Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki ræða fjárlagafrv. sem slíkt. Það hafa aðrir sem talað hafa í þessari umræðu af hálfu Sjálfstfl. gert og hafa gert þar grein fyrir þeim sjónarmiðum sem Sjálfstfl. hefur varðandi frv. sem slíkt. Ég tala hér fyrir brtt. á þskj. 420.
    Lög um fjáröflun til vegagerðar segja til um með hvaða hætti tekjur eru fengnar til þess að annast vegagerð. Lögin eru nr. 79 frá 1974. Þar er í 1. gr. gert ráð fyrir innflutningsgjaldi af bensíni, í 5. gr. er gert ráð fyrir þungaskatti af dísilbifreiðum. Í 12. gr. þessara laga er gert ráð fyrir því að þetta fjármagn skuli notað til vegaframkvæmda. Auk þess skuli notað það fjármagn sem ætlað er á fjárlögum.
    Undanfarin tvö ár hefur eingöngu verið varið til vegagerðar því sem innheimst hefur samkvæmt þessum lögum en framlag ríkissjóðs hefur ekkert verið. Tekjur umfram áætlun hafa á þessum tveimur árum verið 180 millj. kr., áður var gert ráð fyrir 285 millj. kr., og það standa því á reikningi hjá ríkissjóði 180 millj. kr. Það hefur formaður fjvn. staðfest en hefur hins vegar sagt, sem sjá má af fjárlagafrv., að ekki sé gert ráð fyrir að greiða þessar 180 millj. kr. til vegaframkvæmda á þessu ári. En það sem meira er, á árinu 1989 er gert ráð fyrir að innheimta 3 milljarða 895 millj. kr. en aðeins eru ætlaðir 3 milljarðar 215 millj. kr. til útgjalda. Hér er um að ræða 680 millj. kr. sem samkvæmt fjárlögum er ekki ætlað að fara til vegagerðar en sem lögum samkvæmt eiga að gera það. Tillagan gengur út á að lögunum sé framfylgt og ekki ætluð meiri útgjöld en sem nemur þeirri upphæð sem hér munar eða 680 millj. kr. sem verði geymdar í ríkissjóði til næsta árs.
    Ég hafði heitið forseta að taka ekki nema tvær mínútur í þessa ræðu mína og ég hef nærri því staðið við það.