Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Óli Þ. Guðbjartsson:
    Hæstv. forseti. Stundum er það haft á orði að tímanum sem fer til ræðuhalda, jafnvel hér á hinu háa Alþingi, sé ekki vel varið. Hann skili tæpast þeim árangri sem til er ætlast, að auki sé hann oft í öfugu hlutfalli við tilætluð áhrif. Ekki skal ég í sjálfu sér leggja dóm á slíkar bollaleggingar, en hinu mega menn þó ekki gleyma, þó að stundum blöskri ýmsum málgleðin sem auðvitað er oft býsna ómarkviss, að hér er um að ræða þann hornstein í lýðræðisskipulagi okkar sem aldrei, undir engum kringumstæðum, má vanmeta í sjálfu sér. Og þó að vitaskuld sé ætíð nauðsyn á meirihlutaákvörðun í hverju máli, þá er réttur minni hlutans, stjórnarandstöðu, í engu síðri og e.t.v. ekki þýðingarminni þegar á heildina er litið. Mörg dæmi sanna að oft fer það eftir styrk og skynsamlegri afstöðu minni hlutans hve vel honum tekst að halda meiri hlutanum við þau takmörk sem honum eru raunar ætíð sett, nánast hversu stór sem hann er. Þar á ég við þá staðreynd að meiri hlutanum þýðir aldrei og líðst aldrei í lýðræðisþjóðfélagi að þröngva í gegn ákvörðun sem stríðir gegn ótvíræðum almannavilja og allra síst í þjóðfélagi þar sem fjölmiðlun er jafnsterk og jafnvirk og hún er orðin hér á landi.
    Því minnist ég á þessi atriði hér, hæstv. forseti, að ég held að sjaldan sé fremur ástæða til að menn íhugi alvöru þeirra verka sem hér eru unnin sem við lokaafgreiðslu fjárlaga. Auðvitað fer það ekki á milli mála að fjárlagaafgreiðslan er ein tímafrekasta og þýðingarmesta vinnan á hverju löggjafarþingi. Við stöndum hér nú við 3. umr. fjárlaga 1989, enda þótt það ár sé fyrir nokkru gengið í garð. Þetta er í annað sinn sem ég kynnist þessari vinnu af eigin raun. Mér finnst margt líkt með afgreiðslunni og umfjölluninni nú og afgreiðslu fjárlaganna 1988 sem gjarnan mætti íhuga nokkru nánar.
    Að vísu fór 3. umr. fjárlaga í fyrra fram hér í Sþ. þann 22. des. þó að atkvæðagreiðslunni væri frestað þar til á milli jóla og nýárs. Þá dróst hins vegar afgreiðsla mjög mikilvægra skattafrv. sem þá hétu vitaskuld í munni þáv. stjórnarliða skattkerfisbreytingar. Þær drógust sem sé nokkuð fram á hið nýja ár og lauk víst ekki fyrr en 11. jan. ef ég man rétt.
    Nú má hins vegar segja að afgreiðsla þessara mála hafi verið í öfugri röð frá því sem var við seinustu fjárlagaafgreiðslu. Við 2. umr. fjárlagafrv. nú var áhersla á það lögð af hálfu fulltrúa stjórnarandstöðunnar í hv. fjvn., sem m.a. kom fram í nál. minni hl., að skattafrv. hæstv. ríkisstjórnar hlytu afgreiðslu fyrir 3. umr. fjárlagafrv. Þetta var vitaskuld gert vegna þeirrar staðreyndar að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki ótvíræðan meiri hluta nema í annarri deild þingsins og í Sþ. Við þessari beiðni minni hlutans var orðið og nú liggur fyrir samþykkt þingsins með þeim hætti sem öllum er kunnugt. Á síðasta ári var ekki til að dreifa álíka spennu út af naumum meiri hluta ríkisstjórnar. Engu að síður dróst afgreiðsla þingsins svo úr hömlu sem raun bar vitni. E.t.v. var þá um að

kenna hve meiri hlutinn var stór, óstýrilátur og sjálfum sér sundurþykkur. Ég held hins vegar að það sé orðið meira en tímabært að íhuga aðra hætti við afgreiðslu fjárlaga en hér hefur lengst af tíðkast.
