Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að verja 150 millj. kr. til fólks í alvarlegum greiðsluerfiðleikum vegna húsnæðiskaupa. Þessi tillaga gerir ráð fyrir að 250 millj. kr. verði varið til slíkra lána. Eðlilegra hefði verið að tillaga sem þessi hefði verið flutt sem brtt. við fjárlög en ekki við þessi lög. Ljóst er að vandi fólks er svo mikill að hvorki 150 né 250 millj. kr. muni duga til að mæta vandanum. Hvorug talnanna virðist byggð á neinum áætlunum. Nú er svo komið að margir af þeim sem fengið hafa lán samkvæmt nýja húsnæðislánakerfinu svokallaða hafa sótt um greiðsluerfiðleikalán og allt of margir sækja um slík lán þótt þeir hafi fengið lán einu sinni og jafnvel tvisvar áður. Það er eitthvað bogið við kerfi sem gerir ráð fyrir slíku fyrirkomulagi. Ég greiði því ekki atkvæði.