Meðferð trúnaðarmála
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 225 hef ég leyft mér að bera fram svofellda fsp. til forsrh. um meðferð trúnaðarmála:
    ,,Hvað líður störfum nefndar sem fyrrverandi forsrh. setti á laggirnar til að gera tillögur um meðferð opinberra trúnaðarskjala?``
    Ég hygg að öllum sé ljóst að í okkar mikla upplýsingaþjóðfélagi er nauðsynlegt að hafa ákveðnar reglur um hvenær upplýsingaleynd er varpað af skjölum frá liðnum tíma og sömuleiðis hvenær ekki á að segja frá viðkvæmum málum heldur láta það bíða síðari tíma. Ég hygg að um þetta efni skorti ákveðnar starfsreglur í okkar stjórnkerfi. Ég hygg að það hafi vakað fyrir mönnum þegar fyrrv. ríkisstjórn setti þessa nefnd á laggirnar að koma þarna á skýrari reglum og mig langar til þess að forvitnast um það hjá ráðherra hvað líði störfum þessarar nefndar.