Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég get tekið undir þetta og get fagnað þessari brtt. að vissu marki. Ég tel að ganga hefði átt lengra því hér er vissulega verið að mismuna innlendum framleiðendum. Þetta ákvæði hefði átt að gilda um alla innlenda framleiðendur, ekki aðeins þessa einu sérstöku framleiðslu.
    Ég vil hins vegar segja, og ráðlegg ráðamönnum að skoða það vel, að í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að verið er að brjóta þann samning sem við höfum gert við EFTA. Þar af leiðandi get ég ekki staðið að samþykkt þessarar tillögu.