Vinnubrögð í fjárhags- og viðskiptanefnd og
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Matthías Á. Mathiesen:
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. orðaði það svo, held ég, í sinni ræðu áðan að vinnubrögðin væru með eðlilegum hætti hér á Alþingi þessa dagana. Hann var auðvitað að ræða um vinnubrögðin í hv. fjh.- og viðskn. og út frá því sem hefur verið til umræðu varðandi þau frv. sem þar hafa verið.
    Þegar við virðum aðeins fyrir okkur þessar fáu mínútur sem þessi umræða hefur átt sér stað spyr ég: Gefa þær nú ástæðu til þess að menn hafi þá skoðun að vinnubrögðin hér á Alþingi séu með eðlilegum hætti þessa dagana? Þvert á móti. Hér hafa fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokkanna, sem sæti eiga í fjh.- og viðskn., komið og lýst furðu sinni á gangi mála og ég verð að segja það sem gamall formaður í fjh.- og viðskn. að ég skil það mætavel eftir því sem mér hefur verið sagt --- nú ætti ég auðvitað eftir að heyra hvernig málflutningur hv. formannsins væri, a.m.k. umfram þann sem var hér áðan. Ég verð að segja það að hans forvera, þeim mæta þingmanni Skúla Guðmundssyni, hefði ekki líkað þessi vinnubrögð þegar hann sat sem stjórnarandstæðingur í fjh.- og viðskn. hér á þingi forðum daga og ég gegndi formennsku í nefndinni. Þetta væru ekki vinnubrögð af hans tagi. Nú ég trúi líka að þar séu fölmargir aðrir sem taka mundu undir.
    Þá hefur einn af fulltrúum minni hl. í fjvn., hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson, komið hér og gert mjög ítarlega grein fyrir vinnunni sem þar er eftir og með hvaða hætti staðið hefur verið að þeim málum og gert mjög skilmerkilega grein fyrir því hvernig tíminn til jólahátíðar er með tilliti til þeirrar vinnu sem þar er eftir.
    Ég held að það sem hér hefur verið sagt sé með þeim hætti að það verði að staldra við. Mín skoðun er sú að vinnubrögðin séu ekki með eðlilegum hætti og ég vil þá undirstrika að þar á ég hvorki við forseta í neðri deild eða forseta þingsins. Ég veit að þeir reyna að gera hlutina með þeim hætti sem þeir telja eðlilegast og meta að fært sé. Það eru hins vegar, eins og hér réttilega kom fram áðan, ákveðnir aðilar sem þrýsta á. Nú og að sjálfsögðu hefur stjórnarandstaðan viljað hafa nokkuð um það að segja með hvaða hætti og í hvaða röð mál verða hér tekin fyrir.
    Hv. formaður fjh.- og viðskn., 1. þm. Norðurl. v., sagði að allt í einu hefði það nú komið upp að stjórnarandstaðan hefði sett skilyrði um það að tekjuöflunarfrv. færu fyrst í gegn. Hvað eru fjárlög ríkisins annað en greinargerð um tekjur og gjöld ríkisins samkvæmt þeim lögum sem gilda í landinu þegar fjárlögin eru samþykkt? Það sem menn hyggjast gera hér er það að búa til tölur inn í fjárlagafrv. og samþykkja fjárlög ársins 1989 án þess að Alþingi sé búið að samþykkja. Og ég segi: Þessir hlutir gerast ekki nema menn fari offari í því að reyna að koma málum fram, og er engu þjóðþingi til sóma að þannig sé staðið að.
    Hér er vikið að því að kl. 4 í dag er boðaður fundur í fjh.- og viðskn. ( Gripið fram í: Kl. 5.) Kl. 5 í fjh.- og viðskn. Það á að ræða

tekjuöflunarfrumvörpin. Kl. 4 var hins vegar boðaður fundur í fjvn., og þar á væntanlega að ræða undirbúning fyrir 3. umr. fjárlaga. Ég hefði einhvern tíma átt von á því að heyra frá þingmönnum að slíkir hlutir gætu ekki gerst. Það er auðvitað það sem menn eru að gera hér í dag.
    Það er tekið fram af nefndarmönnum fjh.- og viðskn. að afgreiðsluhætti í morgun hafi verið mótmælt af þeim öllum, en samt sem áður voru þessi mál afgreidd út úr nefndinni. Þannig var það a.m.k. í mínum flokki að sá nefndarmaður sem þar situr hafði ekki í höndunum það sem samþykkt hafði verið af meiri hl. nefndarinnar í morgun til þess að skýra þingflokknum frá því hvað það væri sem hér ætti að leggja fram og gera tillögu um í sambandi við vörugjaldsbreytingar. Þannig eru þessi vinnubrögð, það er keyrt áfram, og ég vil leyfa mér að beina orðum mínum til hæstv. forsrh., sem vissulega hefur hér mikið að segja um gang mála, að hann beiti sér fyrir því nú að umræður fari fram með forsetum og formönnum stjórnmálaflokkanna til þess að hægt verði að setja niður tímaáætlun fyrir þau verkefni sem fyrir liggja. Við eigum eftir fimm umræður um tekju- og eignarskatt. Við eigum eftir tvær umræður um bráðabirgðalög. Ég sagði við forsrh. hér í dag: Svo koma blöðin og segja að stjórnarandstaðan sé með málþóf. Hér var umræða um bráðabirgðalögin í gær og sá sem lengst talaði var hæstv. forsrh., sem ekkert var óeðlilegt þegar var verið að ræða þetta mál, en umræðan stóð frá miðjum degi í gær og fram undir miðnætti og var að mínum dómi með öllu mjög eðlileg. Við eigum hins vegar eftir að ræða tekju- og eignarskattsfrv. í fimm umræðum, vörugjaldsfrv. í fimm umræðum. Við eigum eftir 3. umr. fjárlaga. Við eigum eftir atkvæðagreiðslu við 3. umr. fjárlaga. Það er ósköp auðvelt að setja þetta niður á blað og gera sér grein fyrir því hvernig hægt er að koma þessu áfram og vinna þannig. Ég endurtek: Ég trúi því að hæstv. forsrh. láti nú verða af því að boða menn saman og ná samstöðu um það hvernig að þessum málum verður staðið. Ég trúi ekki öðru en að forsetar séu tilbúnir til þess að liðka til með þá hluti eftir því sem til vinnst.