    Við 2. umr. frv. sem hér er til 3. umr. vakti varaformaður fjvn., hv. 1. þm. Vesturl., máls á því að breyttir vinnuhættir væru vissulega tímabærir. Undir það vil ég einnig taka. Víða með öðrum þjóðum er afgreiðsla fjárlaga ekki bundin við áramót almanaksársins. Sums staðar byrjar fjárlagaárið jafnvel á miðju sumri. Enginn vafi er á því að öll spennan sem fylgir jólahaldi, áramótum og oft erfiðum samgöngum, sem eru gjarnan hér á landi um þetta leyti árs, hefur gert afgreiðslu fjárlaga á Alþingi miklum mun erfiðari en ella þyrfti að vera. Þá er ekki síður trúlegt að einmitt þessar aðstæður séu a.m.k. einn þeirra þátta sem hafa valdið því hve illa fjárlög hafa staðist og úr böndum farið. Auðvitað eru efnahagsaðgerðir stjórnvalda á hverjum tíma, gengisbreytingar og annað í þeim dúr, drýgstur orsakavaldur í þessu efni. En trúa mín er sú að fari fjárlagaafgreiðslan fram á öðrum árstíma, t.d. undir þinglok að vori, væri þar margt með öðrum og betri brag en nú er.
    Eins og gefur að skilja var starfið í hv. fjvn. frá 2. umr. fyrst og fremst bundið undirbúningi að afgreiðslu tekjuhliðar frv. til 3. umr. og er það vitaskuld unnið á ábyrgð meiri hl. fjvn. svo sem venja er. Svo var einnig um B-hluta stofnanir sem meiri hl. stendur einn að að venju. Hins vegar stendur nefndin öll að brtt. um 6. gr. frv., heimildagreininni, sem flutt er hér á þskj. 396.
    Ég vil nú við lok vinnunnar í fjvn. þakka samstarfsfólki, bæði úr röðum stjórnarliða og stjórnarandstöðu, fyrir ágætt samstarf við alla þætti þessa starfs. Ég vil einnig þakka starfsfólki nefndarinnar öllu fyrir sérstaka lipurð í þessum erli, sem og starfsfólki Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, Ríkisendurskoðunar og hagdeildar fjmrn. Forstjóri og fleiri fulltrúar Þjóðhagsstofnunar komu til fundar við nefndina bæði fyrir 2. umr., sem og nú í gær fyrir 3. umr. Í því efni var sami háttur á hafður og í fyrra. Það mun vera í fyrsta sinn sem fulltrúar þessarar stofnunar koma til fjvn. fyrir báðar þessar mikilvægu umræður. Vissulega ber að þakka allar þær margháttuðu
upplýsingar sem þessir aðilar höfðu fram að færa um stöðu efnahagsmála almennt og þá ekki síður álit þeirra um efnahagshorfur í næstu framtíð. Þegar þau álit eru athuguð nánar getur maður varla varist þeirri hugsun að skammt sé í næstu bráðnauðsynlegar efnahagsráðstafanir sem í verulegum atriðum hljóti að breyta forsendum og grunni þess verks sem hér er þó verið að vinna.
    Í upplýsingum Þjóðhagsstofnunar um helstu breytingar á efnahagshorfum, ekki síst eftir að þjóðhagsáætlun var lögð fram, kom m.a. fram að nú er talið að landsframleiðslan 1988 hafi dregist saman um 2,5% miðað við 1,5% sem ráð var fyrir gert í þjóðhagsáætlun. Enn fremur kom fram í þeirri stuttu

skýrslu sem fulltrúar Þjóðhagsstofnunar gerðu grein fyrir í gær í fjvn. að nú er gert ráð fyrir að landsframleiðslan dragist saman um 2% á þessu ári. Þetta er heldur meiri samdráttur en reiknað var með þegar þjóðhagsáætlun var hér lögð fram. Samkvæmt þessu minnkar landsframleiðslan því samanlagt um 4,5% á árunum 1988 og 1989. Minni landsframleiðsla á þessu ári stafar fyrst og fremst af því að nú er stefnt að því að draga meira úr fiskafla en áður. Áætlað er að aflaverðmæti úr sjó á þessu ári verði um 7% minna en á síðasta ári, sbr. 4,5% sem ráð var fyrir gert í þjóðhagsáætlun. Mestu máli skiptir þó þar að gert er ráð fyrir skerðingu þorskafla um allt að 15 þús. tonn.
