Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Frsm. félmn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Nefndin hefur fjallað um frv. og leggur til að það verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali, segir í nál. Efnislega er sú eina breyting gerð að í 2. mgr. 2. gr. falli orðin ,,allt að`` brott, þannig að skýrt verði að leigutaki þurfi að kaupa 15% kostnaðarverðs eða kaupverðs íbúðar til að tryggja sér ótímabundinn afnotarétt.
    Aðrar breytingar lúta einungis að breyttri framsetningu frv. og uppröðun greina. Þannig að á eftir 1. gr. komi ný grein er orðist svo: ,,6. og 7. mgr. 92. gr. laganna falli brott.`` Þær málsgreinar koma síðar fyrir í nýrri 94. gr.
    Við 2. gr., er verði 3. gr., er í fyrsta lagi gerð sú breyting að orðin ,,allt að`` í 2. mgr. falla brott, eins og ég vék að áðan, og í öðru lagi að 4., 5. og 8. mgr. falli brott, en þær koma aftur í nýrri 94. gr.
    Á eftir 2. gr., er verði 3. gr., komi ný grein er verði 4. gr. og orðist svo: ,,Á eftir 93. gr. komi ný grein, 94. gr., og töluröð annarra greina breytist samkvæmt því.`` Sú grein er sett fram í brtt. frá félmn.
    Á fund nefndarinnar komu Ingi Valur Jóhannsson frá félmrn., Þórarinn V. Þórarinsson frá VSÍ, Björn Þórhallsson og Grétar Þorsteinsson frá ASÍ og Sigurjón Þorbergsson og Reynir Ingibergsson úr stjórn Búseta.
    Fram kom hjá umsagnaraðilum að hið nýja fyrirkomulag væri þáttur í hinu félagslega kaupleigukerfi og veitti engan sérstakan forgang eða réttindi umfram það sem almennt gildir í félagslega kerfinu. Almennt töldu umsagnaraðilar rökrétt að þetta frv. væri flutt og að þessi viðbót yrði gerð á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Í umræðum í nefndinni kom fram að í athugasemdum við upphaflegt lagafrv. hefði verið gerð grein fyrir því að það sem hér um ræðir, þ.e. frv. um hlutareign, hafi ekki verið lögfest í félagslega hluta kaupleigukerfisins þar sem ekki hafi náðst samstaða þáv. stjórnarflokka þar um. Það þótti staðfest að í frumdrögum þeim sem þingmenn fengu til umfjöllunar á síðasta þingi hafi viðkomandi lagagreinar ekki verið fyrir hendi þannig að ágreiningur um þær hafi ekki getað orðið af skiljanlegum ástæðum. Þess vegna þótti rétt að taka það fram að setningin ,,að ekki hafi náðst samstaða þáv. stjórnarflokka`` hafi ekki verið alls kostar rétt á því stigi.