Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá atriði sem ég tel ástæðu til að koma inn á í sambandi við þessa lokaafgreiðslu fjárlaga. Ég vil fyrst byrja á því að þakka fjárveitinganefndarmönnum, bæði formanni og samstarfsfólki í fjvn. ánægjulegt samstarf að lokagerð fjárlaga og einnig því fjölmarga starfsfólki sem þar hefur komið við sögu. Það þarf ekki að endurtaka það að þetta samstarf hefur verið með miklum ágætum og hefur verið reynt á allan hátt að greiða fyrir upplýsingum og öðru sem þarf að koma fram.
    Það er í raun og veru óþarft að ég sé að flytja langt mál. Ég vil þó aðeins undirstrika að það sem var grundvöllur fyrir þessari fjárlagagerð fyrir árið 1989 var hið hrikalega ástand þjóðmála er gerði fjárlagagerðina nú miklu vandasamari heldur en nokkurn tíma áður. Aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar beindust að því að reyna að lækka tilkostnaðinn í landinu, skera niður þensluna og koma í veg fyrir meira áfall en menn áttuðu sig á í upphafi. Þetta hlutverk við fjárlagagerð nú var því mjög óvenjulegt og hlutverk meiri hl. fjvn. þar af leiðandi miklu þrengra en nokkurn tíma áður. Okkar hlutverk var fyrst og fremst að koma í veg fyrir hækkun fjárlaga, taka tillit til ástandsins og gera allt sem í okkar valdi stæði til þess að ná því markmiði sem fjárlagafrv. bar með sér í upphafi, að það yrði afgreitt með tekjuafgangi en ekki með rekstrarhalla eins og oft hefur komið upp áður.
    Ég tel að þetta hlutverk, þó óvinsælt sé, hafi tekist að verulegu leyti. Það má endurtaka það, sem hér hefur raunar komið fram í ræðu formanns nefndarinnar fyrr í dag, að breytingarnar á frv. frá því að það var lagt fram eru miklu minni heldur en nokkur maður hefur getað gert sér í hugarlund miðað við hina miklu yfirferð og þær miklu kröfur sem liggja frammi í sambandi við fjárlagagerð og nauðsyn á ýmsum fjárveitingum. Þetta kemur þannig út að hækkunin á frv. frá því að það var lagt fram er aðeins 329,1 millj. kr. eða 0,43%. Þetta hefur í raun og veru aldrei áður skeð við þessar hrikalegu aðstæður sem nú eru í okkar ágæta þjóðfélagi.
    Ég held að ekki þurfi að rökræða þetta nánar. Þetta segir miklu meiri sögu en ein stutt ræða getur gert en ég tel að fjvn., og ekki síst meiri hl., hafi tekist að sigla á réttum sjó til þess að ná því markmiði sem nauðsynlegt var fyrir þjóðarbúið í heild. Fjárlögin bera þessa merki þó að það megi kannski deila um ýms atriði í þeim eins og alltaf er en ég tel að það sé nauðsynlegt að undirstrika þetta atriði sérstaklega. Ég tel líka að nauðsynlegt sé að láta það koma fram að ég geri ráð fyrir því að hv. þingmenn taki þær niðurstöður alvarlega sem bæði Þjóðhagsstofnun og aðrar opinberar hagstofnanir þjóðarinnar segja okkur í dag, þ.e. að aldrei hefur verið meiri þörf en nú að menn átti sig á því í hvaða stöðu íslenskt þjóðfélag er. Því verða menn að taka höndum saman um að gera ráðstafanir sem duga til þess að við höldum þeirri stöðu fyrir okkar þjóðfélag sem við erum öll örugglega sammála um til þess að við getum lifað

sómasamlegu lífi í þessu landi og getum komið í veg fyrir ýmis slys sem annars væru fyrir stafni ef ekki er tekið skynsamlega á þessum hlutum.