    Halli í viðskiptum við útlönd á þessu ári verður meiri en reiknað var með í þjóðhagsáætlun. Því var þar spáð að hallinn yrði um 14 milljarðar kr., eða um 5% af landsframleiðslu. Þetta er u.þ.b. hálfum öðrum milljarði kr. meiri halli en þjóðhagsáætlun sýndi sem fyrr var á drepið.
    Ákvörðun um lækkun á gengi krónunnar nú eftir áramótin um tæplega 5% felur í sér að forsenda þjóðhagsáætlunar um 7% hækkun á meðalverði erlends gjaldeyris milli ársmeðaltala 1988 og 1989 hækkar í 12%. Þessi breyting ásamt meiri verðlagsáhrifum skattbreytinga en áður hefur verið reiknað með leiðir til þess að nú er gert ráð fyrir að vísitala framfærslukostnaðar hækki um 15% milli ársmeðaltala 1988 og 1989, samanborið við 12% í þjóðhagsáætlun. Samkvæmt þessu verður hækkun framfærsluvísitölu frá upphafi til loka árs 1989 á bilinu 9--10% í staðinn fyrir 6%. Flestar þessar upplýsingar sem fulltrúar Þjóðhagsstofnunar létu fjvn. í té í gær ganga í eina átt. Erfiðleikar eru greinilega fram undan, mun meiri en menn höfðu reiknað með áður.
    Þrátt fyrir gengislækkun krónunnar verður t.d. afkoma sjávarútvegsins áfram erfið eins og ríkulega kom fram í máli hv. 2. þm. Norðurl. v. fyrr í umræðunni. Afkoma botnfiskvinnslu er þó svipuð nú í ársbyrjun og í septemberlok. Þó kom það manni býsna mikið á óvart á þessum fundi með fulltrúum Þjóðhagsstofnunar í gær að þeir héldu því fram að afkoma fiskvinnslunnar væri nú að nálgast núllið. Þar væru menn að ná sæmilegum jöfnuði. Hins vegar, eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v., væri gert ráð fyrir um 5% halla á samrekstri fiskvinnslu og veiða, og allt að 9% halla á rekstri bátaflotans.
    Það ríkir því mikil óvissa um ýmsar mikilvægar forsendur þjóðhagsspár við þessi áramót. Helstu óvissuþættirnir eru vitaskuld þeir að ytri skilyrði þjóðarbúsins hafa breyst. Tveir aðalóvissuþættirnir varða verð á sjávarafurðum og gengi bandaríkjadollars. Annar gæti þó verið jákvæður en um það er að vísu lítið vitað. Það bendir nefnilega ýmislegt til þess að verð á sjávarafurðum gæti farið hækkandi á næstu missirum. Í þessu sambandi má m.a. benda á minnkandi framboð sjávarafurða af okkar slóð og fremur bjartar horfur um hagvöxt og þar með aukningu almennrar eftirspurnar í iðnríkjunum. Hins vegar er talin töluverð hætta á að gengi

bandaríkjadollars haldi enn áfram að lækka á næstunni vegna mikils viðskiptahalla í Bandaríkjunum.
    Hvað þróun innlendra efnahagsmála snertir, þá er náttúrlega fyrst þar til að taka að óvissan er ekki síst vegna þess að kjarasamningar eru fram undan strax og því verðstöðvunartímabili lýkur sem við nú lifum. Í annan stað er afkoma útflutningsatvinnuvega og samkeppnisgreina almennt erfið, eins og fyrr hefur komið fram, og í þriðja lagi rennur verðstöðvun úr gildi í febrúarlok með allri þeirri óvissu sem þá tekur við. Það er þess vegna erfitt að meta þessa stöðu, eins og nú standa sakir, á annan veg en þann að taka undir með þeirri niðurstöðu sem kom fram hjá fulltrúum Þjóðhagsstofnunar, að framtíðin er á flesta lund óviss í þessu efni.
