Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Það er spaugilegt jafnan þegar hv. 3. þm. Vesturl., formaður fjh.- og viðskn., er að reyna að dreifa ábyrgðinni og getur ekki almennilega staðið undir henni einn. Nú er verið að tala um að lög sem sett voru 4. mars sl. og áttu að falla úr gildi 31. des. 1988 skuli framlengd. Hann er að tala um það og er að reyna að koma því inn, væntanlega til þess að láta prenta það í Alþýðublaðinu, að við sjálfstæðismenn berum ábyrgð á þessu. Það er algerlega úr lausu lofti gripið, mjög ómerkilegur málflutningur og hefði kannski verið skiljanlegt að þingmaðurinn héldi þessu fram ef hann gæti fært einhver skynsamleg rök fyrir því að ástæður væru hliðstæðar í þjóðfélaginu núna og þegar frv. var lagt fram um skattinn á sínum tíma í febrúarmánuði, en það er síður en svo að svo sé.
    Hins vegar sé ég, hæstv. forseti, ástæðu til þess að rifja það upp að einmitt það þing sem þessi hv. þm. sat fyrst voru ýmsir ungir og vaskir kratar á þinginu og þeir töluðu mikið um að nú væri sannarlega kominn tími til að skipta um vinnubrögð. Og þeir töluðu um það að það væri þýðingarmesta atriðið í því sambandi að taka upp svonefnt sólarlagsákvæði í lögin. Það átti ekki aðeins að setja lög heldur átti líka að slá því föstu í lögunum sjálfum hvenær þau ættu að ganga úr gildi. Þeir ungkratar sem þá komu inn á þingið voru að vísu ekki þolgóðir í stjórnarsamstarfi þegar þar að kom og væri kannski ástæða til að rifja það upp pínulítið líka hvernig þeir hafa reynst í stjórnarsamstarfi, en þá gáfust þeir undir eins upp. Þá voru þeir að tala um þetta. Svo fengu þeir ábyrgðina og síðan hafa þau viðhorf nokkuð breyst. En áráttan vaxið með hverju árinu sem hefur liðið að viðhalda öllum sköttum í þjóðfélaginu, sama hvers eðlis skattarnir séu. Ef einu sinni er búið að leggja á skatt, segja kratar, skulum við halda þeim skatti. Þeir eru meira að segja svo djöfullegir í skattheimtunni að á þeim tíma sem okkur tókst með hjálp framsóknar frá 1974 til 1978 aðeins að lækka tekjuskattinn og gera hann viðráðanlegan gripu þeir til þess strax um haustið 1978 í septembermánuði að gefa út sérstök brbl. um að það skyldi leggja tekjuskattinn á á nýjan leik og eignarskattinn á á nýjan leik. Það var kallaður tekjuskattsauki og eignarskattsauki. Þeim þótti gamli íhaldsskatturinn ekki nógu hár og þess vegna brugðu þeir á það ráð að láta skattstjórana gefa út tvær skattskrár það árið, eina með gömlu sköttunum og svo sérstaka krataskatta um haustið.
    Síðan sátu þeir í ríkisstjórn fram í septembermánuð árið 1979 og gáfust þá upp. Þá hjálpuðum við þeim krötum til að mynda minnihlutastjórn og fórum í kosningar, en um leið og kosningarnar voru búnar sögðu kratar: Við viljum ekki samstarf við Sjálfstfl. Allt er betra en íhaldið. Við skulum mynda ríkisstjórn með öllum öðrum en sjálfstæðismönnum. Þannig var það úthald.
    Síðan reyndum við á nýjan leik nú og mynduðum ríkisstjórn með krötum vorið 1987 og það stóð heima. Þeir dugðu fram í september árið eftir. Þá gáfust þeir

upp, kiknuðu undan ábyrgðinni. Að vísu er það svo með frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. að honum þykir betra að hafa gamla íhaldið hjá sér ef hann þarf að bera ábyrgð á einhverju. Nú þarf hann að bera ábyrgð á því að framlengja skattinn og þá segir hann að það eigi líka að kenna íhaldinu um. Þannig talar hann, sá góði maður.