    Ég ætla ekki að fara út í neina pólitíska umræðu um þessi mál að þessu sinni, til þess gefst betri tími síðar. En ég vil aðeins koma inn á örfá atriði sem ég legg áherslu á og nauðsynlegt er að skýra. Ég vil sérstaklega nefna eitt mál sem ég tel mjög mikilvægt í 6. gr. fjárlaga, þ.e. sú heimild sem þar er veitt og áhersla sem fjvn. undirstrikar í þeirri ályktun þar sem ákveðið er að skipa nefnd til viðræðna og samninga við Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða um endanlegan frágang og yfirtöku skuldar þessara orkufyrirtækja þannig að staðið verði við þá samninga að fullu og það samkomulag sem gert var á sínum tíma þegar svokallað verðjöfnunargjald á raforku var fellt niður. Þarna er um gífurlegar fjárhæðir að ræða og skiptir miklu fyrir raforkumálin í landinu. Ekki síst er mikilvægt að þetta mál náist í höfn fyrir íbúana í hinum dreifðu byggðum sem búa við hátt orkuverð og verða að greiða hátt raforkuverð því að skuldasöfnunin hjá Rafmagnsveitum ríkisins verður þess valdandi æ ofan í æ að raforkuverð verður að hækka. Við þetta verður ekki búið. Ég vil aðeins benda í þessu sambandi á eitt stórt mál sem er afhending ,,Reykjaneslínunnar`` sem átti að koma neytendum RARIK til lækkunar á þágildandi verðlagi um 600 millj. kr. Við þetta hefur síðan ekki verið staðið þannig að hér er um stórmál að ræða og ég vil benda hv. þingmönnum á að ekki er hægt að komast hjá að gera lagfæringar á í samræmi við ofangreint samkomulag.
    Ég vil svo aðeins koma inn á tvö mál sem fyrri ræðumenn hafa sérstaklega beint til mín í sambandi við það sem ég nefndi í minni ræðu við 1. og 2. umr. fjárlaga. Hv. 4. þm. Austurl. nefndi þetta nú síðast og hv. 2. þm. Norðurl. v. gerði það einnig í sinni ræðu og voru þetta þau ummæli mín að fyrir 3. umr. þyrfti að taka á mikilvægum málum sem ég hefði miklar áhyggjur af, þ.e. málum landbúnaðarins í sambandi við jarðræktarframlögin og búfjárræktarlögin, en því málefni tengjast búnaðarsamböndin í landinu og einnig vegamálin. Þetta væru mál sem þyrfti að ræða sérstaklega um og ég teldi að væru mikilvæg í þessu sambandi. Ég vil náttúrlega minna þessa hv. þingmenn á að báðir hafa þeir
orðið að þola þá reynslu að vera í stjórnarsamstarfi með öðrum þar sem taka hefur þurft mið af ýmsum staðreyndum sem þeir sjálfir hafa ekki verið sáttir við en orðið að beygja sig fyrir þeim staðreyndum sem teknar hafa verið í stjórnarsamstarfi í sambandi við meðferð slíkra mála. Þannig að þessi málsmeðferð er þeim ekki ókunnug. En vegna þess að það leit þannig út að ekkert hefði verið reynt að þoka þessum málum fram á milli umræðna er rétt að upplýsa að það voru miklar umræður í meiri hl. fjvn. og það voru umræður við ríkisstjórnina sjálfa um það hvernig hægt væri að leysa þessi mál án þess að raska því meginmarkmiði að hafa hallalaus fjárlög.