    Ég mun nú, hæstv. forseti, hverfa ögn að tekjuáætlun frv. sem hér er til umræðu og greina frá í fáum orðum hvernig hún lítur út miðað við frv. eins og það var lagt fram og með þeim breytingum sem síðar hafa fram komið.
    Þegar frv. var lagt fram var gert ráð fyrir tekjuáætlun með niðurstöðutölum að upphæð 77 milljarðar 315 millj. kr. Þetta er mikil hækkun miðað við niðurstöðutölur á síðasta fjárlagaári sem námu 63 milljörðum kr. Þegar fjvn. hefur lagt fram sínar tillögur, fyrst og fremst meiri hl. fjvn., hefur þessi tala breyst og það sem merkilegt má telja, til lækkunar. Nú er gert ráð fyrir því í tillögum nefndarinnar, af þeim ástæðum sem ég hef frá greint fyrr, að niðurstöðutalan teknamegin verði lægri eða 77 milljarðar og 100 millj. Þarna munar að vísu ekki miklu, um 215 millj. kr. Hins vegar verður að telja til nýlundu að þannig fari um frv. til fjárlaga í meðförum Alþingis Íslendinga.
Við skulum þó ekki gleyma því að þegar frv. var lagt fram lá ekki fyrir nema lítill hluti af því hvernig til mundi takast um þá tekjuöflun eða sköttun sem hér um ræðir. Þá var gert ráð fyrir því, eins og lagasetning lá þá fyrir, að sérstök tekjuöflun yrði um 5,2 milljarðar kr., á grundvelli laga sem þá voru í gildi 4,4 milljarðar og með reglugerðum um 865 millj. Síðan hafa þessar niðurstöður breyst í meðförum og eru nú svohljóðandi:
    Sérstök tekjuöflun eða sköttun sem nú hefur verið samþykkt hér á hv. Alþingi nemur, eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v., um 6 milljörðum kr. Og þegar tekið er með í þann reikning frestun virðisaukaskattsins bætist við þá upphæð um 1,2 milljarðar, sem sagt um 7,2 milljarðar kr.
    Þegar litið er á þessa sundurliðun er hún svohljóðandi: Hækkun tekju- og eignarskatta er um 2 milljarðar, hækkun vegna vörugjaldsins rösklega 1,5 milljarðar, sköttun á veðdeildum 50 millj. kr., skrifstofuhúsnæðisskatturinn 150 millj., lántökuskatturinn 200 millj. Í heild eru þetta tæpir 4 milljarðar kr. Til viðbótar koma svo ýmiss konar gjaldbreytingar á grundvelli reglugerða og raunar á grundvelli ákvarðana sem verið er að vinna að hér í dag á milli deilda og í deildum. Það er í fyrsta lagi bensíngjald sem hefur verið hækkað og mun gefa um

600 millj. kr. tekjur, þungaskattur sem mun gefa 190 millj. kr. í ríkissjóð, innflutningsgjald 400 millj. kr. og hækkun á vörum Áfengisverslunar ríkisins 450 millj. kr. Samtals eru þetta 1640 millj. kr., samtals með skattahækkunum, fyrr samþykktum, um 6 milljarðar kr.
    Þegar nánar er athugað hvernig þetta kemur út í frv. sjálfu kemur ýmislegt í ljós. Þar er bæði um að ræða hækkun á tekjum sem og lækkun frá því að frv. var lagt fram í haust. Eignarskattarnir, sem gert var ráð fyrir í haust að yrðu 2,6 milljarðar í tekjum ríkissjóðs, hafa hækkað í meðförum þingsins um 335 millj. Í breytingartillögum frá meiri hl. fjvn. er nú gert ráð fyrir að eignarskattarnir gefi að þessu leyti 2,9 milljarða. Hins vegar hefur tekjuskatturinn, sem gert var ráð fyrir að gæfi 11,4 milljarða í tekjur fyrir ríkissjóð, lækkað um tæpan milljarð, eða um 950 millj. kr. Nú gerir meiri hl. fjvn. ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti verði 10 milljarðar 450 millj. kr. Ástæðan er vitaskuld sú að um er að ræða verulegan veltusamdrátt, fyrirsjáanlegan veltusamdrátt í þjóðfélaginu og þar með tekjusamdrátt hjá þeim sem á er lagt.