    Nú bíður maður spenntur eftir því að næsti september renni upp. Ætli kratarnir lifi af að hanga í stjórninni út þann septembermánuð? Það verður fróðlegt að sjá það. Hitt er öldungis ljóst að úthald hafa þeir ekki þeir ungkratar og best kemur það fram í því, eins og ég sagði áðan, að ef þeir halda að eitthvað sé óvinsælt reyna þeir ævinlega að klína því á aðra í staðinn fyrir að reyna að standa á fótunum og bera sjálfir ábyrgð á því sem þeir eru að gera og reyna að flytja það mál eins og menn.
    Hver var ástæðan fyrir því að við lögðum þennan umdeilda skatt á í marsmánuði 1988? 4. mars 1988 eru lögin staðfest. Ástæðan var sú að eftirspurn eftir vinnuafli var þá enn mjög mikil í landinu og var komið í ljós að ýmsir þeir sem báru ábyrgð á rekstri fyrirtækja höfðu ekki áttað sig á þeim samdráttareinkennum sem orðið var vart í þjóðfélaginu og höfðu tilhneigingu til að halda sama strikið. Að vísu lá fyrir að virðisaukaskattur yrði tekinn upp á næsta ári, en það var ekki nægileg bremsa og af þeim sökum var ákveðið að reyna að draga úr erlendum lántökum með því að leggja tímabundið á ákveðið lántökugjald, 2, 4 og 6% eftir ástæðum og eftir lánaflokkum. Á þessu ári hafa síðan orðið meiri breytingar í atvinnulífinu en menn sáu fyrir. Sú þensla sem þá raunverulega var í þjóðfélaginu er fyrir löngu horfin. Það er þess vegna algerlega út í bláinn að einhverjar forsendur séu fyrir því að leggja slíkt lántökugjald á fyrirtækin í landinu, algerlega ástæðulaust. Þvert á móti er óhjákvæmilegt, vil ég segja, að fella niður þessa skattlagningu ef menn vilja standa að nauðsynlegum ráðstöfunum til þess að aftur glaðni yfir atvinnulífinu og til að örva menn til dáða.
    Ég man ekki betur en hæstv. forsrh. sé mikið að tala um það í báðum þingdeildum og líka í sameinuðu þingi og líka í blöðum og líka í sjónvarpi og líka í útvarpi að vaxtakostnaður og fjármagnskostnaður sé mikill hjá
fyrirtækjunum. Hann kemur með langa talnarunu til að sýna fram á það. Hvernig í ósköpunum stendur þá á því að hann skuli vilja halda sig við þennan skatt sem þýðir 6% eignaupptöku á þeim erlendu lánum sem tekin eru og falla undir skattinn? Hvernig stendur á því? Ekki er það til að lækka fjármagnskostnaðinn. Það er nú svo um orðaskipti mín og hæstv. forsrh. að ég verð helst að spyrja hann með formlegum hætti í fyrirspurnatíma í sameinuðu þingi til þess að hann svari einstökum fyrirspurnum, en það væri hægt að spyrja hann: Ef fjármagnskostnaðurinn hefur verið of hár hjá þeim fyrirtækjum í fiskvinnslu og útgerð sem erfiðast eiga, er þá ekki ástæða til að létta þessu lántökugjaldi af þeim á árinu 1988?
    Nú veit ég ekki hvort hæstv. sjútvrh. er einhvers

staðar þar staddur að hann megi orð mín heyra. Ég veit að forsrh. heyrir til mín út á Austurvöll. En ég veit ekki hvort hann hefur jafngóða heyrn, sjútvrh. Ætli það sé nokkur vegur að gera ráðstafanir til að koma orði að honum, víkja að honum einu orði? ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til að sækja hæstv. sjútvrh.) En á meðan verið er að ná í ráðherrann mun ég gera grein fyrir síðari brtt. sem við flytjum saman fulltrúar Sjálfstfl. og Borgfl. í fjh.- og viðskn., ásamt mér Eyjólfur Konráð Jónsson og Júlíus Sólnes.