    Ég vil bara benda hv. 4. þm. Austurl. á það að við

saman náðum þeim árangri að rétta við stöðu Búnaðarfélags Íslands. Þetta var leiðrétt í fjárlögum og það er ákaflega mikilvægt fyrir bændastéttina. Einnig vil ég minna hv. þm. á að leiðrétting náðist fyrir landgræðsluáætlunina gegnum meiri hl. fjvn. frá ríkisstjórninni sjálfri og hafði það veruleg áhrif til þess að rétta við landgræðsluáætlunina. Ég vil í þriðja lagi benda hv. 4. þm. Austurl. á það, ef hann hefur ekki tekið eftir því, að einn mikilvægasti þátturinn fyrir búnaðarsamböndin í landinu og þar með bændastéttina í heild var að í fjárlögum, eins og þau voru lögð fram, var ekki ein einasta króna til starfsemi búnaðarsamtakanna í landinu. ( Gripið fram í: Jú.) Þetta var leiðrétt og nú við 3. umr. koma 9 millj. kr. sem eru sérstaklega merktar búnaðarsamböndunum í landinu, þ.e. viðbót við jarðræktarlögin. Þetta er ekki lítið mál og ég efast ekkert um að forustumenn bænda í landinu kunna vel að meta svona aðgerðir þó að þær nái ekki því markmiði sem við allir vildum helst ná. Þessu til viðbótar vil ég undirstrika, ef hv. þingmenn hafa ekki tekið eftir því, að hv. formaður fjvn. las í sinni ræðu yfirlýsingu sem núv. landbrh. gaf að kröfu meiri hl. í fjvn. um meðferð á þessum viðkvæmu málum, þ.e. jarðræktarstyrkjunum og búfjárræktarlögunum, þar sem fram kemur að hæstv. ráðherra lýsir því yfir, og þá um leið í umboði ríkisstjórnarinnar, að hann muni leggja fram ný lagafrv. um þessi mál á þessu þingi og jafnhliða þeim muni verða gerðar ráðstafanir til þess að staðið verði við þær greiðslur sem bændur eiga rétt á samkvæmt gildandi jarðræktarlögum og verði gengið frá þeim málum á þessu ári. Ég tel því að þessi yfirlýsing sé mikilvæg þó að maður hefði frekar kosið að þetta væri í beinum fjárhæðum í fjárlagafrv. en þetta á að vera jafngildi þess og til þessa hafa menn a.m.k. viljað vitna til slíkra yfirlýsinga þegar um er að ræða svona stór og mikilvæg mál. Þetta tel ég nauðsynlegt að láta koma fram.
    Í sambandi við vegamálin væri að sjálfsögðu hægt að flytja langt mál en það ætla ég ekki að gera. Niðurstaða meiri hl. fjvn. var sú að að gert yrði ráð fyrir því í fjárlagafrv. að niðurskurður á tekjustofnum Vegagerðarinnar yrði 600 millj. kr. sem með viðbótarákvörðun ríkisstjórnarinnar varð þó í reynd 690 millj. kr. Þetta var að sjálfsögðu látið standa en reiknað var út hvað bensíngjaldið, sem er aðaltekjustofninn, mundi gefa. Það þýddi að þarna voru til viðbótar á milli 200 og 300 millj. kr. Niðurstaðan varð sú að þessari fjárhæð, 200 millj. kr., var bætt við hina upprunalegu skiptingu sem nefndin var búin að fjalla um áður, 3 milljarða 15 millj. kr., þannig að þessi liður er nú í stofnkostnaðarliðum Vegagerðarinnar 3 milljarðar 215 millj. kr. Þessar 200 millj. kr. bætast við nýframkvæmdir á árinu 1989 þannig að sá liður verður 1 milljarður 345 millj. kr.
    Jafnhliða þessu vil ég sérstaklega benda á að samkvæmt ákvörðun við síðustu gerð vegalaga var sú fjárhæð, sem þá var reiknað með að yrðu auknar tekjur Vegasjóðs í sambandi við bensíngjaldið frá 1987 og 1988, eða 285 millj. kr., geymd til ársins

1989. Það sem gerðist við samþykkt vegáætlunarinnar sl. vor var að Alþingi tók þá ákvörðun samkvæmt tillögu fjvn. að þessari fjárhæð yrði skipt milli kjördæmanna inn á stofnverkefni, þjóðbrautir og brýr. Það var gert en svo kemur í ljós nú að þessi fjárhæð skilar ekki nema 180 millj. kr. Það hefði orðið það slys, ef ég má orða það svo, við þessa fjárlagagerð að þessi fjárhæð hefði verið þurrkuð út. Hún hefði ekki komið skýrt fram í þessum fjárlögum. Nú er hins vegar gengið út frá því að Vegasjóður haldi þessum tekjustofni. Þetta er skuld ríkissjóðs við Vegasjóð að upphæð 180 millj. kr. sem skipt er á kjördæmin. Niðurstaðan er hins vegar sú, vegna þessa ástands þjóðmála sem ég var að tala um, að þessi fjárhæð er geymd. Hún er geymd þannig og viðurkennd sem innstæða Vegasjóðs og gert er ráð fyrir því að í síðasta lagi verði hún greidd á næsta ári. En ef ástandið batnar, sem við öll vonum, getur alveg eins farið svo að tekjur Vegasjóðs aukist og verður þessi fjárhæð þá að sjálfsögðu greidd út.