    Gert er ráð fyrir að gjöld af innflutningi verði um 95 millj. kr. lægri tekjustofn en ráð var fyrir gert þegar frv. var lagt fram fyrr í haust. Gjöld af innflutningi í heild hækka hins vegar um 213,5 millj., úr 4,9 milljörðum í 5,1 milljarð.
    Þannig breytist þetta töluvert eftir gjaldstofnum. T.d. hækka skattar af einkasöluvörum --- þá er náttúrlega aðallega um að ræða skattana á vörur Áfengisverslunarinnar --- í tekjum ríkissjóðs um 453 millj. á milli þessara umræðna, úr 5,6 milljörðum í 6 milljarða. Söluskatturinn lækkar hins vegar um hálfan milljarð. Í haust var gert ráð fyrir að söluskatturinn gæfi 33 milljarða í ríkissjóð en nú, samkvæmt tillögu meiri hl. fjvn., er um að ræða tekjur upp á 32,5 milljarða.
    Niðurstaðan er sem sagt sú, þegar þetta er allt lagt saman, að um er að ræða tekjulækkun frá því að frv. var lagt fram til þess sem það nú liggur fyrir að upphæð 214,5 millj. kr.
    Þegar gjaldahliðin er athuguð kemur í ljós að þar er líka um að ræða mjög óverulega breytingu þannig að líklega heyrir til undantekninga. Eins og kom fram hjá formanni fjvn. fyrr í umræðunni í dag er heildarbreytingin sú að um er að ræða hækkun um aðeins 0,43%. Venjulegast hefur breyting frá því að fjárlagafrv. er lagt fram og til þess að það er samþykkt við 3. umr. verið 2,5--3%, en hér er þetta innan við 0,5% af þeim ástæðum auðvitað sem hér hefur verið á drepið.
    Það ber líka að taka fram að í meðförum fjvn. er í tillögum frá hæstv. ríkisstjórn, sem og raunar annars staðar, gert ráð fyrir niðurskurðartillögum og ég mun aðeins koma nánar að því á eftir.
    Þegar fjárlagafrv. var lagt fram í haust var gert ráð fyrir heildarútgjöldum að upphæð 76 milljarðar 131 millj. Eins og þetta liggur fyrir hér við 3. umr. er útgjaldahliðin að niðurstöðutölu 76 milljarðar 459

millj. Vissulega ber það ekki undan að draga að hér er hins vegar um verulega hækkun að ræða frá seinustu fjárlögum. Hækkunin frá fjárlögum 1988 er 21,2%. Þegar þetta er athugað nánar eftir skiptingunni í rekstrargjöld, rekstrartilfærslur, vaxtagjöld, viðhald og fjárfestingu kemur þetta í ljós:
    Þegar frv. var lagt fram voru rekstrargjöldin áætluð að upphæð 29 milljarðar 851 millj. kr. Það er nokkurn veginn sama tala og um er að ræða við lokin eða 29 milljarðar 822 millj. kr. Engu að síður var við 2. umr. fjárlaga gert ráð fyrir 204 millj. kr. hækkun á rekstrargjöldum. Nú hefur það hins vegar gerst milli 2. og 3. umr., sem raunar var boðað við 2. umr., að þessi rekstrargjöld eru skorin niður um 233 millj. kr. Þar munar vitaskuld mestu um niðurskurð á launagjöldum að tillögu meiri hl. fjvn., ættaðri frá hæstv. ríkisstjórn, um 320 millj. kr.