    Við leggjum til að við 19. gr. laganna 4. mgr. bætist tveir nýir tölul. og snýr annar að skipasmíði og skipasmíðaverkefnum og hljóðar svo þegar hann er settur í rétt samhengi: Fjmrh. er heimilt að undanþiggja eftirtalda lánssamninga gjaldi samkvæmt þessum kafla: Lán sem tekin hafa verið eftir gildistöku laga þessara eða tekin verða vegna smíði, endurbóta eða viðhalds á fiskiskipum, enda sé verkið unnið hér á landi.
    Í nefndinni gerði Þórleifur Jónsson, framkvæmdastjóri Landssambands iðnaðarmanna, sem Félag dráttarbrauta og skipasmiðja heyrir undir, okkur grein fyrir því að verulega skorti á að skipasmíðastöðvarnar slyppu við lántökugjaldið vegna verkefna sinna eða þeir útgerðarmenn sem við skipasmíðastöðvarnar skipta. Ætti það raunar ekki aðeins við varðandi vinnu heldur líka varðandi 2. tölul. þessarar mgr., þar sem segir: ,,Lán vegna hráefnakaupa fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisiðnaði. Sama á við um lán sem tekin eru erlendis vegna reksturs flugvéla og kaupskipa.`` Hann gerði okkur grein fyrir því að í verulegum atriðum félli lántökugjaldið ekki á lán sem tekin væru vegna t.d. fiskleitartækja svo ég taki eitthvert dæmi. Hins vegar félli vinna í skipasmíðastöðvum ekki undir undanþáguákvæðið og heldur ekki einstök tæki eða aðföng skipasmíðastöðva.
    Eftir fundinn sendi hann nefndinni síðan svohljóðandi bréf, minnisblað, sem það er kallað, sem dagsett er 20. des. og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Í framhaldi af fundi undirritaðs með nefndinni í morgun er rétt að árétta að vandamál skipaiðnaðar við að fá niðurfellt lántökugjald af hlutum, hráefni til skipasmíða og -viðgerða er verulegt vegna erfiðleika á að skilgreina sem hráefni fullbúna hluti, ,,komponenta``, sem hægt er að nota til annars en smíði eða viðgerða skipa. Þetta vandamál er meira en fram kom hjá undirrituðum á fundinum. [Þessi málsgrein er undirstrikuð hjá Þórleifi Jónssyni.]
    Þegar betur er að gáð kemur í ljós að fjölmörg vörunúmer tilheyrandi skipaiðnaði vantar í reglugerð fjmrn. nr. 178/1988 sem heimilar niðurfellingu lántökuskattsins. Þannig falla t.d. flest fullbúin rafmagnstæki og vélahlutir utan reglugerðarinnar, þ.e. erlend lán vegna innkaupa á þeim þurfa að bera lántökuskatt. Hins vegar nær hún yfir hráefni sem fá frekari vinnslu í skipasmíðastöðinni. Það hlutfall sem ég nefndi í morgun um hráefni sem a.m.k. fræðilega séð ætti að geta sloppið við lántökuskattinn er því

miklu lægra en ég hélt fram þá, sennilega nær 35% en 50%. Þetta vandamál snýr öðruvísi að skipaiðnaðinum en flestum öðrum iðngreinum í samkeppnisiðnaði vegna þess að skipaiðnaðarfyrirtækin taka lán út á verkefni, hráefni og vinnu í einu lagi, en ekki sérstaklega vegna innkaupa á hráefni, eins og flestar greinar gera. Þegar innheimtuaðilar skattsins eru allir bankarnir og útibú þeirra úti á landi gefur auga leið að framkvæmdin getur orðið nokkuð snúin. A.m.k. hafa stöðvarnar almennt ekki getað nýtt sér þetta undanþáguákvæði laganna.
