erlendra og innlendra aðila.
    Ég held að það sé nokkuð skýrt hvað ég óskaði eftir að fá heimild til að gera sem ráðherra og ég fagna því að hv. 2. þm. Norðurl. e. skuli vera kominn

á þessa skoðun. Ég fagna því og vona um leið að ég hafi ekki misskilið eða misheyrt ræðu hæstv. iðnrh. áðan þar sem mér fannst hann vera kominn inn á þessa leið að einhverju leyti a.m.k.
    Nú ætla ég að segja sögu af tveimur iðngreinum sem hurfu vegna nákvæmlega sama skilnings og sömu meðferðar. Það var fyrir nokkrum árum, áratugum reyndar, líklega fyrir og um 1970, að ein blómlegasta framleiðslugrein Rafha í Hafnarfirði voru straumbreytar og við notum mikið af straumbreytum á vegum ríkisins. Það eru Rafmagnsveitur ríkisins sem eru aðalviðskiptavinur á því sviði. Raftækjaverksmiðjan í Hafnarfirði gat fullnægt með framleiðslu sinni ársþörf íslensku þjóðarinnar, Rafmagnsveitna ríkisins, hefði verksmiðjan fengið að framleiða eftir getu sinni með stanslausri framleiðslu og jöfnum afgreiðslum til rafmagnsveitnanna. En hvað skeður? Rafmagnsveitur ríkisins bjóða ársmagnið út og krefjast afgreiðslutíma á miklu magni á mjög skömmum tíma sem þýddi að raftækjaverksmiðjan í Hafnarfirði varð ekki samkeppnisfær um afgreiðslu á sama tíma sem hún hafði framleiðslugetu til að fullnægja þörfum ríkisins og var samkeppnisfær í verði. Niðurstaðan varð sú að raftækjaverksmiðjan varð að leggja niður framleiðslu á straumbreytum, það eru orðnir nokkrir áratugir síðan það var gert, og þekkingin er ekki lengur fyrir hendi vegna þess að fólkið sem vann við þetta endurnýjaðist ekki þegar gömlu mennirnir luku sinni starfsævi. Þetta þýðir að straumbreytar eru ekki lengur framleiddir í rafmagnsverksmiðjunni Rafha í Hafnarfirði.
    Á nákvæmlega sama hátt var farið að flytja út yfirbyggingar á langferðavögnum, yfirbyggingar fyrir Strætisvagna Reykjavíkur og yfirleitt yfirbyggingar á hina stóru bíla sem fara sístækkandi og verða sífullkomnari. Þessi vinna var öll keypt erlendis og mestmegnis voru bílarnir fluttir þaðan sem þeir voru framleiddir til Belgíu því að Belgía var eitthvað ódýrari en aðrar þjóðir sem buðu. Þegar þessi iðnaður hafði verið lagður niður, bílasmiðjan hér var hætt en fólkið var enn þá til sem kunni til verka, þá breytti Reykjavíkurborg um ákvarðanir og samþykkti íslensku tilboðin sem voru ekki verri vinna að neinu leyti, eins og þeir sem nota almenningsvagna, bæði innlenda og erlenda, geta borið saman. Þetta gekk meira að segja svo langt í upphafi til þess að fá þessa iðngrein af stað aftur og til að fá þessa iðn til að lifa, að það voru ef ég man rétt milli 20 og 30 stætisvagnayfirbyggingar pantaðar hjá verksmiðjunni og 20--30% dýrari en tilboðið var lægst frá útlöndum. En iðngreinin lifnaði við og blómgaðist um tíma. Nú veit ég ekki hvernig stendur því að ég hef ekki fylgst sérstaklega með því. Það getur vel verið að hún hafi lognast út af aftur af sömu ástæðum og hér er rætt um erfiðleika innlends skipasmíðaiðnaðar.
    Allt er þetta gert á kostnað opinberra sjóða. Það álít ég vera misnotkun. Ég held að við komumst í íslenskum iðnaði á hvaða stigi sem er og hvaða sviði sem er niður í samkeppnisfært verð ef opinberir aðilar, hvort sem það eru sveitarfélög eða ríkið, ætla

sér nákvæmlega sama í tekjur frá erlendum aðilum og innlendum aðilum eða öfugt. Opinberir aðilar fá ekkert í skatta af því sem þeir fjármagna erlendis og þeir eiga á þann hátt að viðhalda vinnumarkaðnum með innlendum iðnaði. Það er þetta sem ég hefði viljað leggja áherslu á, virðulegi forseti, sem ég byrjaði á í styttri ræðutíma, en forseti bað mig um að hefja ekki umræður um slíkt stórmál í þeim stutta ræðutíma.
    Ég fylgist að sjálfsögðu með því sem hæstv. iðnrh. á eftir að segja hér. Ég reikna með að hann telji þörf á að koma aftur upp í ræðustólinn til að svara ef hann finnur hvöt hjá sér til. Geri hann það óska ég eftir því að hann endurtaki það, sem ég hélt að ég hefði heyrt, staðfesti eða hafni, að hann muni stuðla að því að Fiskveiðasjóður og aðrir opinberir sjóðir láti íslenskan iðnað hafa algeran forgang þó að hann sé ekki reiðubúinn að ganga eins langt og ég vildi ganga, að banna innlendum opinberum sjóðum að fjármagna vinnumarkaðinn erlendis í samkeppni við íslenska aðila.
    Við erum lítið samfélag, við erum stór fjölskylda og það er dýrt, tiltölulega og hlutfallslega miklu dýrara fyrir okkur að vera sjálfstætt ríki og þess vegna verðum við að halda uppi vinnumarkaði, halda uppi menningarstarfsemi og halda ýmsu uppi sem er hlutfallslega mörgum sinnum dýrara en hjá stórþjóðum. Það eru ekki margar stórþjóðir landfastar á alla kanta sem hafa kostnað við sams konar strandlengju og við með jafnfáu fólki t.d. Sama má segja um íslenskan iðnað ef við berum það saman við okkar löngu strandlengju. Við verðum að taka á okkur innlendan kostnað. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum litlir og það kostar talsvert að vera sjálfstæðir.
    Meira hef ég ekki að segja um þetta, en mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra vildi staðfesta eða hafna skilningi mínum að hans vilja um að nota íslenska sjóði fyrst og fremst og helst eingöngu fyrir íslenskan iðnað, í þessu tilfelli fyrir skipasmíðastöðvarnar, en ekki fyrir útlendan vinnumarkað.