Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Það er greinilegt að stjórnarliðið er á hröðu undanhaldi í ýmsum þeim málum sem mest hafa verið gagnrýnd og snerta skattahækkanir og tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Með þessari breytingu er verið að koma til móts við þá gagnrýni sem uppi hefur verið höfð á vörugjaldsfrv. í þá veru að það hygli innflutningi en vinni gegn hagsmunum innlendra framleiðenda. Ég tel að þessi breyting sem gerð hefur verið í Ed. að forgöngu stjórnarliða sé jafnframt staðfesting á þeirri gagnrýni sem fram hefur komið um þetta atriði. Ég treysti því að stjórnarliðar hafi gengið úr skugga um að hér sé ekki verið að brjóta gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga gagnvart EFTA eða öðrum viðlíka samningsbundnum skuldbindingum Íslendinga. Ég tel að þessi breyting sé spor í rétta átt en frv. í heild er að sjálfsögðu áfram óaðgengilegt og mun atkvæði mitt og sjálfstæðismanna falla til samræmis við það.