    Eðlilegt væri að koma í veg fyrir þessa erfiðleika og svara um leið að hluta til erlendum niðurgreiðslum með því að afnema lántökuskatt af lánum sem tekin eru til skipasmíða hér innan lands, a.m.k. á meðan á framkvæmdatímanum stendur.`` --- Ég endurtek: ,,Eðlilegt væri að koma í veg fyrir þessa erfiðleika og svara um leið að hluta til erlendum niðurgreiðslum með því að afnema lántökuskatt af lánum sem tekin eru til skipasmíða hér innan lands.``
    Ég vil mjög taka undir þessi orð, hæstv. forseti. Þegar við áhugamenn um skipasmíðaiðnað höfum rætt vandamálin sérstaklega við iðnrh. og viðskrh. hafa þeir jafnan borið því við að vegna samninga okkar við Efnahagsbandalagið væri ekki hægt að koma við beinum ríkisstyrkjum og hef ég fallist á það. En hitt er auðvitað algjörlega óhugsandi að skipasmíðaiðnaðinum, sem stendur meir höllum fæti í samkeppninni en nokkur annar iðnaður hér á landi að ullariðnaðinum undanskildum, skuli sérstaklega vera ætlað að greiða slíkt lántökugjald. Og þeim mun ámælisverðara er þetta sem hæstv. iðnrh. lýsti því yfir á fundi Sþ. í
gær að hann væri til viðræðu um það að lántökugjaldið yrði fellt niður --- og ég raunar hlýt að hafa misheyrt, ég heyrði ekki betur en hann hefði sagt að hann mundi fallast á að lántökuskatturinn yrði felldur niður af skipasmíðaverkefnum og hlýt ég þess vegna að skoða vandlega þá útskrift sem ég fæ af hans ræðu þegar hún birtist í þingtíðindum, en víst er að hæstv. iðnrh. var a.m.k. að gefa í skyn við umræðuna að hann ætlaði að beita sér fyrir því að lántökugjaldið yrði fellt niður.
    Mér finnst þetta alveg dæmafá niðurstaða, líka vegna þess að hér í þessari hv. deild er einn þingmaður, Stefán Guðmundsson, sem með sérstökum tillöguflutningi hér á Alþingi hefur vakið athygli á erfiðleikum skipasmíðaiðnaðarins. Hann komst svo að orði í Sþ., að hundruð manna í skipasmíðaiðnaði séu ýmist atvinnulausir eða atvinnuleysi bíði þeirra. Nú er honum, þessum áhugamanni um skipasmíðaiðnað, sem hefur sett sig inn í mál skipasmíðaiðnaðarins, ætlað að greiða atkvæði hér í deildinni þvert á móti sinni sannfæringu, þvert á móti þörfum skipasmíðaiðnaðarins. Það er ætlan ríkisstjórnarinnar að kengbeygja hann í atkvæðagreiðslunni hér á eftir. Að kengbeygja hann. Ég vil vonast til þess að hv. þm. þeirra Skagfirðinga sverji sig í kynið við ýmsa aðra fulltrúa þeirrar sýslu á Alþingi og sýni það að hann láti ekki stjórna atkvæði sínu þegar þessi tillaga

kemur til atkvæðagreiðslu hér á eftir. Ég vil í lengstu lög trúa því. A.m.k. get ég ekki séð annað en að það sé óhjákvæmilegt fyrir þennan hv. þm. eftir þau ummæli sem iðnrh. hafði í Sþ. í gær.