    Vegna þeirra orða sem hv. 2. þm. Norðurl. v. lét falla fyrr í umræðunni um brtt. eins af þingmönnum Borgfl., Guðmundar Ágústssonar, á þskj. 418 vildi ég láta eftirfarandi koma fram. Það er rétt, sem kom fram í máli hv. þm. Pálma Jónssonar, að að stofni til voru þessar tillögur sem þarna er um að ræða og raunar fleiri unnar að tilhlutan fulltrúa minni hl. fjvn. af starfsmönnum fjvn. og raunar öll þessi vinna. Þegar það lá fyrir í dag að fulltrúar minni hl., sem höfðu kynnt þessar tillögur á þingflokksfundum í flokkum sínum í gær, mundu ekki flytja þessar tillögur sameiginlega, og ég fékk raunar þessar tillögur nú síðdegis hjá þessum hv. þm., 2. þm. Norðurl. v., leit ég svo á að hverjum sem hefði tillögurnar undir höndum væri heimilt að flytja og raunar gera að sínum hvað af þessu verki sem mönnum sýndist. Sá var skilningur minn þegar ég fékk þessar tillögur frá hv. þm. Pálma Jónssyni síðdegis í dag. Það er þess vegna við mig að sakast en ekki hv. þm. Guðmund Ágústsson hvernig til tókst. Ég harma vitaskuld að svo skyldi til takast, en það varð vegna misskilnings milli mín og hv. þm. Pálma Jónssonar. Það harma ég sannarlega en ég hafði alls ekki gert mér grein fyrir því að feðrun þessara tillagna væri svo nákvæm sem fram kom í hans máli. En þetta er skýringin á tillöguflutningi hv. þm. Guðmundar Ágústssonar.
    Ef við lítum nánar á útgjaldahlið þessa fjárlagafrv. þá var gert ráð fyrir þegar frv. var lagt fram að fyrir ýmsar rekstrartilfærslur yrði niðurstöðutalan 28 milljarðar 692 millj. kr. Hér er því einnig um að ræða mjög litla breytingu frá því að frv. var lagt fram í haust til afgreiðslu við 3. umr. Nú er niðurstöðutalan 28 milljarðar 572 millj. kr. Engu að síður er um að ræða hækkun frá fjárlögum ársins 1988 um 20,65%. Við 2. umr. munar 27 millj. og nú 93 millj. kr. þannig að um er að ræða lækkun á þessum rekstrartilfærslum frá því að frv. var fyrst lagt fram. Þannig má eiginlega taka hvern þessara liða í rekstrartilfærslum og þar munar sáralitlu.
    Í vaxtagjöldum munar hins vegar meiru. Þar er um að ræða hækkun um 190 millj. kr. Í frv. þegar það var lagt fram var gert ráð fyrir að í vaxtagjöld væri varið 7 milljörðum 350 millj. kr. en nú 7 milljörðum

540 millj. kr. Hins vegar er það mjög athygli vert og veruleg ástæða til þess að leggja á það áherslu að þessi liður fjárlaga hefur hækkað langsamlega mest frá því sem var í fjárlögunum 1988 eða um 57,08%. Auðvitað minnir það á þá nöpru staðreynd að staða ríkisfjármálanna hefur að þessu leyti verið að versna stórlega þennan tíma sem hér um ræðir.
    Í viðhald fer hér nánast nákvæmlega sama upphæð, í haust var lagt til að upphæðin væri 1,5 milljarðar kr. en nú er hún 1577 millj. kr. Þar er því um að ræða sáralitla hækkun frá gildandi fjárlögum eða aðeins 4,64%. Eins er með fjárfestinguna. Þegar frv. var lagt fram í haust var gert ráð fyrir að í fjárfestingu færu 8 milljarðar 684 millj. kr. Sú tala hefur lítillega hækkað, upp í 8 milljarða 947 millj. kr. Hækkun frá fjárlögum er því aðeins 13,74%.
    Eitt megineinkennið á rekstrarhlið fjárlagafrv. er þess vegna að rekstrarþátturinn tútnar út á sama tíma sem fjárfesting og viðhald minnkar sem hlutdeild af heildinni.