    Ég held að við gerum okkur alveg grein fyrir því að við afgreiðslu á síðustu vegáætlun var heldur ekki gengið frá fjármögnun Ólafsfjarðarmúla. Þáv. samgrh. treysti sér ekki til þess hér í ræðustól á Alþingi að lýsa því yfir hvernig þáv. ríkisstjórn ætlaði að fjármagna þá framkvæmd. Þess vegna var alveg ljóst að fjármagna verður þá framkvæmd sem búið er að gera samning um með lántöku, það er alveg ljóst.
    Það sem bíður okkar nú er umfjöllun um vegáætlun fyrir árið 1989 og áfram og
sú umfjöllun hefst nú á næstu vikum og mánuðum. Ljóst er að um þessi stórverkefni sem eru hafin og eru fram undan í vegagerð á Íslandi verður að taka ákvörðun í næstu vegáætlun, hvernig að þeim verði staðið og hvaða tekjustofnar verða settir upp í sambandi við þau stórvirki. Þetta er framtíðin og ég er alveg handviss um það að við hljótum að geta náð samstöðu um það á hv. Alþingi að vegamálin eru eitt stærsta byggðamál í þessu landi. Við getum alveg hætt að tala um að sameina frystihús, sameina alls konar rekstur úti um landsbyggðina ef samgöngumálin verða ekki í lagi, það eru hreinar línur. Núv. samgrh., ég er ekkert að væna hann um að hafa ekki mikinn áhuga og góð áform um þessi mál, hefur lýst því yfir að í næstu vegáætlun og næstu fjárlögum verði hverjum einasta eyri skilað í tekjustofna Vegagerðarinnar og á það verður látið reyna.
    Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að eyða miklum tíma í þessa umræðu nú. Ég tel mig ekki þurfa þess. Ég get vitnað í ræðu hv. formanns fjvn. þar sem skýrt var lið fyrir lið, sem er líka óvenjulegt, hvert einasta atriði í þeim brtt. sem fjvn. lagði fram. Ég hef þá trú að staðið verði við það markmið, sem í mínum huga er eitt stærsta atriðið, að fylgja fjárlögunum eftir og taka nú rösklega á því atriði að staðið sé við það sem fjárlögin gera ráð fyrir. Það verði komið í veg fyrir að sífellt verði farið langt fram yfir fjárlög og sífellt verið að taka nýjar ákvarðanir sem ekki eiga stoð í fjárlögum. Þetta er atriði sem við höfum rætt áður og ég ræddi ítarlega

við 2. umr. fjárlaga. Ég skaut þar fram hugmyndum um hvort ekki væri orðið tímabært að gera sér grein fyrir því að við þurfum að fara að breyta fjárlagagerðinni, bæði að því er varðar tímamörk og eins aðferðinni við afgreiðslu fjárlaga. Ég held að tími sé kominn til að fara að hugsa alvarlega um það og það verður væntanlega gert á næstu missirum.
    Ég vil svo að lokum, virðulegur forseti, minnast á eitt lítið mál sem breytir í sjálfu sér ekki miklu fyrir þessi fjárlög. Rétt þykir þó að geta þess að af vangá féll niður við fjárlagagerðina eitt ákvæði 6. gr. sem hefur verið inni í nokkur ár, þ.e. heimildin um að selja Andakílsárvirkjun u.þ.b. tveggja km langa 66 kW línu á milli Vatnshamra og Andakílsárvirkjunar, sem nú er í eigu Rafmagnsveitna ríkisins, og hluta af byggðalínustöðinni á Vatnshömrum í Borgarfjarðarsýslu. Það er ekki ástæða til að flytja um þetta brtt. en ég nefni þetta hins vegar nú og það hefur orðið að samkomulagi á milli mín og formanns fjvn. að leggja til við nefndina að hún skrifi viðkomandi ráðuneyti bréf þar sem fram kemur að ef eftir þessari heimild verður leitað þá sé fjvn. þessu samþykk.
    Ég vona svo að fjárlögin verði samþykkt eins og meiri hl. gerir ráð fyrir og lýk hér máli mínu.