Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hér er til umræðu afmarkað svið húsnæðislöggjafarinnar sem að vísu er ekki mikill ágreiningur um eitt út af fyrir sig eins og það liggur hér fyrir. Það hefur komið fram í máli nefndarmanna úr hv. félmn. sem hér hafa lýst nefndarálitum. Það er hins vegar táknrænt fyrir stjórn á húsnæðismálum að einmitt þetta afmarkaða frv., sem tekur til mjög takmarkaðs hluta af löggjöfinni um húsnæðismálin, skuli vera sett á forgangslista hæstv. ríkisstjórnar fyrir þessi áramót og sett í flokk þeirra mála sem mikilvægust eru. Vitaskuld ber að fagna því að þetta skuli hafa verið gert, en einmitt fyrir það hve frv. er smátt í sniðum er það um leið táknrænt fyrir störf hæstv. ríkisstjórnar að húsnæðismálum og táknrænt fyrir störf Alþfl. í þeim efnum.
    Hæstv. félmrh. hefur mjög stuttlega drepið á það sem á döfinni er varðandi heildarendurskoðun húsnæðislöggjafarinnar, en í engu getað gefið skýr svör um hvert stefnir í því efni. Flest bendir auðvitað til þess að áfram muni halda í þeim farvegi, sem hér hefur verið markaður, að eitt og eitt atriði þessarar löggjafar verði tekið út úr til endurskoðunar og engin almenn heildarendurskoðun með markvissri stefnumörkun eigi sér stað. Ekkert bendir til þess að um það takist samstaða. Þvert á móti mátti lesa úr orðum hæstv. ráðherra að verulegur ágreiningur væri um þær tillögur sem þegar liggja fyrir og ná þær þó ekki til húsnæðislöggjafarinnar í heild sinni.
    Ég saknaði þess hins vegar alveg sérstaklega í máli hæstv. ráðherra, fyrst hæstv. ríkisstjórn kaus að gera þetta mál að forgangsmáli fyrir jólaleyfi þingmanna, að hæstv. ráðherra skyldi ekki gera nákvæma grein fyrir því hvernig staða fjármála Húsnæðisstofnunar og húsnæðissjóðanna er. Ég geri ráð fyrir því að fyrir jólaleyfi verði reynt að afgreiða lánsfjárlög ríkisstjórnarinnar. Þau eru líka á forgangslista hæstv. ríkisstjórnar. Enn sem komið er hafa þau þó ekki komið til umræðu og eftir því sem ég veit best eru þau enn í nefnd í fyrri deild. Óhjákvæmilegt er þó að þau séu afgreidd samhliða fjárlögum og annarri stefnumótun í efnahags- og atvinnumálum sem hér er til umfjöllunar. Hver er staðan að því er varðar fjármálastöðu húsnæðissjóðanna? Hvernig standa samningar við lífeyrissjóði? Hverjar eru áætlanir um ráðstöfunarfé sjóðanna? Hvernig standa þær áætlanir gagnvart umsóknum og þegar afgreiddum umsóknum og skuldbindingum Húsnæðisstofnunar? Hvernig líta þær áætlanir út um ráðstöfunarfé varðandi fjármála- og peningamálastefnu hæstv. ríkisstjórnar? Við hvaða vaxtastig miðast áætlanir um ráðstöfunarfé húsnæðissjóðanna á næsta ári? Við hvaða stefnu í vísitölumálum miðast þær áætlanir?
    Það er alveg nauðsynlegt fyrst hæstv. ríkisstjórn hefur gert þetta mál að forgangsefni að hæstv. ráðherra geri hér skýra grein fyrir fjármálastöðunni í heild sinni, stefnunni í peningamálum og á hvaða forsendum áætlanir um ráðstöfunarfé húsnæðislánasjóðanna eru reistar, við hvaða vaxtastig er miðað og út frá hvaða vísitölu er gengið. Ég óska

eftir því að hæstv. ráðherra svari þessum spurningum.
    Það er líka táknrænt að þetta afmarkaða mál skuli nú tekið hér fyrir með þessum hætti og gert að forgangsmáli. Það fer ekki hjá því að mönnum detti í hug að það eigi að draga fjöður yfir hina raunverulegu stefnu í húsnæðismálum sem hæstv. félmrh. er að beita sér fyrir á hinu háa Alþingi fyrir jólin. Það á að flytja hér frv. og fá það fram sem forgangsmál um afmarkað svið húsnæðislöggjafarinnar, en hin raunverulega stefna hæstv. félmrh. í húsnæðismálum kemur fram í öðrum frv. Sú stefna kemur fram í því að nú á að stórhækka byggingarkostnað. Það á að stórhækka allt efni með nýjum skattaálögum til byggingarframkvæmda. Og ekki bara efni til byggingarframkvæmdanna. Það á að hækka skattana á innréttingunum og það á að hækka skattana á húsbúnaðinum sem hinir ungu húsbyggjendur þurfa að afla. Þarna birtist hin raunverulega stefna hæstv. félmrh. í húsnæðismálum núna fyrir þessi jól. Og þegar unga fólkið í landinu ætlar svo að mæta þessum nýju skattaálögum og aukna og hækkaða byggingarkostnaði með því að afla meiri tekna birtist í öðru lagi stefna hæstv. félmrh. í húsnæðismálum með því að taka þær auknu tekjur í ríkissjóð, hækka skattana á unga fólkinu sem þarf að auka vinnu sína til að koma sér þaki yfir höfuðið, hækka tekjuskattana á því unga fólki. Þetta er hin raunverulega stefna hæstv. félmrh. Og svo þegar þetta unga fólk sligast undan nýjum álögum og hækkuðum byggingarkostnaði og auknum tekjusköttum og þarf að leita til Húsnæðisstofnunar með lánafyrirgreiðslu, kannski vegna húsnæðiserfiðleika vegna þess að það hefur ekki getað staðið í skilum með almenn lán, ætlar hæstv. ráðherra að bæta um betur og leggja nýja skatta á Húsnæðisstofnunina. Þetta er hin nýja stefna og væri ágætt ef hæstv. ráðherra vildi í þessari umræðu gera grein fyrir þeirri félagslegu hugsjón sem að baki þessu liggur. En umfram allt er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra geri grein fyrir fjárhagsstöðu byggingarsjóðanna.