Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Matthías Á. Mathiesen:
    Herra forseti. Ég vil áður en a.m.k. þessari umræðu lýkur vekja athygli á því sem hér er að gerast, þegar hér hafa verið umræður um hin þýðingarmestu mál, þegar þeir sem hafa verið í forsvari fyrir þá aðila sem fjallað hafa um þessi mál, forustumenn stjórnarandstöðunnar, fulltrúar í fjh.- og viðskn. koma hér upp með fyrirspurnir til ráðherranna, sem hafa lagt málið fyrir þingið, hæstv. fjmrh. og að sjálfsögðu hæstv. forsrh. sem a.m.k. stjórnlagalega séð ber fyrstur ábyrgð á hlutunum og telst vera í forustu fyrir þeim hópi ráðherranna sem hér eru. Hvorugur þessara aðila er reiðubúinn til þess að svara spurningum, að rökræða við þá aðila sem hér hafa komið upp. Á sama tíma koma þessir aðilar og tala um það að ekki sé hægt að fá mál afgreidd á Alþingi. Ég spyr: Hvers vegna er ekki hægt að fá mál afgreidd? Ein ástæðan er sú að þeir aðilar, sem bera ábyrgð á þeim frv. sem lögð hafa verið fram, eru ekki reiðubúnir --- ég veit að hæstv. fjmrh. er orðinn syfjaður, það eru kannski ýmsir aðrir líka. En Alþingi á kröfu á því að þeir aðilar, sem bera ábyrgð á málunum, svari og þeir skiptist á skoðunum við þá þingmenn sem tala hér og koma fram með sjónarmið sín af hálfu minni hlutans hér á Alþingi.
    Ég vildi aðeins benda á þetta og víkja að þeim þætti sem að mínum dómi er tvímælalaust það sem upp á stendur, þ.e. að hæstv. ráðherrar treystast ekki til þess að koma hér upp í ræðustólinn og svara spurningum eða rökræða um málin.