    Hæstv. forseti. Ég gat þess við 1. umr. um frv. til fjárlaga og ég endurtók það við 2. umr. að ég óttaðist að sömu einkenni fylgdu þessu frv. til fjárlaga 1989 sem og varð 1988, þ.e. góð áform um hallalaus fjárlög sem fóru hins vegar gersamlega úr böndum í framkvæmd. Ég er enn sömu skoðunar og ástæðan er enn hin sama. Ég tel að óvarlega sé farið í lánsfjáröflun ríkissjóðs og sjóðakerfisins á hans vegum. Ég tel að mun lengra ætti að ganga í niðurskurði rekstrarútgjalda en hér er þó gert. Ég tel enn fremur að nú sé lag til að ná árangri í þeim efnum betur en verið hefur í annan tíma. Það er út af fyrir sig fróðlegt að líta nánar á lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs sem ætlað var að yrði 4,7 milljarðar kr. og mundi aðeins hækka lítillega frá því sem var á sl. ári eða um 12% hækkun frá því árið 1988. Þegar staðan í þeim efnum er athuguð núna við 3. umr. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að lánsfjárþörfin sé um 9,9 milljarðar kr. Skýringin á muninum er ósköp einföld. Hún kom hér ríkulega fram í máli hv. 2. þm. Norðurl. v. og ég held að það saki ekki þó ég minnist einnig á það.
    Auðvitað er meginskýringin sú að fjárlagahallinn frá árinu 1988 fer yfir á þetta fjárlagaár. Það var gert ráð fyrir því að þessi fjárlagahalli næmi allt að 8 milljörðum kr., að vísu eru 800 millj. kr. af því allt frá árinu 1987. Þetta er samansafnaður vandi frá alllöngum tíma. Það kom hér fram fyrr í kvöld að af hálfu Seðlabankans var í þessu skyni tekið erlent lán nú milli jóla og nýárs og mun það hafa verið að upphæð 3,3 milljarðar kr. Það vannst ekki tími til frekari lántöku. Eftir er síðan að taka að láni í þessu skyni 4,5 milljarða kr. til þess að hreinsa borðið eins og staðan var orðin. Um þetta leyti í fyrra var gert ráð fyrir að fjárlög væru hallalaus. Þessi er niðurstaðan.
    Í B-hluta er hins vegar bætt enn um betur. Þar er reiknað með 9,3 milljarða kr. lánsfjárþörf vegna byggingarsjóðanna eða um 50% hækkun frá því sem er í ár. Allir þekkja síðan hvernig ætlað er að ávaxta það fé, hvar meginhluti

þeirrar fjárfestingar fer fram og hvert þjóðhagslegt gildi þeirrar fjárfestingar er. Þegar lánsfjárþörf annarra opinberra sjóða, sem vitaskuld tengjast fjárlögum ríkisins, er athuguð kemur í ljós að gert er ráð fyrir 6,8 milljarða kr. lánsfjárþörf eða um 78,9% hækkun frá því sem var á sl. ári. Samanlögð er öll þessi lánsfjárþörf röskir 20 milljarðar kr. miðað við 14,2 milljarða kr. í fjárlögunum 1988 eða 46,8% hækkun. Það er þessi stefna sem þarna liggur að baki og þessi pólitík sem að minni hyggju eru hættumerkin. Hættumerkin um að örðugt muni reynast að hemja verðbólguna og að hafa stjórn á almennri efnahagsþróun hér á landi eftir febrúarlok rétt eins og varð á sl. ári nema að því tilskildu að meginhluti þessa fjármagns fari til þess að treysta útflutningsgreinarnar svo sem best má verða og þar með arðbæra undirstöðu þjóðfélagsins.
    Árið 1988 var ráðgerður rösklega 4 milljarða kr. viðskiptahalli samkvæmt þjóðhagsáætlun á því ári sem svaraði 6--7% tekna ríkissjóðs. Reyndin varð um það bil þreföldun eða nær 12 milljarða kr. viðskiptahalli sem svarar rösklega 18% tekna ríkissjóðs. Í áætlun og markmiðum núv. hæstv. ríkisstjórnar er reiknað með svipaðri útkomu að ári. Í þessari staðreynd og ekki síður í þessu markmiði sem er um svo gífurlegan viðskiptahalla er að minni hyggju fólginn meginvandinn í ríkisbúskap Íslendinga um þessar mundir. Þess vegna er niðurstaða mín sú og ekki síst við þær óvissu pólitísku aðstæður sem nú ríkja að það er nauðsyn að hér sé styrkur þingmeirihluti sem vill einbeita sér að því að snúa af þeirri óheillabraut sem leitt hefur af þeirri erfiðu stöðu sem ég hef hér gert að umræðuefni og sem hér blasir við. Það er sú þjóðarnauðsyn sem nú skiptir mestu máli.
    Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.