    Hin brtt. sem við hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson flytjum veit að útflutningsgreinum, aðallega útgerðarfyrirtækjum og það var af þeim ástæðum sem ég bað um að hæstv. sjútvrh. yrði kallaður hér í deildina. Ég býst við að við séum sammála um það nafnarnir að á öllu þessu ári, alveg frá því í marsmánuði, hafi verið unnið að skuldbreytingu fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi, fiskvinnslu og útgerð. Allan þennan tíma hefur hæstv. sjútvrh. staðið að efnahagsaðgerðum til þess að reyna að rétta hlut fiskvinnslunnar og útgerðarinnar. Fyrst með gengisfellingu í febrúar, síðan með gengisfellingu í maí og nú með gengisfellingu í september. Svo hefur hann nú staðið að frv. hér á þinginu til staðfestingar á bráðabirgðalögum sem ætlað er að veita skuldbreytingarlán fyrir útgerðina. Hugmyndir ráðherrans, eins og ég skil frv., ganga út á það að þau erlendu lán sem nú eru veitt vegna skuldbreytinga eigi að vera undanþegin þessu 6% lántökugjaldi.
    Ég hygg að ráðherrann sé mér líka sammála um það að þegar lögin voru sett í marsmánuði þá voru þessi lög tímabundin og við ætluðumst til að þau féllu úr gildi 31. des. Ég hygg að hæstv. ráðherra sé mér sammála um að engin efnisleg rök eru fyrir því að þau útgerðarfyrirtæki og þær fiskvinnslustöðvar, sem hafa fengið skuldbreytingarlán á tímabilinu frá 3. mars til gildistöku þessara laga, eigi það fremur skilið að greiða 6% lántökugjald en hin fyrirtækin sem fá skuldbreytingarlánið til að breyta innlendum lánum í erlend í janúarmánuði eftir að búið er að fella gengið og eftir að þeir fá þess vegna fleiri íslenskar krónur fyrir erlenda lánið og standa af þeim sökum strax betur að vígi þegar búið er að leiðrétta gengið. Ef það gengur þannig fram, þá er það hugmynd ríkisstjórnarinnar að þeir sem hafa nú fengið skuldbreytingarlán síðustu vikurnar eigi ekki aðeins að bera uppi rangt skráð gengi, fá færri krónur fyrir erlenda lánið vegna þess að gengið sé vitlausara skráð nú en það verður eftir áramótin, heldur eiga þeir ofan í kaupið að missa 6% strax í ríkishítina. Ef það er hugmynd ríkisstjórnarinnar og vilji að mismuna fyrirtækjum í sjávarútvegi, fyrirtækjum í útflutningsgreinum með þessum hætti, þá er auðvitað sú röksemd í huga ríkisstjórnarinnar fallin að eðli lántökugjaldsins sé ekki að afla fjár fyrir ríkissjóð heldur hitt, að draga úr þenslu og erlendum lántökum.
    Ég vil þess vegna mjög vænta þess að skýringin á því að í brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. var ekki gert ráð fyrir því að fella lántökugjaldið niður af þeim fyrirtækjum í sjávarútvegi sem hafa fengið skuldbreytingu á þessu ári sé sú að nefndarmenn meiri hl. í fjh.- og viðskn. hafi látið undir höfuð leggjast að bera málið undir sjútvrh. og hann muni af þeim sökum leiðrétta málið hér í deildinni. Auðvitað er ekki hægt að segja við þá fulltrúa sjávarútvegsins sem eiga sæti í Ed. að þeir ætli að mismuna fyrirtækjunum með

þessum hætti. Auðvitað hljótum við öll að standa saman um það að eitt skuli yfir alla ganga í þessum efnum, að lög sem voru sett í mars eigi ekki að fela í sér þunga
skattheimtu á fyrirtæki í landinu, en síðan sé því breytt í desembermánuði án þess að nokkur efnisrök séu fyrir hendi, þannig að menn standi ekki jafnir fyrir lögunum og jafnir fyrir skattheimtunni.
    Ég veit að herra forseti, sem er sanngjarn maður, mun mjög vilja styðja það mál sem ég hef hér flutt og greiða atkvæði með þeim brtt. sem minni hl. fjh.- og viðskn. hefur lagt fram hér í deildinni.